Tekurðu hlutunum persónulega?
Sjáðu fyrir þér 10 manneskjur sem mæta á fund hjá stjórnendum fyrirtækis þar sem verið er að tilkynna miklar breytingar. Þú hittir þessa einstaklinga og biður þá um að segja þér frá fundinum og er ekki ólíklegt að þú fáir 10 ólíkar útgáfur um hvað hafi verið þarna í gangi. Það er enginn að ljúga að þér en hver og einn tekur með sér út frá eigin stöðu og reynslu en ekkert síður út frá vanabundnum hugsunum og líðan þann daginn.
Fólk bregst við aðstæðum á mismunandi hátt og snýst það oftar en ekki um líðan og vanabundnar hugsanir viðkomandi en minna um aðstæðurnar. Ég hef sjálf verð þátttakandi á fundi þar sem ég var að fara í gegnum erfiða tíma og það fór allt skakkt ofan í mig. Ég tók hlutunum mjög persónulega og fannst eins og það væri verið að tala beint við mig en ekki alla sem sátu fundinn. Ég man að ég sagði samstarfskonu minni frá því hvernig ég upplifði fundinn og hún horfði á mig undrandi og spurði; hvernig í ósköpunum fékkstu þetta út? Það vantaði algjörlega filterinn hjá mér sem gerist oft þegar við erum að fara í gegnum krefjandi tíma.
Þar sem við erum að fara í gegnum mikla óvissutíma í dag er ég búin að vera svo hugsi yfir þessu undanfarið. Hversu margir eru þreyttir, streittir og óöruggir og eru jafnvel að taka hlutum allt of persónulega með tilheyrandi vanlíðan? Hvernig líður framlínustarfsfólkinu sem er búið að vera undir ómanneskjulegu álagi í bráðum tvö ár? Hvernig gengur stjórnendum að takast á við þessa krefjandi tíma því eitt er alveg ljóst að það hefur líklega ekki verið áfangi í náminu þeirra sem hét; Hvernig er best að styðja við starfsmenn í alheimsfaraldri! Hvernig líður fólki svona almennt og erum við meðvituð um áhrifin sem langtíma óvissa hefur á okkur? Ég er ekki á neinn hátt að gera lítið úr stjórnendaþættinum og setja ábyrgðina á vinnustaðarkrísum alfarið yfir á starfsmanninn, enda slíkar aðstæður yfirleitt sambland af ýmsum þáttum. Er að benda á mikilvægi sjálfsþekkingar fyrir okkur öll, hvaða stöðu svo sem við gegnum. Að við þekkjum viðbrögð okkar í velgengni, en ekkert síður þegar á móti blæs.
Það er meiri hætta á að við tökum hlutunum persónulega þegar við erum sjálf að upplifa óöryggi. Þegar við upplifum óöryggi þá er hætta á að við lesum kolrangt í aðstæður og hegðun annarra í stað þess að huga að eigin öryggi. Þá erum við eins og ryksugur á umhverfið okkar og meiri líkur á því að við upplifum aðstæðurnar neikvæðar eða erfiðar. Þegar okkur líkar ekkert sérstaklega við okkur sjálf eða aðstæður okkar þá gerum við ráð fyrir að öðrum líki ekki við okkur og yfirfærum þannig eigið óöryggi yfir á aðra og ætlum þeim eitthvað sem á sér kannski enga stoð í raunveruleikanum.
Þurfum að skoða þær kröfur sem við gerum til okkar og við hvaða aðstæður við dettum í óöryggið. Þegar sjálfsvirðingin er ekki mikil og öryggið er ekki til staðar erum við gjarnan upptekin af áliti annarra og þurfum að fá að heyra að við séum í lagi. Förum jafnvel að trúa því að ef við værum bara einhvern veginn allt öðruvísi þá væri manni síður hafnað. Þarna erum við löngu búin að hafna okkur sjálfum og gefa öðrum vald yfir því að velja hvað sé okkur fyrir bestu, í stað þess að treysta því sem við vitum um okkur sjálf og hvers við þörfnumst.
Við getum alveg orðið föst í samsæriskenningum varðandi líf okkar; það gengur ekkert upp hjá mér – af hverju lendi ég alltaf í þessu, ég er ótrúlega óheppin með fólk, aðstæður o.s.frv.
Ef við erum tilbúin að skoða okkur sjálf, hugsanir okkar og af hverju við erum að fara í gegnum svipuð verkefni aftur og aftur, er ekki ólíklegt að með tímanum sjáum við hlutina í öðru ljósi, tökum ábyrgð á okkur sjálfum og hegðun okkar og þar með breytast viðhorf okkar til þess sem er í gangi í lífi okkar. Við látum aðstæður í lífinu ekki skilgreina okkur heldur lítum til baka og segjum; hum, ok ég var þá á þessum stað á þessum tíma/þetta var í gangi í lífi mínu á þessum tíma! Þegar okkur finnst aðstæður erfiðar eða það hefur eitthvað hreyft mikið við okkur þurfum við líka að hafa kjark til að spyrja til að komast að því hvort við höfum misskilið eitthvað; mig langar svo að spyrja þig út í það sem þú sagðir á fundinum áðan, hvað áttir þú við? Sjá hlutina út frá víðara samhengi og taka okkur sjálf út fyrir svigann.
Sjáðu fyrir þér einhverjar erfiðar aðstæður sem þú hefur nýlega farið í gegnum í lífinu. Er eitthvað í þessum aðstæðum sem þú þarft að átta þig betur á eða það sem er kannski mikilvægara, eru einstaklingar sem tengjast þessum aðstæðum sem þú ert kannski að misskilja? Við lesum ekki hugsanir annarra en gefum okkur hluti án þess að spyrja um þá og þess vegna getum við fengið margar útgáfur af sömu aðstæðum. En ertu líka tilbúin að skoða þig í þessum aðstæðum. Hvernig leið þér þegar þú varst að fara í gegnum þetta tímabil? Eru einhverjar gamlar, vanabundnar hugsanir að verki sem þú þarft að skoða og leiðrétta eða varstu kannski að upplifa veikindi, streitu eða aðra krefjandi tíma? Auðvitað lendum við líka í aðstæðum sem reyna á okkur og hafa ekkert með hugsun okkar, öryggi né líðan að gera. En við þurfum engu að síður að þekkja viðbrögð okkar í erfiðum aðstæðum og áhrif þeirra á líf okkar og líðan, til að geta brugðist við.
Við þurfum að taka meðvitaða ákvörðun um að vilja læra af aðstæðum okkar til að stækka sem einstaklingar. Mundu, umhverfið er bara alls ekki að bíða eftir því að þú takir þessa ákvörðun því flestir eiga nóg með sig, svo þess vegna verðu hún að koma alfarið frá þér! Ef það hefur einhvern tímann verið ástæða til að hafa þetta í huga þá er það í dag.