Vonarberar á erfiðum tíma!

Flest okkar sem hafa farið í gegnum erfiðleika og áföll kannast við þá óbærilegu tilfinningu að hafa enga stjórn á hlutunum og þessu fylgir oft depurð (jafnvel þunglyndi), hræðsla, vonleysi og ringulreið.
Spurningin er kannski; hvað og hvernig getur maður komist í gegnum svona tímabil? Það er ekkert einfalt svar við því og er bæði persónu- og aðstæðubundið en algengt að þeir sem reyna að gera eitthvað nálgist hlutina út frá lausnum og tilfinningum.
Þegar við förum lausnamiðuðu leiðina er átt við að skoða hvað er það sem við getum í raun og veru gert. Ef við sjáum að það er þarna eitthvað sem við ráðum við að gera þá tökum við eitt skref í einu og skipuleggjum jafnvel hvernig við ætlum að framkvæma. Við leggjum annað til hliðar á meðan og fókusinn er þá mestur á þetta (jafnvel eina) sem við treystum okkur til að gera. Þá skiptir líka máli að leita ráða hjá þeim sem vita meira um málið og tala við einstaklinga sem geta hjálpað. Stundum er lausnamiðuð nálgun óraunhæf og þá gæti tilfinningaleg nálgun verið eina svarið.
Þegar talað er um tilfinningalega nálgun þá er markmiðið að draga úr vægi erfiðra tilfinninga í kjölfar streituvaldandi aðstæðna. Þá getur verið mikilvægt að leita stuðnings til þeirra sem hafa innistæðu til að veita slíkt og þar geta stuðningshópar reynst vel. Eins getur trúnaðarvinur gegnt þessu hlutverki - aðal atriðið er að manneskjan sem við leitum til sýni okkur samhygð en ekki meðaumkun.
Ég hef sagt frá því áður að með tímanum hef ég því áttað mig á því að ég deili sögu minni varðandi ákveðna þætti í lífi mínu með þeim sem geta farið með mér á ákveðna staði - þeir sem hafa burði til þess og detta ekki ofan í þá gryfju að horfa niður til mín og segja með því „úff, hvað ég vorkenni þér“ en horfa frekar í augu mér og segja „ég er hérna með þér". Einhver sem heldur uppi voninni þegar vonleysið nær tökum á manni.
Tilfinningaleg nálgun snýst líka um að taka sér hvíld frá aðstæðum og takast á við eitthvað sem maður hefur gaman af því að gera. Þá skiptir líkamleg virkni máli - sem miðast auðvita við það sem maður treystir sér til að gera og félagsleg virkni er kannski aldrei jafn mikilvæg. Þegar við viljum breiða yfir haus og ekki hitta neinn þá þurfum við líklega mest á því að halda.
Síðast en ekki síst þá getur skipt sköpum að skrifa um líðan sína en það er ekki hvað maður skrifar sem skiptir máli - heldur það sem gerist á meðan skrifunum stendur. Með því að reyna að skilgreina áfallið í gegnum skrif minnkar jafnvel vægi ágengra hugsana sem getur svo aftur veitt manni þá tilfinningu að maður hefur einhverja stjórn á aðstæðum.
Ég hef haldið dagbók til margra ára en áttaði mig ekki á því að um tilfinningadagbók var að ræða fyrr en ég lærði það í gegnum jákvæðu sálfræðina. Þessi blessaða bók hefur stundum verið eina bjargráð mitt á erfiðum tímum.
Vonandi nýtast þessi skrif einhverjum sem eru að fara í gegnum erfiða tíma í augnablikinu heart broskall
Gangi þér vel!! Anna Lóa