Sjö leiðir að betri líðan!

Það er ekkert langt síðan að það var litið á líkamann eins og hverja aðra vél, sem með notkun og tíma bilaði og bræddi jafnvel úr sér ef lyfjaiðnaðurinn og doktorar voru ekki með svörin. Rannsóknir nútímans hafa sem betur fer komist að því að þetta er hreint ekki svona; líkaminn er efni, orka og greind og heilmargt sem einstaklingurinn sjálfur getur gert til að forðast „bilun“ svo ekki sé talað um algjöra „útbræðslu“.

Við þurfum að vera meðvituð um að atferli okkar og athygli hafa þarna mikið að segja og því skiptir máli að vera vakandi yfir því hvaða ákvarðanir við erum að taka og hvernig við látum umhverfið hafa áhrif á okkur.

Þar sem eirðarleysi, óþolinmæði og kvíði eru aldrei langt undan þessa mánuðina fagnaði ég verkefnahefti sem ég fann í tölvunni og tengist hugleiðslunámskeiði sem ég sótti á netinu fyrir nokkrum árum. Námskeiðið var á vegum Deepak Chopra en í þessu hefti fer hann yfir sjö leiðir til að auka vellíðan okkar og það er bara ekki spurning í mínum huga að eftir að hafa lesið þetta upp til agna að ég verð bara að deila með ykkur mikilvægustu punktunum. Ekkert nýtt undir sólinni – það er bara svo ótrúlega gott fyrir sálartetrið að beina athyglinni að því sem við getum gert í stað þess að upplifa okkur ósjálfbjarga á óvissutímum þar sem neikvæðnin er aldrei langt undan.

En hvað telur Deepak Chopra vera það mikilvægasta varðandi andlega og líkamlega heilsu:
1. „Ég er orðin allt of gömul fyrir þetta“. Veittu athygli hvernig þú talar um líkama þinn og aldur. Ef þú ert alltaf að hafa orð á því að þú sért orðin of gömul/gamall til þess að takast á við ákveðna þætti, hefur það mikil áhrif á líðan og getu. Ef þig langar að skoða rannsóknir varðandi þetta hvet ég þig til að fletta upp Ellen Langer sálfræðing hjá Harvard sem hefur sýnt fram á að jákvæð orðræða og viðhorf gagnvart líkama og aldri hefur áhrif á líðan okkar og heilsu (föstudagskvöldið fór í að kynnast Ellen 😉). Á sama hátt hefur það neikvæð áhrif á okkur ef við teljum að kennitalan okkar ráði mestu um líðan okkar og útlit og það sé ekkert sem við getum gert við því. Við skyldum vera meðvituð um að þegar við erum að hugsa og tala um takmarkanir okkar eru það við sjálf sem töpum mest á því.

2. Ekki láta streituna stýra! Finndu leiðir til að halda streitunni í lágmarki en sem dæmi þá er hugleiðsla bæði einföld og áhrifarík leið til þess. Í hugleiðslu hægist á öndun og hjartslætti og bæði blóðþrýstingur og streituhormón lækka í líkamanum. Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á gagnsemi hugleiðslu til að takast á við kvíða og aðra streitusjúkdóma. Það má líka tala um hugleiðslu sem jákvætt heilafóður sem hefur áhrif á minni, samkennd, sjálfsvitund okkar o.fl. Hægt að finna fjöldann allan af íslenskum og erlendum hugleiðslum á netinu (dæmi neðst í pistlinum).

