Til hamingju Ísland!!

„England er ein af stærstu fótboltaþjóðum heims og er kannski með mestan fókus á sér af öllum og það verður risastórt. Við þurfum að safna miklum krafti. Við eigum séns og erum spenntir.“ Theodór Elmar landsliðsmaður í fótbolta.
Þið sýnduð svo sannarlega kraft – ótrúlegan kraft! Það hefur verið dásamlegt að vera þátttakandi í fótboltaveislu þjóðarinnar s.l viku. Held að hvert einasta mannsbarn sem hefur vit á því sem er í gangi, sé að fylgjast með og það er bara ekkert skrýtið. Það er ótrúlega gaman að fagna svona yfirleitt – en að geta fagnað með þjóð sinni er algjörlega ómetanlegt. Þar fyrir utan eru erlendir vinir að setja sig í samband við íslensku vini sína og fagna og hvetja og þjóðir sem hafa þegar fallið úr keppni samgleðjast og standa með okkur. Norðurlöndin eru sem eitt – og í einu norsku blaðanna var fyrirsögnin; í dag erum við öll Íslendingar!

Tilfinningaútrás af bestu gerð!

En það sem meira er, þessa dagana þá er þjóðin að upplifa saman þvílíka tilfinningaútrás. Hef ekkert alltaf gefið mikið fyrir fótboltagláp en þegar ég gerði mér grein fyrir að það má líkja þessu við þá iðju mína að horfa á góða bíómynd þar sem ég fæ stórkostlega tilfinningaútrás á að horfa á dramatískar myndir/þætti sem koma við mínar innstu taugar og best ef ég fer aðeins að grenja. Synir mínir hafa vit á því að segja sem minnst ef þeir koma að mér í þessu ástandi en versta sem er hægt að segja við mig er: common mamma, þetta er bara bíómynd! Bara bíómynd, BARA bíómynd, ég held nú síður. Þetta er mynd sem kemur mér í tengsl við tilfinningar mínar, dýpkar skilning minn á mannkyninu og gerir mig að betri manneskju þegar upp er staðið.

Þegar ég hugsa um fótboltaleik má segja að þetta nákvæmlega eins og þessar upplifanir mínar og aðeins meira til á svona stórmótum. En þeir sem eru ofurseldir þessari iðju þekkja liðið sitt inn og út, þjálfara þessa og/eða knattspyrnustjórann. En það sem meira er, með því að vera innviklaður í leikinn er maður á sama tíma að komast í nánari tengsl við tilfinningar sínar sem þegar til lengri tíma er litið er aldeilis frábært.

Það er gaman að fylgjast með fólki horfa á spennandi leiki en mér finnst dásamlegt að fylgjast með karlmönnum horfa á spennandi leik. Þeir fella tár, faðmast, hrópa og kalla, bölva og stappa og fá útrás sem þeir fengju ekki alla jafnan og sumir mundu jafnvel skammast sín fyrir. Jafnvel þótt liðið tapi leik stækka þeir tilfinningasviðið sitt og deila með öðrum vonbrigðum sínum og svekkelsi um leið og þeir greina hvað fór úrskeiðis. Þannig getur einn fótboltaleikur jafnast á við nokkra meðferðatíma hjá fagaðila.

Viðurkenninguna fær ekki sá sem gagnrýnir.......

Áhrifin á þjóðina

Áhrif þeirra á land og þjóð snýst um meira en fótboltann, því þær tilfinningar sem bærast með þjóðinni þessa dagana má svo sannarlega nýta til margra góðra verka. Það er til fyrirmyndar sú framkoma sem við höfum orðið vitni af hjá landsliðinu og þeirra fylgisveinum. Auðmýkt, staðfesta, styrkur og þessi ótrúlega liðsheild þar sem allir eru fyrir einn og einn fyrir alla. Eins og ég hef svo oft sagt; það þarftu ekki að slökkva ljós annarra til að þitt skíri skærar – og í viðtölum síðustu daga er það aðdáunarvert hvernig leikmenn leiða fréttamenn alltaf inn á að tala um liðið í stað einstaklinga.

Hvernig sem framhaldið verður þá hefur landsliðið þegar unnið stórsigur. Við höldum áfram að styðja við bakið á þeim enda nokkuð ljóst að stuðningur okkar hefur skilað sér alla leið inn á völlinn. Ágætt að enda á orðum landsliðsmannsins sem var vísað í hér í byrjun: „Mér leið pínu eins og að England væri með þunga þjóðina á bakinu, á meðan þjóðin okkar bar okkur áfram í þessu. Það er stór munur þar á." Theódór Elmar Bjarnason, leikmaður íslenska landsliðsins

Fótboltakveðja héðan úr Horninu mínu!

Anna Lóa

 Mynd: 

Jannes Glas on Unsplash