Tölum saman!!

Er svo meðvituð um hve stóran þátt samskipti eiga í lífi okkar allra og mikilvægt að vera tilbúin að skoða hvernig þeim er háttað hjá manni sjálfum og í því umhverfi sem tilheyrir manni. Það hefur löngum verið talað um það að konur og karlmenn tjái sig misjafnlega, þannig að við konurnar tjáum okkur til að komast að því hvernig okkur líður á meðan karlmenn tjái sig um vandamál til að finna lausnina (auðvita ekkert svart eða hvítt í þessu). Þetta getum við séð á netmiðlum þar sem við konur erum frekar að tjá okkur til að gefa af okkur og fá vitni af því hvernig okkur líður, en erum á sama tíma að tala við okkur sjálfar. Karlmenn eru kannski frekar í að deila fréttum og hagnýtum upplýsingum, fara minna inn á persónulega svæðið en eru kannski duglegri að segja skoðun sína á ,,hálfvitanum“ sem skrifaði fréttina. Karlmenn (margir) eru frekar línulaga í hugsun, það er upphaf og það er endir en á meðan erum við konurnar (margar) frekar hringlaga, upphaf, miðja, upphaf, miðja.....förum út í smáatriðin og allt sem gæti tengst efninu.

Það er hægt að nota netmiðla á skapandi og skemmtilegan hátt en þeir geta líka komið í veg fyrir að við séum að eiga samtalið – en það kemur aldrei neitt í staðinn fyrir það. Við þurfum nándina, svipbrigðin og tilfinninguna fyrir manneskjunni fyrir heilbrigð samskipti og það er ekki til sú tækni sem býr yfir þessum þáttum.

Ég hef lært mikið um samskipti og sjálfstraust og er svo meðvituð um tengslin þarna á milli. Þegar öryggið okkar er lítið, litar það öll samskipti og hætt á því að maður lesi kolrangt í aðstæður. Þá miðast allt út frá manni sjálfum og maður metur umhverfið sitt á óraunhæfan hátt. Þegar maður er farin að átta sig á þessu er gott að staldra við og hugsa: hvar er ég stödd/staddur núna. Hvað af því sem ég er að upplifa hefur með mig að gera! Aðal spurningin væri svo: hverngi næ ég í öryggið mitt aftur – og þar getum við farið misjafnar leiðir. Stundum erum við orðin það æfð í að ná í öryggið okkar að við þurfum bara að fara í hugsunina og leiðrétta (svona eins og villupúkinn) en við gætum líka þurft að spegla okkur í einhverjum sem hefur burði til að sjá hvar við erum stödd og hjálpar okkur að leiðrétta. Stundum þurfum við að gera eitthvað (fara ein út í göngu, ganga á fjöll, setjast niður og skrifa, eitthvað sem nær okkur úr hugsanavillunni) sem gerir það að verkum að við náum í OKKUR aftur.

Þegar við erum í samskiptum við aðra og lendum í samskiptaerfiðleikum erum við oft að sækja í gömul ,,kerfi“ sem voru við líði í fortíðinni. Við búum þannig við ógn fortíðar og þurfum því oftar en ekki að vinna í okkur sjálfum til að takast á við erfiðleika nútíðar. Ef við dettum í þá gryfju að spegla bara hinn aðilann og hverju hann getur breytt erum við ekki á góðum stað. Erfiðleikar sem ekki er unnið úr geta fylgt okkur um ókomna tíð og oftar en ekki snúast erfiðleikarnir um það sem er EKKI tjáð og tekist á við.

Ef við upplifum að við séum að lenda í sömu vandamálunum aftur og aftur þurfum við að vera tilbúin að skoða okkur sjálf. Þegar við verðum ástfangin og leyfum okkur að opna hjarta okkar, erum við í leiðinni að opna fyrir gamlar tilfinningar og ótti okkar og efasemdir koma upp á yfirborðið. Þegar þessir hlutir gerast endurtekið heyrir maður gjarnan: það er best að vera bara ein/einn. Þannig getur hræðsla við höfnun tengst sárum tilfinningum úr fortíð þrátt fyrir að forsendur séu aðrar. Við þurfum að muna að tjá okkur því nánd og heilbrigð samskipti snúast ekki síst um að treysta hinum aðilanum fyrir tilfinningum okkar, hvort sem þær eru jákvæðar eða erfiðar. 

Þegar erfiðar tilfinningar koma upp hjá karlmönnum loka þeir oft fyrir tjáningu og þegar þær koma upp hjá konum þá hrynur öryggi þeirra. Með því að deila erfiðum tilfinningum með hvort öðru erum við í leiðinni að dýpka sambandið og auka líkur á að við lærum betur inn á tilfinningar hvors annars. Ef munnleg tjáning reynist erfið má skrifa bréf.

Á heildina litið eru sambönd góð leið til að læra af hvort öðru og með því að virða hvort annað á þeim stað sem við erum, erum við á góðri leið! Heilbrigð samskipti snúast um að tjá sig en ekkert síður að hlusta. Þau snúast um að sýna ákveðna staðfestu og stuðning þegar það á við þar sem traust og virðing fyrir náunganum eru grundvallar atriði.

Kærleikskveðja

Anna Lóa