Það sem ég hef lært
Það sem ég hef lært
  • Load image into Gallery viewer, Það sem ég hef lært
  • Load image into Gallery viewer, Það sem ég hef lært

Það sem ég hef lært

Regular price
4.490 kr
Verð
4.490 kr
Regular price
Uppselt
Unit price
per 

Það sem ég hef lært.

Bókin sem vildi verða skrifuð, er komin út! Langar að þakka öllum sem hafa stutt mig í þessu skemmtilega ferli. Ég er þakklát og þrátt fyrir að vera bjartsýn svona að eðlisfari þá átti ég ekki von á þessum frábæru móttökum.

 

Bókin inniheldur hluta af þeim fjölmörgu pistlum sem ég hef skrifað á síðustu árum.

 

Áföll

Áföll sem við verðum fyrir á lífsleiðinni, ógna öllu kerfinu okkar og jafnvel því hvernig við skilgreinum okkur sjálf og heiminn í kjölfarið. Það er hægt að tala um atburð sem tekur af okkur stjórn – nokkurs konar sjálfræðissvipting þar sem við ráðum hvorki við atburðarás né aðstæður. Áföll hafa áhrif á tengsl okkar, hvort heldur sem það er við okkur sjálf eða við annað fólk.

Ástina

Það er mikilvægt að muna að besta tegund af ást kveikir von um nýja hamingju, ekki flótta frá gamalli óhamingju!! Það sem einkennir ánægjuleg og endingargóð sambönd öðru fremur er að fólk samþykkir sjálft sig og aðra eins og þeir eru í raun og veru. Þetta gerir þá kröfu að við þekkjum gildi okkar og séum meðvituð um almenn viðhorf til lífsins. Það er hægt að halda lífi í sambandi í langan tíma með þá von að „hann“eða „hún“ muni breytast.

Breytingar

Á sama tíma og ég tala um breytingar minnir fólk mig á að mér sé tíðrætt um núvitund, að vera sáttur við líf sitt hér og nú og æfa sig í að langa í það sem maður á hverju sinni. Það að vera í núinu og njóta þess er bara alls ekki það sama og að vera meðvitaður um að stundum þurfum við að takast á við breytingar í lífi okkar. Það er þetta jafnvægi, að vera sáttur við líf sitt á heildina litið á sama tíma og maður gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að þroskast og dafna sem manneskja með því að takast á við hin ýmsu verkefni sem verða á vegi manns.

Hamingjuna

Það er ýmislegt sem einkennir hamingjusamt fólk og meðal annars er það fjölskyldutryggð, þar sem þeir eru virkir þátttakendur í stórfjölskyldunni. Þeir eru þakklátir fyrir það sem þeir hafa og ófeimnir að segja frá því, eru hjálplegir, bjartsýnir og lifa meira fyrir daginn í dag. Þeir hreyfa sig reglulega, eru félagslega virkir í einhverju sem þeir hafa gaman af, vinna í sjálfstraustinu og vita hvað þeir vilja í lífinu.  Síðast en ekki síst þá fá hamingjusamir sömu verkefni og aðrir, verða stressaðir, upplifa áföll og erfiðleika en leynivopnið þeirra er sú sjálfstjórn og styrkur sem þeir sýna þegar tekist er á við þessar áskoranir. 

Húmor

Þegar einstaklingar halda lífi í húmornum er um leið verið að búa til ákveðna vörn gagnvart streitu, ágreiningi og vonbrigðum. Það er vitað að húmor hefur áhrif á heilsu okkar á marga vegu og nægir hér að nefna myndina Patch Adams sem er byggð á sannsögulegum atburðum en þar var hláturinn beinlínis notaður í læknisfræðilegum tilgangi. Húmor getur hjálpað okkur að slaka á og getur vakið upp ákveðna öryggistilfinningu:  Ég treysti ykkur og því leyfi ég mér að hlæja með ykkur. Húmor getur hjálpað okkur í gegnum pínlegar aðstæður og mildað stöðuna þegar við tökum rangar ákvarðanir.

Kvíða

Kvíðaviðbrögð eru náttúrleg leið líkamans til að vara okkur við að ógn steðjar að og þá er gott að minna sig á að ógnin þarf ekki að vera raunveruleg en viðbragðið er það sama þrátt fyrir það. Kvíðinn er alltaf í hörmungarhyggjunni og sér bara það versta. Þess vegna er gott að deila líðan sinni og hvað er að fara í gegnum kollinn á manni þegar maður t.d. verður fyrir áföllum og áskorunum í lífinu. Við þurfum að muna að þegar við erum að fara í gegnum erfiða tíma að þá er kerfið okkar viðkvæmara og þá þarf minna til að kveikja á því.

Líf í jafnvægi

Þegar við lifum andlegu lífi erum við meðvitaðri um að halda líkamanum vel nærðum og í góðu formi því það er grunnurinn að góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Við leitumst við að upplifa vellíðan í samskiptum við aðra og reynum að gera þau dýpri og merkingarbærari. Þar skipta máli gagnkvæm virðing, heiðarleiki og opin tjáskipti en flest sambönd styrkjast við það að auka hæfnina þegar kemur að tjáskiptum og lausnamiðaðri nálgun.

Meðvirkni

Þegar ég áttaði mig á því hvernig ég lét hegðun annarra hafa áhrif á mig tók ég stórt skref í átt til heilbrigðari samskipta. Í stað þess að halda í sjálfa mig þá átti ég það til að láta aðra hafa mikil áhrif á líðan mína sem þýddi auðvitað að ég gat sveiflast eftir því hvað var í gangi hjá öðrum. Þegar maður er alltaf að bregðast við öðru fólki sem er jafnvel á vondum stað er maður smám saman að eyðileggja sjálfan sig. Það er engin góðmennska að týna sjálfum sér á sama tíma og maður verður heltekin af vanda og líðan annarra.

Samskipti

Þau samskipti sem reyna einna mest á okkur eru þau sem eru í nærumhverfinu. Oft koma fjölskyldur sér ómeðvitað upp ákveðnum samskiptamynstrum, og þessi mynstur hafa jafnvel verið við líði í gegnum nokkrar kynslóðir. Til að taka dæmi þá gæti verið um vanda að ræða innan fjölskyldunnar sem er ekki tekið á og óskráða reglan er; í þessari fjölskyldu er þetta ekki rætt (því getum við látið eins og þetta sé ekki vandamál)!

Sjálfstraust

Það er talað um að grunnurinn að hamingjunni sé m.a gott sjálfstraust, sjálfsþekking og tilfinningin um að stýra eigin lífi. Ég vildi óska þess að þegar börnin okkar útskrifast úr grunnskóla þá væru þau klár á því hver þau væru, með styrkleika sína og hæfileika nokkuð á hreinu og hefðu kjarkinn til að prófa sig áfram. Það er ekki bara á ábyrgð skólanna að sjá til þess – ábyrgðin er okkar allra.

Skömmina

Það sem ég veit um skömmina er að við burðumst öll með hana og óttumst öll að tala um hana. Því minna sem við ræðum um skömm því meiru ræður hún um líf okkar.  Skömm er þessi sársaukafulla tilfinning að trúa því að það sé eitthvað að okkur og þess vegna séum við ekki þess verð að tilheyra og vera elskuð.