Það getur engin hafnað þér nema þú!

Hef minnst á Dr. Edith Eager í öðrum pistli en nú er ég að lesa bók númer tvö frá þessari merkilegu konu og deili þá að sjálfsögðu með ykkur. Það getur engin hafnað þér nema þú – þurfti að lesa þessa setningu nokkrum sinnum.

Erfiðar sögur geta að sjálfsögðu tekið mikið á okkur en þær verða að sorgarsögum þegar við skilgreinum okkur út frá þeim lífið á enda og stundum án þess að gera okkur grein fyrir því. Sögurnar verða þannig okkar eigin fangelsi. Frelsið liggur í að viðurkenna það sem hefur gerst og kjarkinn til að losa sig undan þeirri áþján að láta söguna skilgreina hver við erum í dag. Við eigum öll erfiða kafla í sögunni okkar – þrátt fyrir að þær séu mjög mismunandi.

Það er eðlilegt að við séum með eftirsjá og það séu einhverjir hlutir í lífinu sem við hefðum viljað gera öðruvísi. Við upplifum leiða og jafnvel sorg yfir því sem gerðist eða því sem aldrei varð. Hugurinn okkar leitar ómeðvitað í gömlu sárin. Höfnun er þessi vonda tilfinning að hlutirnir fóru ekki á þann veg sem ég vænti og ef ég hefði verið öðruvísi, gert hlutina á annan hátt eða reynt meira hefði mér ekki verið hafnað. Þannig getum við upplifað höfnun víða eins og í vinnu, vinasamböndum og ástarsamböndum.

Í ákveðnum aðstæðum vekjum við upp af dvala gamla reynslu sem leynist í fylgsnum hugans og skilgreinum það sem er í gangi út frá því. Ég sá þetta ítrekað þegar ég var kennari í fullorðins fræðslunni. Einstaklingar með brotna eða erfiða skólasögu biðu eftir því að þeim mistækist eina ferðina enn. Þau „vissu“ að þau gátu ekki lært og þegar annað kom í ljós og þeim gekk t.d vel á einhverju prófi komu athugasemdir eins og „námið hjá ykkur hlýtur bara að vera svona auðvelt“. Það tók oft tíma fyrir einstaklinga að átta sig á „vírusnum“ í hausnum, og þróa með sér nýja hugsun og væntingar; ég get ekki lært er skipt út fyrir, hum ég get í raun miklu meira en ég hélt.

Það sama má segja um þá sem eru með slæma líkamsímynd. Klassískt dæmi er einstaklingur sem var yfir meðallagi í þyngd sem barn og upplifir sig alltaf í ströggli með þyngdina á fullorðinsárum. Hugsunin sem ríkir; ég verð að sýna að ég hafi stjórn á þyngdinni til að vera elskaður/samþykktur.

Þegar við höfnum því hver við erum og reynum í staðinn að lifa lífinu sem við höldum að veiti okkur viðurkenningu annarra, erum við eins og lauf í vindi sem fjúkum til og frá eftir því hvað öðrum finnst.

Það er erfitt að fara í gegnum lífið með þá væntingar að með því að líta út á ákveðinn hátt, haga sér „rétt“ og viðeigandi hverju sinni, verði manni síður hafnað. Þarna erum við löngu búin að hafna okkur sjálfum og því miður þá er það bara þannig að það er einhver þarna úti sem mun notfæra sér það – og taktu eftir, jafnvel algjörlega ómeðvitað. Við höfum bæði leyft öðrum að hafa þessi áhrif á okkur og við sjálf haft þessi áhrif á aðra upp að einhverju marki.

Þurfum að hafa kjarkinn til að skoða hvernig okkur er tamt að hugsa og tala um okkur sjálf. Gefa okkur leyfi til að prófa okkur áfram í lífinu í dag í stað þess að láta sára reynslu fortíðar stýra lífi okkar. Þurfum að búa til nýjar venjur – byrja á því að breyta einhverju einu sem skiptir okkur máli. Tökum sjálfstýringuna af og notum eigið vald til að velja okkur ný viðbrögð við aðstæðum í dag. Það er mun vænlegra að ná í skottið á okkur sjálfum í stað þess að treysta því að aðrir geri okkur heil.

Það getur engin hafnað þér nema þú!

Kærleikskveðja,

Anna Lóa

Mynd: pexels.com