Smá væmni í morgunsárið

Vaknaði líka svona væmin í morgun og eftir að hafa lesið aðeins í Brené Brown og velt fyrir mér kærleikanum fann ég þörf til að skrifa þetta - takið það sem nýtist ykkur og njótið.

Þurfum öll á því að halda að tilheyra öðrum, finnast maður skipta máli og finna að maður sé elskuverður. Þar sem um grundvallarþörf er að ræða reynum við oft að uppfylla hana með því að fá aðra til að samþykkja okkur á sama tíma og við erum dauðhrædd um að við séum ekki ,,nóg“ og okkur verði hafnað. Viðmiðin okkar verða skökk og hætta á að ég ,,reyni“ allt of mikið í stað þess að vera meira og gætum dottið inn í þá hugsun ,,hver vill mig“ í stað þess að hugsa ,,hvað vil ég fyrir mig“.

Við erum að leggja rækt við kærleikann þegar við viðurkennum okkur og samþykkjum eins og við erum. Þegar við leyfum ,,okkur“ að skína í gegn kyndum við undir þá heilbrigðu þætti sem sannur kærleikur þrífst á; traust, virðing, góðmennska og ástúð - með því að treysta því að við séum í lagi eins og við erum.

Kærleikur er ekki eitthvað sem við gefum eða fáum - heldur það sem við stundum; kærleikur vex og dafnar þegar rétta næringin er til staðar og á mestu vaxtamöguleikana hjá þeim sem næra sjálfan sig á trausti, virðingu, góðmennsku og ástúð. Við getum ekki gefið öðrum eitthvað sem við eigum ekki sjálf en ef grunnurinn er til staðar eru vaxtarmöguleikarnir sannarlega fyrir hendi.

Fyrsta skrefið að sönnum kærleika er að skoða hvernig við hugsum. Kærleikur er ekki einhver einstök tilfinning sem kemur eins og elding inn í hausinn á okkur. Kærleikur tengist athöfnum okkar og þeirri staðreynd hvort við erum ábyrg og áreiðanleg gagnvart okkur sjálfum og öðrum - við þurfum að gefa kærleikanum tíma og æfingu. Þá skiptir miklu meira máli það sem við gerum en það sem við segjum, að við séum að gera eitthvað á hverjum degi til að ástunda kærleika.

Kærleikur snýst ekki um að vera valin af réttu ,,eldingunni“ - kærleikurinn snýst um að þykja nógu vænt um sjálfan sig til að taka ábyrga afstöðu til þess hvers konar samband mun styrkja mann enn frekar í því að vilja vaxa og dafna sem manneskja og verða með tímanum besta eintakið af sjálfum sér í stað þess að vera léleg kópía af einhverjum öðrum. Mikilvægasta skrefið er að átta sig á því að við erum elskuverð í dag - ekki á morgun eða eftir mánuð eða ár - Í DAG!

Kærleikskveðja
Anna Lóa