Virðingin fæst ekki keypt!

Man eins og það hafi gerst í gær þegar ég fékk fyrsta ,,júníformið“ mitt – það var rétt eins og ég klæddi mig í meira sjálfstraust og sjálfsvirðingin jókst. Ég var afar stolt af starfinu mínu og fann hvernig ég ,,stækkaði“ um nokkra sentímetra, labbaði um bein í baki og fannst ég eiga heiminn. En það er með þetta eins og allt annað, sjálfstraustið og virðingin eru eitthvað sem við þurfum að byggja upp innan frá og þrátt fyrir að útlit og klæðnaður, staða á vinnumarkaði og peningar, bílarnir okkar og húsin, makinn okkar og prófgráðan, geti vel aukið á gleði okkar þá er oft um tímabundna sælu að ræða og oftast þarf meira til. Hér er ekki verið að setja samansem merki á milli þess að vera aðlaðandi vel menntuð manneskja, sem keyrir um á flottum bíl, á fallegt hús og flottan maka sé endilega með litla sjálfsvirðingu. Það sem átt er við að allt sem er utan við okkur sjálf og við bætum inn í líf okkar, getur gefið okkur þægilegt og metnaðarfullt líf, en yfirleitt þarf meira að koma til.

Sjálfsvirðing er um það hvernig maður metur sjálfan sig og þróast að mestu þegar við erum börn. Ef við fáum misvísandi skilaboð frá umhverfi okkar í æsku er ekki ólíklegt að við eigum í erfiðleikum með eigin sjálfsvirðingu. 
Skilaboðin sem við fáum
Dæmi um hluti sem geta farið úrskeiðis og geta haft mikil áhrif á okkur síðar á ævinni eru skilaboðin um að við séum annað hvort minna virði en aðrir eða það sem færri gera sér grein fyrir, þegar okkur er talin trú um að við séum miklu betri en allir aðrir.

Við þurfum oft að staldra við og skoða hvert mat okkar er og hvort og þá hvernig það hefur breyst í gegnum tíðina. Er ég að meta mig á sanngjarnan og raunsæjan hátt, og er ég tilbúin að takast á við lífið án þess að vera þræll þeirra ytri þátta sem geta gefið af sér falska virðingu? Sá sem er með litla sjálfsvirðingu á í erfiðleikum með að gefa rými fyrir mistök og eru dómharður á sjálfan sig og getur leitað í öfgafullt mat þar sem hann telur sig annaðhvort minna virði en aðrir eða miklu betri en almennt gengur og gerist. Ekkert pláss fyrir meðalmennsku.

Innri óróleiki
Ég fór í gegnum tímabil þar sem ég var alltaf að flytja – hafði ekkert með stöðuna á húsnæðismarkaði að gera sem er líklega oftar ástæðan fyrir flutningum í dag. Einn daginn staldraði ég við og hugsaði ,,af hverju er ég alltaf að flytja og hvaða órói er þetta í mér“. Staðreyndin er nefnilega sú að við venjumst öllu í lífi okkar og þegar nýja brumið er farið af nýja húsinu þá banka aftur upp þeir þættir sem eru í ,,raun“ að trufla mann. Maður getur farið í gegnum lífið og reynt að hylja það sem er virkilega að trufla mann – og þá gerir maður það yfirleitt með einhverjum ytri þáttum.

Já, ég festist á þeim stað að uppfylla allt sem mig langaði að eignast hið ytra í stað þess að vera meðvituð um hvers ég þarfnaðist í raun og veru sem manneskja. Ég þurfti að staldra við og hugsa: hver er ég eiginlega og hvað er það sem ég er að leita eftir. Til að gera langa sögu stutta þá þurftir ég að taka ansi stóra beygju þar sem ég komst t.d. að því að þrátt fyrir að vera afar stolt af starfinu mínu í byrjun þá var hver einasta taug í líkamanum sem sagði að ég ætti að vera að gera eitthvað annað. Ég vissi ekki alveg hvað – en sá mig í anda vera að tala fyrir framan hóp af fólki og þess á milli að sitja við skriftir. Ágætt að það komi fram að ég skrifaði ekki í mörg ár og komst í raun ekki að því hvað mér fannst það skemmtilegt fyrr en ég byrjaði í háskólanámi og á meðan aðrir nemendur blótuðu ritgerðum þá fagnaði ég því að ,,fá“ að skrifa. Það var einstök upplifun að setjast niður og horfa á orðin og setningarnar mynda eitthvað ,,verk“ sem ég oftar en ekki gat verið stolt af. Þetta gat engin tekið frá mér og þarna byrjaði ég að finna mig.

Lífið þitt - fyrir þig og aðra
Þegar við erum með sjálfsvirðinguna í lagi þá lifum við lífi okkar til fullnustu þrátt fyrir ófullkomleika, mistök, aukakíló, og annað sem við teljum til galla sem haldi hamingjunni frá okkur. Þegar við hættum að treysta á ytri þætti og leyfum okkur að rekast á upplifum við til skiptis mikinn kjark og hræðslu en á sama tíma að við séum svo á lífi. Sjálfsvirðingin eykst þegar við höfum kjark til að taka þátt í lífinu með þá vissu að maður sé mikils virði og hræðumst ekki álit annarra á tilveru okkar.  Það er ekki alltaf auðvelt að sleppa því að velta sér upp úr því hvað öðrum finnst en áhættan er þess virðir og mun heilbrigðara að huga að eigin tilfinningum, trú og hver við erum í raun og veru!!

Sjálfsvirðinguna verðum við að byggja innan frá. Þrátt fyrir að við getum veitt okkur ýmislegt í lífinu sem veitir bæði gleði, þægindi og bættari stöðu, þá er sannleikurinn sá að það reynir oft ekki á sjálfsvirðingu okkar fyrr en við sitjum uppi með okkur, strípuð af öllu því sem við töldum vera forsenda þess að lifa góðu lífi. Þá og einmitt þá reynir á það hvort við skynjum okkar innra verðmæti og hvers virði við erum sem manneskjur.

Vona að dagurinn verði góður.

Kærleikskveðja

Anna Lóa