Tengslin okkar!
Ég hafði ekki starfað lengi sem kennari þegar ég gerði mér grein fyrir því að tengsl mín við hópinn skiptu ekki síður máli en það efni sem ég var að kenna. Með tíð og tíma komst ég að því að tengslin við hópinn voru fyrir margar nemendur mína mikilvægara en það sem stóð í bókinni því ef nemanda leið ekki vel í tíma hjá mér þá kom það niður á lærdómnum.
Ég hafði ekki starfað lengi sem ráðgjafi þegar ég gerði mér grein fyrir því að sama hvað öllum kenningum og fræðisetningum líður þá er það tengsl mín við skjólstæðingana sem skiptir hvað mestu máli. Upplifir viðkomandi að ég skilji af hverju hann þarf á aðstoð að halda, að ég sé þarna til að mæta viðkomandi þar sem hann er, eða er ég of upptekin af því að segja nákvæmlega það sem ég tel rétt þá stundina!
Þegar fólk leitar í sálgæslu þarf það fyrst og fremst einhvern sem hlustar. Þegar fólk í kringum okkur verður fyrir áfalli eða er að ganga í gegnum erfiða tíma finnst okkur stundum eins og við þurfum að ,,SEGJA“ réttu hlutina til uppörvunar . En það eru ekki réttu hlutirnir sem skipta máli heldur nándin sem við gefum viðkomandi með nærveru okkar og hlustun. Þrátt fyrir að við viljum færa viðkomandi vonina á silfurfati þá kemur hún hægt og rólega til baka og einmitt vegna þess að viðkomandi hafði tækifæri til að deila sögu sinni með einhverjum sem hafði burði til að bera hana.
Þeir sem eru að fara í gegnum erfiða tíma þarfnast nærveru, hlustunar og samfylgdar sem gefur viðkomandi tækifæri til að skoða eigin tilfinningar. Með því að fá tækifæri til að tjá sig um innri togstreitu og vanmátt eru líkur á því að viðkomandi nái með tíð og tíma að byggja sjálfur upp vonina.
Það getur verið freistandi að kasta fram einhverju eins og: þetta fer allt saman vel, þú verður bara að vera bjartsýn og þakka fyrir það sem þú hefur. Þrátt fyrir að það sé staður og stund fyrir uppbyggilega frasa þá þarf manneskja sem er að fara í gegnum mikla erfiðleika klárlega ekki á þessu að halda. Með tímanum áttar hún sig á því hverjir hafa burði til að bera sögu hennar og gefa mest með því að viðurkenna að það er ofur eðlilegt að finna fyrir vonleysi og vanmætti á þessum tíma.
Vonin kemur smám saman aftur og einmitt með góðum tengslum
við sjálfan sig, aðra og umhverfið. Manneskja sem er í góðum tengslum við aðra og finnur fyrir merkingu með lífinu verður ekki svo auðveldlega eyðilögð. Oftar en ekki þá er fyrsta merki um endurnýjaða von þegar við gerum okkur grein fyrir því að við erum elskuð eða finnum að það er fólk þarna úti sem lætur sig mál okkar varða og vill hjálpa okkur.
Ef þú sem ert að lesa þetta ert til staðar fyrir einhvern núna sem er að upplifa vonleysi þá er það besta sem þú getur gert að vera til staðar þar sem kærleikurinn og stuðningurinn endurspeglast í nærveru þinni.
Ef þú sem er að lesa þetta ert að upplifa vonleysi þá get ég ekki fært þér vonina á silfurfati sama hvað mig langaði mikið til þess. En ég hvet þig til að vera í samfélagi við þá sem hafa burði til að bera söguna þína, og tengslin byggjast á trausti, réttlæti og kærleika. Þessir einstaklingar leyfa þér að tala um tilfinningar þínar án þess að flokka þær og leyfa þér bara að vera þegar þú þarfnast þess. En þrátt fyrir allt þá gæti nærvera þeirra reynst sá vonarberi sem kemur þér í gegnum þennan tíma.
Kærleikskveðja!
Anna Lóa