Saving Mr. Banks

Horfði á yndislega mynd á Skjábíó (Vod-inu) í gærkvöldi sem vakti mig svo til umhugsunar. Myndin heitir Saving Mr. Banks og er með stórleikurunum Emmu Thompson, Tom Hanks og Colin Farrell. Saving Mr. Banks er sannsöguleg mynd sem segir frá samningaviðræðum Walt Disney og P.L. Travers höfundar Mary Poppins, en Disney reyndi árangurslaust í 20 ár að tryggja sér kvikmyndarétt sögunnar. Mér fannst myndin bæði fyndin og dramatísk en síðast en ekki síst dregur hún fram hvað sögur okkar allra skipta máli og á okkar valdi að ákveða útfrá hvaða hluta sögu okkar við skilgreinum líf okkar.

Þannig finnst mér myndin einmitt minna mann á að VIÐ skiptum öll máli og þrátt fyrir erfiða sögu ættum við að reyna að njóta þess að lifa lífi okkar til fullnustu þrátt fyrir ófullkomleika, mistök, aukakíló, og annað sem við teljum til galla sem haldi hamingjunni frá okkur. Málið er að þegar við förum að lifa ,,okkar“ lífi af fullum krafti upplifum við til skiptis mikinn kjark og hræðslu en á sama tíma upplifum við líka að við séum full af lífi. Að lifa til fullnustu snýst um að taka þátt í lífinu með þá vissu að maður sé mikils virði og eigi sama rétt og aðrir. Þá fjallar það ekki síður um að efla kjarkinn með því að prófa sig áfram og á sama tíma þá er maður að efla tengsl við sjálfan sig og aðra.

Þegar við förum að efla okkur sjálf verða samskipti við aðra betri en manneskja sem er á í sífelldum útistöðum við aðra á yfirleitt í innri baráttu við sjálfan sig. Breytingar eru erfiðar en eina leiðin til framfara. Þegar við stöndum frammi fyrir breytingum höfum við stundum meiri áhyggjur af því hvað öðrum finnst og látum eigin tilfinningar og þarfir mæta afgangi. Þannig tökum við almenningsálitið framyfir eigin sannfæringu og svíkjum þannig okkur sjálf. Við höfnum sögunni OKKAR.

Ég hlakka til þegar sá dagur kemur að ég er ekki að velta því fyrir mér hvað öðrum finnst og segi fullkomnunaráráttunni stríð á hendur. Það væri ómetanlegt fyrir heilu fjölskyldurnar ef við hættum að deyfa okkur með neyslu vegna þess að við treystum okkur ekki til að vera við sjálf, sem leiðir af sér tilfinningadoða og vanmátt. Mikið væri lífið gott ef við slepptum samanburði og viðmiðum við aðra og mundum njóta þess að vinna meira saman. Held að það væri aldeilis frábært ef við mundum sleppa því að vinna okkur til óbóta til að ná okkur í stöðutákn eða auka sjálfsvirðinguna. Best af öllu væri ef við hættum að reikna með því að ef lífið gengur vel þá hljóti eitthvað slæmt að bíða okkar hinum megin við hornið - allt gott taki enda. Svo væri náttúrulega algjörlega frábært ef við viðurkenndum bara oftar að við erum bara alls ekki alltaf með stjórnina og það er bara allt í lagi.

Það er líka mikilvægt að við áttum okkur á því að við viljum breyta sögunni - við viljum öðruvísi endi, og undir okkur komið að stefna að því. Vandamál í fjölskyldum fylgja þeim oft fjórar kynslóðir - eða þangað til einhver ákveður að breyta sögunni. Æðruleysisbænin á vel við þarna, við getum breytt ákveðnum hlutum en verðum að sætta okkur við annað sem er ekki á okkar færi að breyta.

Án þess að ég eyðileggi fyrir ykkur sem eigið eftir að horfa á Saving Mr. Banks, þá er þessi mynd í mínum huga fyrst og fremst um sögur okkar allra og hvernig við getum notið lífsins með því að horfast í augu við það að sumu breytum við ekki en sögulokin geta verið á okkar valdi.

Kærleikskveðja

Anna Lóa