Skapandi kraftur!
Komið að því að henda inn einum pistli, sérstaklega þar sem ég finn að ég þarf að auka skapandi kraftinn minn. Stundum óttast ég að sá skapandi kraftur sem gefur mér svo mikið, sé auðlind sem sé að tæmast. Já að ég vakni hreinlega einn daginn og hætti að vera skapandi og fari að sjá lífið í svarthvítu
En hvernig stendur á þessu – af hverju er maður stundum svo fullur af skapandi krafti og hugmyndum að maður hefur ekki við að skrásetja og deila með öðrum öllu því „geggjaða“ sem poppar upp í hausnum á manni. Svo koma tíma sem sömu hugmyndir liggja þarna flatar og dauðvana og hreyfa ekkert við manni. Þær líta jafnvel út fyrir að vera kjánalegar, illa hugsaðar og barnalegar. En svo þarf maður að minna sig á að akkúrat svona fæðast nýjar hugmyndir! Þær fæðast aldrei fullskapaðar, heldur þurfa þær að fá að þróast, það þarf að blása í þær lífi og halda á þeim hita. Við þurfum að leyfa okkur að prófa okkur áfram og sjá hvaða skapandi verkefni það eru sem við erum tilbúin að eyða tíma og orku í og af hverju. Og svo það sé nú sagt, þá þurfa þetta ekki að vera skapandi verkefni eða hugmyndir sem tengjast vinnu. Skapandi verkefni geta tengst svo mörgu í lífi okkar og ekkert síður mikilvægt að eiga sér þannig verkefni fyrir utan hefðbundna vinnu.
En svo er það nú líka málið að til þess að upplifa þennan skapandi kraft þá þurfum við líka að passa upp á orkuna – já skapandi kraftur þarfnast hvíldar. Þegar við erum útkeyrð þá er þetta einmitt eitt af því sem að við finnum að vantar; sköpunarkrafturinn dvínar, hugmyndaauðgin minnkar og skortshugsunin eykst. Ég hef skrifað áður um skortshugsunina, þ.e. þegar við vöknum á morgnana og hugsum; oh, ég svaf ekki nógu mikið og ég þarf að koma svo miklu í verk í dag! Leggjumst á koddann á kvöldin og hugsum; oh ég gerði ekki nóg. Þegar við keyrum okkur svona áfram til lengri tíma þá gegnsýrir þessi hugsun okkur; ég geri aldrei nóg, ég er ekki nóg. Ég hvet þig til að prófa að svara næst þegar einhver spyr þig: er alltaf brjálað að gera; nei veistu, það er bara alveg mátulegt þakka þér fyrir
En skapandi verkefni geta líka verið orkugefandi. Google fyrirtækið er með leikjaherbergi á vinnustöðum sínum og gerir ráð fyrir að fólk leiki sér þegar það upplifir þreytu, heilaþoku og hugsanastíflur. Vinnan okkar snýst ekki bara um það sem er sýnilegt – og bestu vinnustaðirnir eru þeir sem gefa fólki frelsi til að auka sköpunarkraftinn, prófa nýja hluti og þar sem mistök eru talin hluti af nýsköpun.
En hvað getum við gert til að auka þennan skapandi kraft? Hvað finnst þér skemmtilegt að gera? Veistu að með því að gera eitthvað skapandi og skemmtilegt og þá sérstaklega með öðrum, ertu bæði að efla sköpunarkraftinn en það sem er ekkert síðra, að efla tengsl við aðra. Skapandi athafnir gera svo mikið fyrir okkur og þess vegna er skapandi vinna oft notuð í allskyns meðferðarvinnu. Þegar okkur finnst erfitt að tala um hlutina getum við fengið ákveðna útrás í gegnum skapandi starf. Ég kynnti mér rannsókn sem var gerð á karlmönnum í kór á norðurlandi og niðurstöður voru að kk í kór upplifðu sig félagslega vel setta, með góða sjálfsmynd og að líf sitt hefði mikinn tilgang.
Góð leið til að auka þennan kraft er t.d. að fara í göngutúr og þá jafnvel með einhverjum sem þú getur speglað þig í. Ég gekk Laugaveginn um daginn og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til baka var að skrifa pistil, þrátt fyrir að vera alveg úrvinda af þreytu. Hugmyndir fæðast líka í samtali við aðra – þær fæðast þegar maður kemst í flæði þar sem maður getur sagt það sem manni dettur í hug. En ef maður er t.d. einn í göngutúr og fær frábæra hugmynd þá getur maður hreinlega talað eina og eina hugmynd inn á símann.
En hvað með þig - getur þú leyft þér að takast á við verkefni sem gefa þér meiri orku? Hvað ÞARFTU að gera og hvað finnst þér að þú þurfir að gera? Hvenær ertu að gera hluti af því að aðrir ætlast til þess og hvenær gefur þú þér tíma til að gera hluti sem næra þig? Ég geri mér vel grein fyrir því að aðstæður eru mismunandi og stundum er lífið þannig að við þurfum sjálf að sitja á hakanum. En svo getur það líka gerst að við förum þetta áfram á sjálfstýringunni, erum svolítið búin að tapa gleðinni og áttum okkur ekki á því hvar það gerðist.
Ég veit bara að skapandi kraftur er undirstaða margra góðra verka og því mikilvægt að við skoðum hvernig við getum aukið og auðgað hann hjá okkur sjálfum og í okkar nánasta umhverfi. Nú er ég búin að fá „skammtinn“ minn í dag og óska þess að kvöldið verði ykkur gott
Kærleikskveðja
Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com