3. Sofa, sofa og sofa meira. Ég las um daginn að næsta heilsuæði væri svefn og öndun. Rannsóknir síðari ára hafa sýnt fram á mikilvægi þess að fá góðan svefn. Þegar við sofum of lítið hefur það áhrif á ónæmiskerfið okkar og flýtir öldrun. Óskastaðan væri 6-8 tíma friðsæll svefn á hverri nóttu. Með friðsælum svefni er átt við að þurfa hvorki lyf né alkóhól til að auka líkur á svefni (þó að svefnlyf geti verið nauðsynleg í gegnum ákveðin tímabil). Við eigum að upplifa okkur orkumikil eftir að hafa náð góðum svefni en lélegur svefn hefur áhrif á ótrúlega margt. Ef maður vill ná hágæðasvefni ætti maður að reyna að vera í takt við alheims hrynjandann (circadian rythms) sem þýðir að sofa milli kl. 22.00 og 06.00. Gott að setja hugsanir dagsins niður í dagbók áður en lagst er á koddann en það dregur úr líkum á því að hugsanir haldi fyrir manni vöku.

4. Veldu mat sem NÆRIR þig! Fjölbreytt mataræði þar sem skyndibiti og unnar matvörur eru í lágmarki. Vel samansettur matur inniheldur bæði salt, sætt og súrt, biturt og sterkt. Góður diskur inniheldur líka liti regnbogans en fæða sem er rauð, græn, gul og blá skiptir máli þegar kemur að andoxunarefnum sem hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Rauðir tómatar og vínber, grænt brokkoli og spínat, gular sætar kartöflur og mango, blá vínber og plómur o.s.frv.

5. Hreyfðu þig á hverjum degi – allavega 3-4 x í viku í 30 mín. Hreyfing er besta og áhrifaríkasta leiðin til að halda bæði líkama og huga í góðu formi. Muna að teygja á líkamanum þegar hann er orðin heitur. Skiptir máli að finna hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og byrja rólega. Ef þú treystir þér til að labba út götuna og til baka, þá er það jákvæð byrjun. Alls ekki vera í viðmiðum við aðra – bara alls ekki! Mikilvægast að ÞÚ finnir mun á þér. Ég hef nýtt mér bæði yoga og zumba á netinu síðasta árið og mæli algjörlega með því. Uppáhaldið mitt þessa dagana er Yoga with Adriene – hún er frábær og er reglulega með 30 daga yoga-áskoranir (dæmi neðst í pistlinum).

6. Ræktaðu tengsl við annað fólk. Einmanaleiki og einangrun eru slæm fyrir bæði andlega og líkamlega líðan og stutt síðan ég skrifaði pistil um mikilvægi tengsla. Vertu opin fyrir að kynnast nýju fólki og vertu á varðbergi ef/þegar þú ferð að loka þig af. Samfélagsmiðlar koma ekki í stað tengsla í raunheimum, þó að við þurfum að láta þá duga að einhverju leyti í dag. Við þurfum öll að tilheyra og finna að við skiptum máli í lífi annarra.

7. Leiktu þér meira. Skráðu niður nokkra hluti sem þú hefur/hafðir gaman af að gera. Heimsókn á rólóvöllinn, lita með krökkunum, körfuboltaleikur í bakgarðinum, valhoppa á fjöll…bara eitthvað sem kallar fram barnslegu gleðina sem þú upplifðir einu sinni. Stundum gerum við lítið úr því þegar fólk tekur upp ný áhugamál og er farið að þeysa um borg og bý á hjólum, þramma upp á fjöll eða bruna niður heilu fjallgarðana á skíðum. En þessar athafnir eru einmitt frábær leið til að upplifa meira frelsi með sjálfum sér og það gerir okkur mjög gott. Takmarkið er sú upplifun að vera svo uppfullur af gleði og spennu yfir því sem þú ert að gera, að þú gleymir stað og stund.
Kærleikskveðja frá mér,
Kv
Anna Lóa
Heimild: 7 Steps to Radical Wellbeing e. Deepak Chopra
Dæmi um efni á netinu!
Hugleiðsla:
Auður Bjarna - Hugleiðsla með Auði
Lifðu til fulls - Hugleiðsla á netinu
Núvitundarsetrið - Hugleiðsluæfingar
Yoga
Yogasetrið - Yogaæfingar 
Yoga og Heilsa - Yoga á youtube
Sæunn Rut Yoga - SajaRut Yoga
Yoga með Adriene - Yoga með Adriene á Youtube