Þitt eigið húsaskjól!

Mikilvægt þegar við erum að reyna að lifa í jafnvægi að hlúa að öllum þeim þáttum sem gerir okkur heil. Maður er líkami, andi og sál og þarf að hafa það í huga þegar við hugum að heilbrigði. Getur verið gott að nota myndlíkingar og í þessum pistli ætla ég að líka manneskjunni við hús. Ímyndaðu þér að þú sért hús - kjallari, hæð og ris. Kjallarinn geymir fortíðina og þar eru sálarlíf okkar og tilfinningar. Á hæðinni er líkaminn okkar og þar rúmast líkamsrækt, mataræði og önnur neysla. Í risinu er hugurinn og innsæið, eða þeir andlegu eiginleikar sem búa innra með hverjum manni. Það segir sig sjálft að til að okkur líði vel þarf að huga að öllum hæðunum í húsinu. Ef það er allt í drasli í kjallaranum og þar með í sálarlífi okkar og tilfinningum er ekki ólíklegt að fnykur ótta, neikvæðni og kvíða leiti upp á næstu hæðir. Óttinn, neikvæðnin og kvíðinn hafa bæði áhrif á miðhæðina og risið, sem þýðir að það er meiri hætta á að við förum að deyfa tilfinningar okkar með neyslu (í mat, áfengi, fíkniefni, líkmasrækt, vinnu, samböndum ofl.) sem þýðir að risið er ekki í góð ástandi. Innsæið okkar virkar ekki og við upplifum lélegt andlegt ástand. Til þess að líða vel á heildina litið þurfum við að byrja á því að taka til í kjallaranum. Þurfum að skoða hvað við erum með þar, og hafa kjark í að henda því sem við vitum að nýtist okkur ekki í dag. Til þess að okkur takist þetta þurfum við að hafa kjark til að skoða hvað situr í hillunum okkar - hillum sálarkjallarans. Við gætum þurft að opna fyrir eitthvað sem hefur verið lokað fyrir en vanlíðan okkar og skömm er jafn mikil og leyndarmálin okkar eru mörg. Erfið reynsla eða óuppgerð sorg hverfur ekki en finnur sér annan farveg ef ekki er tekist á við þá hluti. Við þurfum líka að vera meðvituð um að þegar við erum að bregðast við hlutum með ótta, kvíða eða neikvæðni að þá erum við yfirleitt að sækja í eitthvað gamalt – eitthvað í kjallaranum. Ég er t.d. meðvituð um að þegar ákveðin hegðun fólks hefur sterk áhrif á mig þá er ég að sækja í eitthvað gamalt. Það skrýtna er að þrátt fyrir að maður viti hvað er í kjallaranum þá sækir maður í draslið þangað, aftur og aftur, þar til maður fær nóg og fer að taka til. Ég er t.d. meðvituð um að þrátt fyrir að ég viti hvers konar samskipti eru slæm fyrir mig þá sæki ég í þau aftur og aftur þar til ég tek til hjá mér og ákveð að ég vilji hafa húsið mitt öðruvísi. Við sækjum í það sem við þekkjum, hvort sem það er gott fyrir okkur eða ekki. Nýir og framandi hlutir geta gert okkur óörugg sem gerir það að verkum að við veljum okkur jafnvel aftur og aftur inn í aðstæður sem eru ekki góðar fyrir okkur. Ef við erum vön spennuþrungnu ástandi þá þurfum við að venjast öllu sem er kallað normal ástand – og líkur á að okkur finnist það frekar flatt og leiðinlegt miðað við það sem við þekkjum. Svo notum við jafnvel setningar eins og: af hverju vel ég mér alltaf eins félaga EÐA af hverju lendi ég alltaf í svona samböndum? Ástæðan liggur þarna - við veljum það sem við þekkjum, eða þá að umhverfið velur okkur sem búum yfir kunnuglegri hegðun. Því skulum við vera samtaka í því að taka til í kjallaranum, skoða hvort það séu einhver mynstur í gangi og hvernig við getum endurraðað og endurskoðað. Við erum reynslan okkar, það er bara þannig, og öll fáum við slatta af verkefnum, áföllum og erfiðleikum í lífi okkar sem mótar okkur og hegðun okkar. Mundu - þú getur fengið aðstoð við að taka kjallarann í gegn og oft er þetta spurning um að taka eitt herbergi fyrir í einu. Kærleikskveðja! Anna Lóa