Sjálfsvirðingin
Sunnudagspistillinn fjallaði um mikilvægi sjálfsvirðingar í lífi okkar og ætla ég að fylgja honum eftir. Eins og með annað sem ég sendi frá mér þá er tilgangurinn alltaf sá að minna sjálfa mig og aðra á mikilvægi þess að vera meðvitaður um hvar maður er sjálfur staddur í þessum lífsins verkefnum sem við erum að takast á við. Fyrsta skref í átt að breytingum er alltaf að skilja hvað er að gerast hjá manni sjálfum og þegar kemur að sjálfsvirðingunni þurfum við suma að spyrja okkur: hvar er ég stödd/staddur þegar sjálfsvirðing mín er annars vegar og ef ég þarf að breyta einhverju, hvernig geri ég það?
Góðu fréttirnar eru þær að við getum aukið sjálfsvirðingu okkar alla ævi. Um er að ræða lærða tilfinningu svo við eigum góða möguleika á að aflæra hana líka. Það skiptir ótrúlega miklu máli fyrir samskipti okkar og eigin líðan að upplifa að maður sé einhvers virði og aðrir kunni að meta mann eins og maður er. En við munum aldrei upplifa þá tilfinningu frá öðrum ef við upplifum hana ekki innra með okkur sjálfum fyrst. Þar sem manneskja með litla sjálfsvirðingu býst við hinu versta, á von á því að vera svikin og ekki metin að verðleikum, er hún hrædd við að taka áhættu og prófa nýjar leiðir. Gat verið að ég lenti í þessu – algjörlega dæmigert fyrir mig. Varnarveggir og vantraust taka sér bólfestu og viðkomandi dæmir sjálfa sig hart, jafnvel fyrir smávægileg mistök. Hugsunin sem þessu fylgir er hvernig get ég verið einhvers virði ef allir þessir hlutir koma fyrir mig. Þarna leitum við oft eftir leiðum til að deyfa ástandið.
En það sem er kannski erfiðast í þessu er að þegar við virðum okkur ekki sjálf leitum við út fyrir okkur og væntum þess að ná í virðinguna annars staðar frá. Rétti eiginmaðurinn eða eiginkonan, börnin mín, staðan, húsið, vinirnir, peningar, eða annað. Ábyrgðin er sett á eitthvað fyrir utan okkur sjálf og þegar það gengur ekki eftir þá er það dæmi um enn ein mistökin. Þetta snýst því mikið um hugsun okkar á því sem við gerum, eða gerum ekki, og hugsuninni fylgir þessi neikvæða tilfinning.
Fyrsta skrefið í átt að meiri sjálfsvirðingu væri líklega að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður eigi rétt á því að vera virt sem manneskja, óháð þeim hlutverkum sem maður hefur í lífinu. Svo þarf maður að viðurkenna að stundum förum við í gegnum erfiðleika, sama hvort við erum með litla eða mikla sjálfsvirðingu og þeir erfiðleikar skilgreina okkur ekki sem manneskjur. Við þurfum líka að læra að fyrirgefa okkur sjálfum þegar við gerum mistök – það eru yfirleitt við sjálf sem gerum mikið úr mistökunum á meðan aðrir eru kannski að horfa á hlutina með allt öðrum gleraugum. Við þurfum að gefa okkur leyfi til að breytast og trúa því að hlutirnir geti verið öðruvísi og taka ákvörðunina: nú breyti ég. Við þurfum að gera eitthvað til að koma breytingaferlinu af stað og eitthvað á hverjum degi til að halda okkur við efnið.
Þegar upp er staðið þá snýst þetta um að koma fram við sjálfan sig eins og maður gerir við einhvern sem er manni kær. Hugsaðu til manneskju sem skiptir þig máli en það er ekki ólíklegt að þú komir fram við þá manneskju bæði af virðingu og væntumþykju. Næsta þegar þú ætlar að berja sjálfa/-an þig niður eftir ,,enn ein mistökin“, hugsaðu hvað þú mundir segja við þessa manneskju í sömu aðstæðum.
Um helgina var ég að fara yfir pappíra úr dánarbúi móður minnar og þar fann ég blöð frá námskeiði sem hún hafði setið fyrir tæpum 30 árum. Blöðin eru ekki merkt sem gerir mér erfitt fyrir varðandi heimildir en ég verð bara að láta þetta fylgja með. Finnst í raun ótrúlegt að hafa rekist á þetta núna, helgina sem ég er að skrifa um sjálfsvirðingu. En þrátt fyrir að geta ekki vísað í höfund veit ég um eina manneskju sem gleðst yfir því að ég hafi fundið þetta:
Eftir því sem sjálfsvirðingin er meiri því auðveldara er að hafa hugrekki til að breyta sjálfum sér (hugsunum símum). Eftir því sem maður metur sjálfan sig meira, því minna krefst maður af öðrum. Því minna sem maður krefst af öðrum, þeim mun auðveldara er að treysta. Því meira sem maður treystir sjálfum sér og öðrum, því meira getur maður elskað. Því meira sem maður elskar aðra, því minna óttast maður þá. Því meira sem maður getur byggt upp með öðrum, því betur kynnist maður þeim. Því betur sem maður kynnist öðrum, því sterkari verða tengslin við þá.
Kærleikskveðja

Anna Lóa