Vellíðan, líf í jafnvægi

Fyrsta deginum lokið í þeirri viðleitni minni að auka orkuna. Gekk vel - mjög vel meira að segja. Finnst yndislegt að vera komin í rútínuna aftur og hagaði deginum eins og ég hafði ætlað mér: meira vatn, gott fæði, klukkutíma æfing og góð slökun. Ætla að minnka tölvunotkun líka - finn að hún tekur frá mér orku - svo ég þarf að skrifa þetta mjög hratt Andlegi þátturinn skiptir ótrúlega miklu máli þegar kemur að lífi í jafnvægi og finnur maður vel að þegar hallar þar á hefur það áhrif á svo margt annað.

Þegar ég var í áfanganum Sálgæsla og öldrun, komst einn læknirinn vel að orði þegar hann sagði: svona heilt á litið þá erum við með líkamlega og andlega ábyrgð upp að fimmtugu - eftir það þurfum við að treysta á okkur sjálf. Auðvita eru allskyns undantekningar á þessu en sé miðað við einhverskonar meðaltal þá var hann að segja að það skiptir máli hvernig við högum lífi okkar fyrri part ævinnar til að ákvarða hvernig seinniparturinn verði. Þannig er raunhæft að okkur líði hvorki vel andlega né líkamlega ef við förum illa með musterið okkar fyrri hluta ævinnar - en ef við vöndum okkur og virðum þennan eina líkama sem okkur var úthlutað, sé annað upp á teningnum. Lykillin sé að leita eftir jafnvægi.

Þá skiptir líka máli að átta sig á því að þetta snýst yfirleitt um það að gera það sem við vitum að er gott fyrir okkur. Ef við ráðum illa við hversdagsleikann er meiri hætta á að við búum okkur til ákveðin neyslumynstur. Ef við erum ekki í góðum tengslum við okkur sjálf og aðra finnst okkur jafnvel að við eigum allt skilið eða jafnvel það sem er enn verra, að við eigum ekkert gott skilið og það sé göfugt að vera í pínulítilli þjáningu. Þeir sem eru í neyslu eiga erfitt með að finna fyrir tilfinningum og öll tengsl verða erfið og fíkillinn yfirleitt ekki tilbúinn að fara í þá vinnu (nema hann fari í meðferð). Maðurinn er í grunninn tengslavera og ávöxtur góðra tengsla hjálpar okkur að takast á við tilfinningar sem hefur áhrif á lífið í heild sinni. Góð leið til að hækka tilfinningalega meðvitund er að halda tilfinningadagbók og ráðlegg ég það oft.

Þegar við lifum í sátt og góðum tengslum við okkur sjálf og aðra erum við öruggari að taka ákvarðanir sem henta okkur. Það skiptir því miklu málið að við öðlumst getu og vilja til að reyna að lifa lífi í jafnvægi. Stundum dettum við í þá gryfju að reyna að laga tengslin við okkur sjálf með samböndum við aðra og erum þannig sjálf með blæðandi sár en sinnum mikið sárum annarra. Það er þessi meðalvegur að vera til staðar en drukkna ekki í blóði annarra.

En þetta var smá innlegg um andlega þáttinn - sem skiptir gríðarlega miklu máli upp á orkuna. Nú ætla ég með góða bók upp í rúm og hlaða fyrir morgundaginn.

Góða nótt og gangi þér vel.

Kærleikskveðja
Anna Lóa

Mynd: shutterstock.com