Veldu fyrir þig!

Dreymir þig um eitthvað í lífinu en ert að bíða eftir rétta tímanum eða eftir að vera nógur örugg/-ur til að hefjast handa! Öryggið kemur ekki fyrirfram heldur með æfingunni. Ertu kannski að bíða í þeirri von að einhver annar uppgötvi hæfileika þína eða átti sig á hvað það er sem þig dreymir um. Eða ertu kannski að telja þér trú um að með því að vera úr hófi fram hógvær að þá verðir þú verðlaunuð/aður að lokum með stöðunni, laununum, tækifærunum eða makanum! Allir þeir sem hafa náð árangri eru einstaklingar sem hafa þorað að eiga drauma og fylgt þeim eftir þrátt fyrir að á móti blási eða fáir haft trú á þeim. Öryggið kemur með framkvæmdinni, alveg eins gott að byrja í dag!!

En svo lætur þú til skara skríða og breytir því sem þú telur að þurfi að breyta. Ertu spennt-/ur að deila því með öðrum og bregður svolítið að finna að viðbrögðin eru öðruvísi en þú bjóst við. Fólk segir jafnvel ,,þú hefur breyst svo“ með neikvæðum formerkjum. Þú hugsar: Já en þetta eru GÓÐAR breytingar fyrir mig – af hverju samgleðst fólk mér ekki!! En það er ekki það sem skipti máli - því það er alveg sama hvað þú gerir (eða ég), það er alltaf einhver þarna úti sem segir: guð minn góður, hvað er með hana Önnu Lóu, aldrei mundi mér detta í hug að gera þetta, ha!!!

Þá þarftu að muna að það er alveg sama hvað þú ákveður að gera, hvort sem það er að ákveða að hætta að drekka, breyta um mataræði, skipta um vinnu, skilja við makann, hreyfa þig meira, flytja til útlanda ofl. - allt í einu poppa upp sérfræðingar í málefnum ,,þínum“ sem leyfa sér að hafa sterkar skoðanir á því hvað sé best fyrir þig. Þetta getur í raun átt við hvaða hluti sem er í lífi þínu en þá er svo mikilvægt að muna að þegar þú ákveður að breyta einhverju getur það verið óþægileg áminning fyrir aðra.

Við erum sjálf sérfræðingarnir í eigin lífi og lendum frekar í vanda þegar við hættum að hlusta á okkar innri rödd og förum að sveiflast eftir röddum annarra. Það er örugglega fullt af jákvæðum röddum í kringum okkur líka – þær kafna bara í neikvæðni og athugasemdum. Ef þú stendur frammi fyrir ákvörðun þá skaltu forðast að fá að heyra skoðanir mjög margra á því sem þú ætlar að gera. Ákveddu fyrst með sjálfri/sjálfum þér hvað þú telur vera best fyrir þig, deildu með þeim sem hafa burði til að hlusta og meta stöðuna og segðu svo hinum hvað þú ætlar að gera.

Ef þú ert ein/einn af þeim sem stendur þig að því að vera með valkvíða þá skaltu æfa þig í ákvörðunum, t.d. í tengslum við litlu hlutina sem hafa ekki mikilvægt vægi í lífi þínu en skipta samt máli. T.d næst þegar þú ferð út að borða. Skoðaðu matseðilinn og veldu svo það sem ÞIG langar í – en ekki spyrja alla við borðið

„hvað ætlar þú að panta – en þú – en þú – en þú!!“ Segðu minna af setningum eins og „ mér er alveg sama – veldu bara fyrir mig“ því þá ertu að segja umhverfinu að skoðanir þínar skipti ekki máli. Prófaðu eitthvað nýtt – ef þú gerir alltaf það sama þá verður líf þitt alltaf eins. Ef þú segir NEI – stattu þá við það þrátt fyrir að finnast það erfitt.

Stattu með sjálfri/sjálfum þér alla leið – annars tekur einhver annar stjórnina og velur hvað er þér fyrir bestu sem er oftast það sem hentar hinum aðilanum best. Þegar þú hefur misst stjórnina á eigin lífi – þá hefur þú misst stjórnina á eigin lífi – og þá eru það litlu skrefin sem þú þarft að taka til að ná aftur stjórn. Öll skrefin eru mikilvæg – líka að þú ákveðir fyrir þig hvernig dagurinn eða helgin á að vera, og standir með þér þegar þú tekur þær ákvarðanir. Við tölum oft um að unglingar séu áhrifagjarnir – sannleikurinn er sá að við látum öll, sama á hvaða aldri við erum, utanaðkomandi áhrif trufla okkur allt of mikið og gefum afslátt af okkur, þörfum okkar og skoðunum, til að gera öðrum til geðs. Það er okkar að breyta því, okkar að taka ákvörðunina og taka ábyrgð á henni líka.

Veldu þitt líf fyrir þig 🙂

Gangi þér vel!
Kærleikskveðja ❤
Anna Lóa