Þinn eigin besti vinur!

Mér finnst ég loksins vera búin að átta mig á því að ef ég á erfitt með að sætta mig við kringumstæður í lífi mínu er það oft vegna þess að ég hef á einhvern hátt ekki fylgt því sem að ég veit að er gott fyrir mig. Ég er ekki að tala um sjúkdóma eða önnur áföll, frekar þessi verkefni sem við erum að fást við dags daglega. Við erum flest sérfræðingar í lífi okkar og eina manneskjan sem veit hvað er gott fyrir mig er ég sjálf. Ég get átt það til að fara að miða mig við aðra eða þrjóskast við að taka ákvarðanir sem ég veit að ég þarf að taka og þannig hreinlega lokað á innsæið þegar það öskrar á mig.

Stundum hef ég farið í gegnum tímabil þar sem ég veit að ég er ekki á réttri leið en haldið áfram í þeirri von að einn daginn gangi ég í takt við gildismat mitt og væntingar. Stundum hef ég farið í gegnum tímabil þar sem ég þrái að breyta einhverju en hef ekki haft kjarkinn því mér hefur fundist ég vanþakklát að vilja eitthvað meira út úr þessu lífi.

Það er ekki alltaf auðvelt að vera fylgin sjálfum sér og takast á við breytingar. Við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum í staðinn ef við breytum og erum jafnvel dauðhrædd um höfnun frá umhverfinu. Stuðningsliðið er ekki endilega til staðar og dómarar götunnar (sem eru jafnvel í innsta hring) geta poppað upp og reynt að hafa áhrif á okkur því við erum óþægileg áminning um að það er hægt að breyta því sem betur má fara. Oftar en mig langar að muna hef ég verið spennt að segja fólki frá verkefnum sem ég er að fara að takast á við og í stað þess að fá hvatningu, fengið viðbrögð eins og: það verður nú aldeilis brjálað að gera hjá minni núna, þú ert bjartsýn, HA. Því miður verður það að segjast alveg eins og er að karlkyns vinir mínir eru mun jákvæðari og detta ekki í að benda mér á hvað gæti mögulega farið úrskeiðis.

Þegar við tökumst á við breytingar eru alltaf einhverjir sem hafa skoðanir á því en það er ekki það sem skiptir öllu máli. Það sem skiptir máli er að þú sem manneskja trúir því innst inni að þær ákvarðanir sem þú tekur fyrir þig séu réttar þegar þú tekur þær. Ef þú kemst að því einn daginn að þetta hafi ekki verið rétt ákvörðun þá situr þú uppi með afleiðingarnar, lærdóminn og reynslu sem getur verið ómetanleg. Við getum ekki lært af reynslu annarra og við sem foreldrar höfum öll pirrað okkur á því á einhverjum tímapunkti að börnin okkar geti ekki notað okkar reynslu til að sleppa við ákveðin verkefni.

Það er líka oft þannig að þegar við tökumst á við breytingar þá erum við óörugg í fyrstu skrefunum og þegar við erum þar þá tökum við frekar eftir neikvæðum skilaboðum úr umhverfinu. Þú hittir kannski 10 manneskjur sem hvetja þig áfram en svo er það þessi eina sem segir ,,bíddu, veistu hvað þú ert að koma þér út í“ sem situr eftir í hausnum á okkur. Ekki láta viðhorf annarra draga úr þér máttinn – því fólk þekkir oftar en ekki forsendurnar að baki breytingunum. Deildu með þeim sem hafa burði til að bera söguna þína!!

Ég hef tekið þátt í að gagnrýna fólk vegna ákvarðana sem það hefur tekið án þess að vita af hverju viðkomandi valdi þessa leið. Lærdómurinn sem ég valdi að draga frá þessu er að þarna hefur viðkomandi verið að gera eitthvað sem mig langaði að hafa kjark til að takast á við og í stað þess að spyrja manneksjuna hreinlega nánar út í þessa ákvörðun er auðveldara að segja; sú er góð, veit klárlega ekki hvað hún er að fara út í.

Finndu út hvað er gott fyrir þig - þú veist það líklega nú þegar!! Manneskja sem lifir lífinu til að þóknast allt og öllum svíkur mikilvægustu manneskjuna í lífi sínu, sjálfan sig. Ef þú ert að hugsa um að breyta kringumstæðum í lífi þínu þá langar mig að gefa þér mikilvæga ráðleggingu - vertu höfundurinn að eiginn lífi og þinn eigin besti vinur ALLA LEIР

 Gangi þér vel!

 Anna Lóa