Þótt á móti blási!!

Ertu að takast á við einhver verkefni sem þú ert þreyttur á? Ertu að vinna að einhverju takmarki en gleðin er farin úr vinnunni? Ertu í námi sem er að sliga þig? Langar þig að ná einhverjum ákveðnum stað í lífinu en þoka og efasemdir umlykj...a einhvern veginn aðstæður þínar og hugsunin; mun ég einhvern tímann ná þangað - á greiðan aðgang að þér!! Sjálfstraust snýst einmitt um það að hafa trú á því að þrátt fyrir að við upplifum efasemdir, þreytu, áhugaleysi og annað sem maður finnur óhjákvæmilega fyrir í tengslum við svo margt, haldi maður samt áfram. Þetta snýst um að þrátt fyrir að maður sjái ekki alveg til lands að þá trúi maður því að þangað muni maður komast. Snýst um að þrátt fyrir að detta til baka öðru hvoru þá standi maður alltaf aftur í lappirnar og taki skrefin áfram þótt haltur sé. Maðurinn hefur tilhneigingu til að venjast öllum hlutum í lífi sínu. Eitthvað sem er spennandi einn daginn verður að vana og maður hættir að sjá hvað það var sem vakti áhuga manns eða gleði til að byrja með. Þá reynir á og ef maður vill ná árangri í lífinu og ekki gefast upp þegar mesta gleðin er farinn, þá þarf maður að vera tilbúin að horfast í augu við blóð, svita og tár og halda áfram þrátt fyrir allt. Þrautseigjan er þá ferðafélagi okkar þegar ákafinn þverrar en ef þú vilt ná árangri þá byrjar lífið einmitt þegar þú ákveður að halda áfram þrátt fyrir efasemdir, gagnrýni, ákafa og óvissu. Hvort sem takmarki þínu er náð eða ekki þá skiptir öllu máli fyrir þig að halda áfram þótt á móti blási og leita þér þá stuðnings frá þeim sem skilja þig. Það þarf líka kjark til að halda áfram, sérstaklega ef stuðningurinn er lítill. Þá verður þú, og jafnvel þú einn að sjá algjörlega fyrir þér hvert þú vilt fara. Ég get alveg lofað þér því að það koma tímar sem þú ert jafnvel einn með þessa sýn - en þú mátt aldrei sleppa henni. Það koma dagar sem þér finnst þú vera sigraður en þá getur skipt máli að fá von lánaða hjá öðrum. Þrátt fyrir að þér mistakist þá mun vissan um að þú hélst áfram og hafðir kjark til að standa með sjálfum þér auka sjálfstraust þitt á sama tíma og þú ert minntur á að gott líf er ekki án áskoranna og erfiðleika. Lífið snýst einmitt um hver við erum þegar þessar áskoranir og erfiðleikar herja á okkur. ,,Viðurkenninguna fær ekki sá sem gagnrýnir eða bendir öðrum á þegar þeir misstíga sig og hvernig þeir hefðuð geta gert betur. Viðurkenninguna fær sá sem er í aðstæðunum, horfist í augu við blóð, svita og tár, sem berst áfram og hefur kjark til að gera mistök, aftur og aftur. Því hann veit að árangri fylgja oft mistök eða vonbrigði, þess vegna heldur hann áfram, já berst áfram með ákafa og þrautseigju og gefur allt sem hann á fyrir verðugt málefni. Í besta falli upplifir hann sigurvímu vegna þess að takmarkinu var náð, en ef honum mistekst þá í versta falli mistekst honum á sama tíma og hann hafði kjark til að halda áfram" (Roosevelt). Kærleikskveðja Anna Lóa