Seiglan er svarið!!

Af hverju þurfum við að fara á skyndihjálparnámskeið aftur og aftur, þegar við erum í störfum þar sem við gætum þurft að beita fyrstu hjálp? Jú af því að endurtekningin er nauðsynleg og eykur líkur á réttum viðbrögðum ef við þurfum að nýta þekkinguna sem við öðlumst á þessum námskeiðum. Þess vegna fór ég t.d. annað hvert ár á skyndihjálpanámskeið sem flugfreyja og það sama gera þúsundi einstaklinga um allt land.
Endurtekningin skiptir máli
Það sama á við um sjálfstyrkingu – það væri eðlilegt að fara á sjálfstyrkingarnámskeið með reglulegu millibili því þá aukast líkur á því að við áttum okkur á því hvað er í gangi með okkur þegar við tökumst á við verkefni lífsins. Þegar ég held sjálfstyrkingarnámskeið byrja ég þau gjarnan með því að segja; þið hafið örugglega heyrt þetta allt áður en það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er hvernig þið nýtið ykkur þessa vitneskju þegar þið þurfið á henni að halda!
Ég þarf sjálf að minna mig á, aftur og aftur, að breytingar taka á mann og það þrátt fyrir að ásetningurinn sé jákvæður í byrjun og komi til með að skila manni sem þroskaðri eintaki út í lífið. Sú tilfinning sem er sterk og fylgir breytingum, er einmanaleiki. Ekki misskilja mig, hefur ekkert að gera með að maður sé einn – hefur að gera með að maður er að kveðja ákveðinn hluta lífs síns og áður en nýja lífið hefur náð að festast í sessi upplifum við gjarnan erfiðar tilfinningar og fyrir utan einmanaleika þá geta þessum tímabilum fylgt söknuður og óvissa, sem er eðlilegt í sjálfu sér.
Það getur verið erfitt að finna aftur kraftinn sem maður upplifði á fyrstu stigum breytinganna og sé ég þetta endurtekið hjá nemendum mínum. Byrja á fullum krafti í námi og svo þegar liðið er á seinni hluta fyrstu annar er eins og þeir labbi á vegg. Spennan farin og hversdagsleikinn kominn í staðinn með fjöldanum af verkefnum og áskorunum sem þeim fylgja. Ég segi gjarnan; það er ekkert mál að ákveða að breyta lífi sínu, en það er heilmikið mál að halda breytingarnar út.
Seiglan er svarið
En úthaldið er það sem skiptir öllu máli. Halda áfram þrátt fyrir að spennan sé farin og óvissa sé um hver og hvernig endapunkturinn verði. Þetta er með öðrum orðum seigla og til þess að takast á við lífið er besti ferðafélaginn okkar seigla. Við þurfum seiglu þegar við tökumst á við breytingar en því meiri sem seiglan er því meiri líkur á jákvæðri aðlögun eftir að hafa farið í gegnum þessi tímabil.
Ef þú sem ert að lesa þetta ert að fara í gegnum breytingar þá skiptir máli að vera þolinmóður en líka að skoða hugsanir þínar. Orðræðan okkar skiptir svo miklu máli og stundum þróum við með okkur nokkurs konar lært hjálparleysi þar sem neikvæðar hugsanir taka yfir: ég hef ekkert um þetta að segja, skiptir engu máli hvað ég reyni, einhvern veginn tekst þetta aldrei eða gat verið að ég lenti í þessu - alveg dæmigert fyrir mig!!
Ef við teljum okkur ekki hafa vald yfir eigin lífi – höfum við misst valdið yfir eigin lífi!
Muniði eftir sögunni af írsku sjómönnunum til forna sem lærðu ekki að synda því þeir trúðu því að ef sjóguðinn ætlaði að taka þá, gætu þeir ekki komið í veg fyrir það. Svo þeir reyndu ekki einu sinni að koma í veg fyrir slys.
Hugsun, hegðun, markmið
Þetta snýst um hugsun, hegðun og markmið. Þú verður að muna hvert markmiðið var í byrjun og að þú metir sjálfan þig nógu mikið til að gera það sem þú veist að er best fyrir þig!! Viðurkenning og hvatning annarra er auka bónus – á ekki að vera forsenda breytinga! Þú hefur oft áhrif á aðra með því að breyta lífi þínu en það má ekki vera sú skilyrta hugsun að baki breytingunum!
Ég þurfti að minna mig á þetta í dag og vona að einhver lesenda minna hafi líka þurft smá hvatningu. Stundum erum við að bíða eftir því að njóta lífsins og í okkur býr sú falska vænting að eitthvað eitt muni færa okkur eilífa sælu! Fáir dagar eru toppdagar – flestir venjulegir og þar eigum við að sækja fram. Hamingjuríkara líf mótast sjaldan af einhverjum einum óvenjulegum atburði sem breytir lífi fólks – heldur mótast það stig af stigi, af reynslu á reynslu ofan, augnablik fyrir augnablik!
Kærleikskveðja heart broskall Anna Lóa