Tengslin koma okkur áfram!

Ég á mjög auðvelt með að vera ein – á sama tíma og ég er svo meðvituð um að ég er ekkert öðruvísi en allir aðrir, ég þarfnast góðra tengsla. Þegar það er mikil spenna í umhverfinu eins og hefur verið allt c19 árið vil ég helst fá að vera bara sem mest í friði, en af því að ég er orðin meðvituð um að það er einmitt það sem ég á ekki að gera, er ég duglegri að teygja mig eftir tengslum. Ég hef oft fengið ummæli frá fólki sem á erfitt með tengsl sem gætu hljómað einhvern veginn svona; æ fólk er svo flókið, stundum mundi ég óska að ég byggi einhversstaðar lengst í burtu þar sem engin þekkti mig og ég þyrfti ekki að vera í miklum samskiptum við annað fólk! Þetta er þá einskonar fullorðins forðun þegar lífið tekur á.

Það er ekkert óeðlilegt að maður vilji stundum fara inn á við og hvíla sig á samskiptum við aðra en maðurinn er í grunninn tengslavera og því er farsælla að reyna að vinna að betri tengslum og samskiptum svona heilt yfir, í stað þess að velja líf án tengsla við aðra. Þegar við lokum á tengsl við aðra lokum við líka að hluta til á tengsl við okkur sjálf. Við lærum á okkur sjálf í samskiptum við annað fólk, sumt af því gagnlegt og annað síður gagnlegt, en gæti gefið okkur vísbendingar hvernig við viljum ekki vera.

Ég held að eitt af mikilvægari „bóluefnum“ í dag séu heilbrigð, jákvæð og uppbyggileg tengsl. Þessar vikurnar hefur mér verkjað í líkamann í hvert skipti sem ég opna frétta- og samfélagsmiðla. Við erum að gliðna í sundur á sumum vígstöðvum og orðræðan bæði ljót og ósanngjörn sem fólk hefur mátt þola. Ég er ekki að tala um rýni til gagns, ég er að tala um þegar fólk fer í manninn en ekki málefnið. Takk fyrir að taka Hamingjuhornið aldrei niður á þetta plan – það er nú eitt af því sem ég er þakklát fyrir.

En hvað getum við gert til að efla tengslin og erum við tilbúin til að takast á við þá vegferð? Einmanaleiki er vaxandi vandi í heiminum í dag þrátt fyrir að við höfum aldrei haft eins margar leiðir til samskipta. Vissuð þið að einmanaleiki og veik félagsleg tengsl geta stytt líf okkar svipað og ef við reyktum 15 sígarettur á dag?

Einmanaleiki eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, heilabilun, þunglyndi og kvíða svo eitthvað sé nefnt. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökumst á við þennan „faraldur“ og þarna skipta ALLIR máli. Það er enginn einn með lausnina en ef hver og einn skoðar leiðir fyrir sig þá er það einmitt það sem skiptir máli.

Þegar við erum að fara í gegnum krefjandi tíma erum við meira að hugsa um okkur sjálf og minna að huga að heildinni og einmitt þá byrjum við að gliðna í sundur.

Eruð þið til í að prófa mikilvægasta „bóluefnið“ strax í dag? Hér koma nokkrar leiðir til að efla tengslin – er ekki að taka sérstaklega mið af gildandi takmörkunum því þessi pistill á að lifa framyfir c19:

 • Borða með fjölskyldunni – einfalt en skiptir ótrúlega miklu máli að setjast niður með öðrum, spjalla og borða saman.
 • Gæludýr – rannsóknir hafa sýnt að fólk sem á gæludýr upplifir síður einmanaleika en viðmiðunarhópur.
 • Brosa og heilsa fólki í verslununum, á bensínstöðum, kaffihúsum og í göngutúrum. Það er ekki þitt mál ef fólk er ekki tilbúið til að taka á móti brosinu eða kveðjunni en í mörgum tilvikum vekur þetta góða tilfinningu hjá þér og viðtakanda.
 • Halda góðum og reglulegum tengslum við allavega tvo vini. Finna leiðir til að hittast eða heyrast reglulega.
 • Taka frá hálftíma til að eiga gæðastund með barninu þínu. Þarf ekkert að vera á dagskrá, bara að leggja frá sér önnur verkefni OG símann og gefa barninu athygli….sama á hvaða aldri það er
 • Hópastarf – gerast meðlimur í bókaklúbb, fyrirlestrahóp, handavinnuhóp, kór eða annars staðar þar sem reglulega er hist. Að gera skemmtilega og nærandi hluti með öðrum hefur meiri áhrif en að gera þessa hluti einn.
 • Æfðu fyrirgefningu – eru einhverjir sem eru búnir að tjalda í hausnum á þér og eru í raun að ræna frá þér orku og fylla þig af reiði? Að fyrirgefa er ekki samþykki á því sem var gert, frekar til að koma viðkomandi út af tjaldsvæðinu og losa ÞIG undan reiðinni. Engin ein leið rétt – en finndu þína.
 • Hrósaðu því sem vel er gert – virkar í báðar áttir.
 • Efla andlegu hliðina – hvort sem það er í gegnum hugleiðslu, trúarbrögð eða samtalshópa þá færir andleg vinna okkur opnara hjarta og betri tengsl.
 • Útivist – þarft ekki nema 15 mínútur í náttúrunni til að fá fram heilunaráhrif. Allt umfram bara betra. Prófaðu að setjast niður í göngunni og gera ekki neitt eða faðma tré (eykur serótónín, dópamín og oxitósín gleðihormónin í líkamanum). Ganga í kirkjugörðum er líka heilandi, hvort sem þú ert að fara og vitja einhvers eða ekki. Við hægjum á okkur, förum inn á við og finnum jafnvel fyrir ákveðnu þakklæti gagnvart lífinu.
 • Deildu áhyggjum – það versta sem við gerum er að loka okkur af með áhyggjur okkar. Veldu þér manneskju sem þú getur deilt með – einhver sem gerir hvorki lítið né mikið úr áhyggjum þínum en er jafnvel til í að hugsa MEÐ ÞÉR í lausnum og velta upp möguleikum.
 • Afmarkaður fréttainntöku og samfélagsmiðlanotkun. Heilinn hefur neikvæða slagsíðu manstu – eftir hálftíma gæti þér fundist allt vera að fara til fjandans
 • Sjálfsvinna – tengdu við þá þætti sem þig langar að vinna með til að verða betri manneskja.
 • Vertu í kringum fólk sem hvetur til drauma – minna í kringum fólk sem rífur þá niður.
 • Veldu þér fyrirmyndir sem veita þér innblástur – ef þú getur, spurðu viðkomandi út í lífið og vegferðina.

Þessi pistill er lengri en ég er vön að skrifa en þar sem mér finnst málefnið svo mikilvægt ætla ég ekki að stytta hann.

Anna Lóa

Heimild: ADHD 2.0, Hallowell, E.M & Ratey, J.J (2021).

Mynd: shutterstock.com