Slaka smá og sleppa!!

Ég: Til hamingju með soninn – var hann ekki að klára stúdentinn? Þakka þér fyrir – jú jú kláraði þetta með láði. Ég: Hvað tekur við hjá honum núna? Ég bara veit það ekki – hann veit ekkert hvað hann vill. Talar um að ferðast í eitt ár. Er svo klár og synd að nýta það ekki. Ég hef alltaf sagt við hann að hann gæti hvað sem er, mundi rúlla upp verkfræðinni. Vona að hann fari að átta sig – er svo hrædd um að hann geri eins og ég, hætti bara og fari aldrei aftur í skóla. Ég: Já skil þig – en langar hann í verkfræði – hvar liggur áhugi hans ? Anna Lóa – langar hann í verkfræði – eigum við bara að gera það sem okkur langar til að gera? Hann veit ekki hvort hann er að koma eða fara í dag svo hann veit það ekki frekar en margt annað. En við pabbi hans erum sammála um að það væri það skynsamlegasta sem hann gæti gert. Synd að nýta ekki þessa hæfileika. Ég: En veistu, það er mjög algengt að krakkar viti ekki hvað þau vilja á þessum aldri. Þurfa oft aðstoð frá ráðgjafa eða bara að láta lífið aðeins hrista sig til. Svo taka þau ákvörðun út frá sér – eigin áhuga og styrkleika. Það er kannski ekki það versta að hann taki sér frí og ferðist um heiminn. Skil hvað þú ert að segja en gæti ekki verið meira ósammála þér. Veit allt of mörg dæmi um að krakkar taka sér frí og fara svo ekki aftur í skóla. Hann getur bara ferðast þegar hann er orðinn verkfræðingur og er farinn að vinna fyrir sér sjálfur. Maður vill bara það besta fyrir börnin sín – þannig er það bara!! Þrátt fyrir að þetta samtal sé skáldað upp þá er það samansafn af samræðum sem ég hef átt við vini, fjölskyldu, ættingja og skjólstæðinga í gegnum árin. Það er svo hollt og gott fyrir okkur að skoða hvernig við erum að bregðast við umhverfi okkar og þá ekki síst börnunum okkar. Hvenær erum við að stjórnast og stýrast í þeim og hvenær erum við að gefa þeim ráð. Hvenær erum við að ,,gefa þeim ráð“ sem er sykurhúðað þannig að við erum ekki að gera okkur grein fyrir því að við erum að stjórna. Hvenær gefum við ráð þar sem VIÐ erum í forgrunni í þeirri von að þau þurfi ekki að reka sig á eins og við og sleppi því auðveldara í gegnum lífið!! Það er mjög auðvelt að vera þroskaþjófur þegar börnin okkar eru annars vegar. Við teljum okkur stundum trú um það að stjórnkænska okkar og einbeittur vilji sé alltaf af hinu góða en rekum okkur líka á að slíkt er ekki vænlegt til árangurs. Það er ekkert auðvelt að sleppa og leyfa öðrum að takast á við sitt líf, sínar áskoranir. Sem foreldri hef ég oft nagað mig í handabökin og sagt við sjálfa mig ,,veit að það er veggur þarna framundan og sumir eru að fara að hlaupa á hann og mig langar auðvita að fóðra hann á alla kanta svo höggið verði ekki mikið eða bara rífa niður fjandans vegginn“. En það er með þetta eins og fuglana – ef við stífum vængina þeirra þá læra þeir aldrei að fljúga. Við þurfum að átta okkur á því hvenær það er komin tími til að sleppa og guð einn veit að það hefur reynst mér erfitt. Það er ótrúlega margt sem getur haft áhrif þarna á en öll veikindi, erfiðar félagslegar aðstæður og mörg önnur verkefni sem lífið sendir okkur gerir það að verkum að við viljum bjóða mýksta faðminn, bestu ráðin og langmesta kærleikann. Þegar fólkið okkar fær tækifæri til að takast á við lífið á eigin forsendum fylgir því sjálfsþekking sem gerir það að verkum að smám saman veit viðkomandi ,,betur“. Stundum erum við að troða okkar gildismati yfir á aðra – okkar draumum og væntingum – og þurfum að sleppa til að viðkomandi sé ekki að taka ákvarðanir út frá meðvirkni í stað þess að gera það á eigin forsendum. Stundum erum við líka ótrúlega föst í viðmiðum og verðmerkjum líf okkar og annarra út frá einhverju allt öðru en hvort viðkomandi sé að gera það sem hann vill vera að gera í stað þess að uppfylla einhver samfélagsleg viðmið. Við búum í samfélagi þar sem margt af því sem við gerum er verðmerkt út frá peningum eða stöðu. Við gleymum oft einstaklingunum sem eru þarna á bakvið og hvort viðkomandi sé í tengslum við besta eintakið af sjálfum sér í því sem hann er að gera. Ef þú ert ekki að lifa lífinu í sátt þá er svo ótrúlega auðvelt að stjórnast í lífi annarra og afneita því að kannski ertu að gleyma því að takast á við þitt líf á þínum forsendum. Kærleikskveðja inn í sunnudaginn! Anna Lóa