Vera meira - segja minna!

Vinkona mín kom til mín fyrir nokkrum árum með þessa eftirminnilegu setningu „Anna Lóa, ég man þegar þú misstir mömmu þína þá sagði ég , oh hvað ég skil þig, þetta hlýtur að vera svo erfitt. Nú er ég búin að komast að því að ég skildi þig bara ekki neitt, en ég skil þig núna þegar ég hef farið í gegnum sömu reynslu“. Viðbrögð mín voru að hughreysta hana og benda á að sem betur fer vissi hún ekkert hvernig mér leið því það sé alveg nóg að upplifa það sjálfur þegar á reynir. En hún hafi sýnt mér samkennd á erfiðum tíma og það hafi verið ómetanlegt. Öll fáum við verkefni en þegar við stöndum til hliðar og upplifum að okkur langar svo að hjálpa öðrum getum við gert ýmislegt þrátt fyrir að hafa ekki farið í gegnum sömu reynslu sjálf.

Samkennd er vilji okkar til að líða þjáningar annarra, og þrátt fyrir að skilja ekki alveg aðstæður viðkomandi þá getur nærvera okkar gert það að verkum að viðkomandi líður betur. Við erum svo gjörn á að sjá lífið með okkar eigin gleraugum og í samskiptum gætum við verið gjörn á að grípa í einhverja frasa sem við höldum að séu til þess fallandi að hjálpa og næra en hafa öfug áhrif. Stundum þurfum við ekki að segja neitt og við getum líka viðurkennt að við vitum ekki hvað viðkomandi er að upplifa en verið til staðar á erfiðum tíma.

Samhygð byggir á því að við setjum okkur í spor annarra. Eftir að ég missti foreldra mína á ég auðveldara með að sýna samhygð og þegar einhver segir mér frá sömu reynslu fer ég ósjálfrátt til baka og sæki tilfinningar sem tengjast þessari reynslu. Ég á því auðveldara  með að átta mig á því hvað viðkomandi er að upplifa á sama tíma og ég má aldrei ætla örðum sömu tilfinningar og ég upplifði sjálf. Fólk upplifir misjafnar tilfinningar og við andlát ættingja og getur þetta verið sambland af allskonar tilfinningum og ég get ekki gefið mér að allir upplifi það sama og ég gerði. Ég þarf því að passa mig á að segja ekki við fólk sem er að fara í gegnum þessa reynslu ,,ég veit alveg hvernig þér líður“  frekar að spyrja ,,hvernig líður þér“ og taka mig út úr myndinni.

Við eigum svo til að setja okkur alltaf inn í mengið og taka þannig athyglina frá manneskjunni sem þarf hvað mest á henni að halda. Reynsla mín er eingöngu mín og ef ég ætla öðrum að vera eins og ég gæti ég auðveldlega sært viðkomandi í stað þess að vera til staðar á erfiðum tíma. Ég hef bæði tekið þátt í og verið vitni af því þegar manneskja leitar eftir samkennd eða samhygð en stendur uppi með vanmátt gagnvart hlustendum sem hafa allir frá erfiðari reynslu að segja og ,,toppa“ þannig reynslu manneskjunnar sem þurfti á einhverju allt öðru að halda.

Mín reynsla er sú að þegar okkur líður illa þurfum við fyrst og fremst á nánd að halda og að þeir sem við leitum til viðurkenni að okkur megi líða svona. Samfélagið gerir oft ráð fyrir að við séum ALLTAF svo dugleg og því gæti okkur þótt erfitt að deila þessum erfiðu tilfinningum. En þegar við förum í gegnum erfiða reynslu þurfum við einmitt að fá að tjá okkur um hana og að þeir sem við leitum til viðurkenni fyrst og fremst að svona má okkur líða. Opinn faðmur, kærleikur og virk hlustun er það sem við þurfum en ekki  viðmið við reynslu annarra.

Stundum þurfum við að vera meira og segja minna!!
Kærleikskveðja


Anna Lóa