Það styttir upp um síðir!

Þegar við höfum farið í gegnum erfiðleika í lífinu og unnið okkur í gegnum þá þurfum við að muna að við þurfum líka að leyfa okkur að njóta þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Lífið er einhvern veginn þannig að það sem er fullt þarf að tæmast - þar sem er of mikið af einhverju þarfnast jafnvægis og erfiðleikar og gleði eru ferðafélagar sem geta ekki verið án hvors annars. Gleði okkar er oft háð viðmiðum þannig að manneskja sem hefur farið í gegnum mikla erfiðleika þarf jafnvel minna en áður til að upplifa sanna og djúpa gleði. Ég hef tekið eftir því hjá sjálfri mér og fólki í kringum mig að þegar lífið er fullt af hamingju og gleði að þá dettur stundum inn sú hugsun ,,hvað ætli þetta dugi lengi, hlýtur að vera lognið á undan storminum“ eða ,, það væri nú svo dæmigert fyrir mig að þetta tímabil entist ekki“. Erfiðleikar koma og fara, þannig er lífið, en við verðum líka að læra að njóta þeirra blessunar sem lífið færir okkur þegar erfiðleikarnir ganga yfir. Þegar við leyfum okkur að upplifa einlæga gleði og þá tilfinningu að við séum bara búin að standa okkur vel, vex kraftur okkar og við njótum okkar á annan hátt en fyrr. Þá sjáum við hlutina í nýju ljósi sem knýr okkur jafnvel til að endurskoða markmið okkar í lífinu. Ef erfiðleikar okkar tengjast missi, og þá annaðhvort í gegnum sambandsslit eða andlát, þá er eðlilegt að þrátt fyrir að ákveðinn tími sé liðinn þá koma tímabil þar sem minningarnar streyma fram og söknuðurinn tekur völdin. En það er líka gjöf sem fylgir því að hafa elskað einhvern því sá kærleikur hefur gefið lífi okkar dýpri merkingu og jafnvel gert það að verkum að okkur þykir vænna um annað fólk. Einstaklingar sem unnið hafa farsællega úr sorg sinni, leyft sér að finna til og upplifa vanmátt, ganga oft til framtíðar sterkari og heilli einstaklingar en áður. Okkur hefur verið gefið val til að takast á við lífið hverju sinni þar sem skiptast á skin og skúrir. Þegar við erum á leið upp úr öldudalnum fylgja því oft tilfinningar sem við eigum erfitt með. Dæmi væri manneskja sem fær samviskubit þegar hún finnur hláturinn sinn aftur, svona rétt eins og þá sé ákveðin vanvirðing gagnvart þeim vanda sem hún fór í gegnum eða er að takast á við. En hláturinn og gleðin er gjöf sem er einmitt svo dýrmæt á svona stundum. Þannig er okkur er líka gefið tækifæri til að upplifa einlæga gleði og hamingju og því ættum við að taka því fagnandi þegar við finnum að við erum smám saman að koma til baka. Ef þú ert að finna sjálfa þig aftur, njóttu þess þá að finna þá einlægu gleði sem fylgir því að koma til baka - já og koma til baka sem betra og þroskaðra eintak af þér þrátt fyrir að hafa viljað vera án erfiðleikanna í byrjun. Ef þú hefur ekki viljað hitta fólk þá þarftu kannski einmitt á því að halda og sérstaklega ef það eru einstaklingar sem taka þér eins og þú ert. Mundu að það hafa ekki allir burði til að bera söguna þína - veldu með hverjum þú deilir og deildu með þeim sem eru tilbúnir að viðurkenna að erfiðleikarnir höfðu áhrif á þig og nýja eintakið af þér á rétt á sér. Verum meðvituð/-aður um að það er ekki endilega batamerki þegar allt er eins og það var áður!! Gangi þér vel!! Anna Lóa