Anda inn - anda út!
Á þessum tíma eru tilfinningar okkar oft margbreytilegar þar sem við sveiflumst á milli tilhlökkunar og væntinga á sama tíma og söknuður og sorg knýja dyra hjá mörgum. Þetta er líka sá tími ársins sem margir finna fyrir streitu og þreytu - jafnvel vinnutörn að baki og margt sem bíður okkar til að geta upplifað jólin eins og við viljum hafa þau.
Við þurfum að vera meðvituð um hvenær við erum að sigla inn í erfiða og óheilbrigða orku og hvað við ætlum að gera í því. Ef við erum meðvituð um hvernig lífi við þurfum að lifa til að okkur líði sem best getum við minnkað streituna sem aftur gerir það að verkum að við eigum auðveldara með að takast á við erfiðar tilfinningar.
Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ég hef alltaf haft mikið að gera - og ef það er ekki mikið að gera hjá mér þá bý ég til verkefni. Ég hef alltaf verið svona og er löngu hætt að streitast á móti því enda man ég eftir mér sem barni taka stjórnina hér og þar og alls staðar og var alls ekki hrifin af því að vera í einhverju hangsi. En þetta var persónan ég að þroskast og verða að þeirri manneskju sem ég er í dag - þetta er kjarninn minn.
Viðmiðin mín eru því byggð á því hver ég er - en ekki hvað öðrum finnst eðlilegt, rétt eða passlegt fyrir mig. Ég er engin ofurkona, eins og fólk kastar fram - ég er bara Anna Lóa sem þarf að hafa mörg járn í eldinum og hef alltaf verið þannig. En ég er líka meðvituð um að ég þarf að passa mig því annars er hætta á ójafnvægi sem hefur áhrif á mig sem manneskju. Ég þarf að passa upp á svefninn, mataræðið, hreyfinguna og slökunina. Þegar ég gleymi mér fer allt í vitleysu og ég upplifi ójafnvægi - já það er ekki alltaf auðvelt að vera ég 😊
Í desember viljum fá að njóta meira og leyfa okkur hluti sem við gerum ekki alla jafnan en það þýðir ekki að við þurfum að sleppa okkur - meira er ekki endilega betra. Við njótum þess enn frekar að borða góðan mat ef við hreyfum okkur og erum andlega betur stemmd ef við munum eftir að eiga góðar stundir þar sem við slökum á. Við verðum að vanda okkur við að búa til gleðistundir og góðar minningar því það er svo stutt á milli þess að njóta og tapa sér í vitleysunni.
Þegar ég tala við ykkur er ég líka að tala við sjálfa mig. Ég ætla að vanda mig þessa dagana því ég veit að það skiptir máli. Ég ætla að muna hvað hátíð ljóss og friðar gengur út á og ekki festast í viðmiðum við aðra. Ég ætla að njóta þess að skrifa til ykkar, gefa af mér til fjölskyldu og vina og vera þakklát fyrir allt sem ég á í stað þess að svekkja mig á því sem ég á ekki. Stundum tekst þetta - en ekki alltaf og fegurðin er fólgin í því að átta sig á því að þannig er nú einu sinni lífið.
Staðreyndin er sú að það er ekki endilega auðveldara líf sem veitir okkur hamingju og ósjaldan sem ég hef skrifað um hvernig barátturnar okkar byggja upp styrk okkar og þol sem aftur eykur sjálfstraustið. Þar sem aukið sjálfstraust og sú tilfinning að hafa stjórn á lífinu er einmitt eitt af grunnstoðum hamingjunnar sjáum við hvernig þetta helst allt í hendur. Lífið er allskonar og verður ekkert endilega betra ÞEGAR og EF og því mikilvægt að við temjum okkur ákveðið umburðarlyndi gagnvart lífi okkar í dag í stað þess að vera of upptekin af því hvernig það ÆTTI að vera.
Anda inn - anda út - þetta byrjar allt þar!
Kærleikskveðja
Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com