Sátt og sæla!

Er alltaf að komast að því betur og betur að sátt í eigin skinni skiptir svo ótrúlega miklu máli fyrir líf okkar og hamingju. Þegar maður áttar sig á því að hamingjuríkara líf er ekki undir öðrum komið, er mikill sigur unninn. Þegar maður stendur sjálfan sig að því að vera að skilyrða allt sem maður gerir þá er maður í raun að segja að ef umhverfið er eftir mínu höfði þá er ég ánægð. Þá er maður í raun að segja að maður gefi öðrum ekki leyfi til að vera á sínum stað því það hentar mér ekki. Í stað þess að því að vera sú breyting sem ég vil sjá er ég upptekin af því hvernig aðrir geta bætt sig. Já mikið væri nú lífið betra ef allir HINIR væru aðeins öðruvísi Þegar við samþykkjum okkur eins og við erum OG leyfum öðrum að lifa sínu lífi og ná sátt á eigin forsendum, finnum við fyrir sátt í eigin skinni. Dettum stundum inn í viðmiðin þannig að þegar við upplifum eitthvað ætlum við öðrum að upplifa það sama. Í stað þess að vera bara meira á okkar stað og upplifa þá ró og innri kyrrð sem fylgir sáttinni, gætum við viljað bjarga heiminum. Við þurfum ekki að vera svona upptekin af lífi annarra – en stundum þurfum við að vera uppteknari af því hvernig lífi við viljum lifa og hvað gerir okkur gott. Hver við erum í viðmiði við einhverja aðra skiptir ekki máli – hver við erum í viðmiðum við okkar innsta kjarna, gildi og viðhorf, er það sem skiptir máli. Ég nefni þetta hér því ég hef stundum verið upptekin af því að aðrir skilji af hverju ég vel að haga lífi mínu á þann hátt sem ég geri. Af hverju vel ég að borða þetta, starfa í þessari grein, skrifa svona pistla, búa á þeim stað sem ég bý, umgangast þetta fólk, nota frítíma minn í einmitt þetta, o.s.frv. Ég er í starfi sem krefst af mér að hlusta meira og tala minna. Prófaðu að hlusta á manneskju án þess að koma þínum málum að. Þegar við förum að skoða hvernig samskipti eiga sér stað þá lita viðmiðin oft samræður. Dæmi: ,,Veistu, mér líður eitthvað svo illa, finnst ég ekki hafa tök á öllu sem ég þarf að takast á við og finn fyrir streitu“. Viðbrögð: ,,já ok, brjálað að gera hjá mér líka. Maður á bara að vera þakklátur fyrir að hafa vinnu“. Bara klassískt dæmi um hvernig við tökum athyglina frá þeim sem er að biðja um hlustun og snúum að okkur. Þann sem vantar stuðning upplifir jafnvel að honum eigi bara alls ekki að líða svona. Til þess að upplifa meiri sátt í eigin lífi þurfum við að viðurkenna að okkur má líða eins og okkur líður. Það skiptir miklu máli að við séum ekki að setja upp leikrit þar sem okkur finnst að okkur eigi að líða einhvern veginn öðruvísi því þá er hætta á að við förum að deyfa tilfinningar okkar sem finna sér annan farveg með tímanum. Þarna er ég ekki að tala um þunglyndi en vanlíðan og doði geta auðvita endað þar ef við erum ekki á varðbergi. Deildu sögunni þinni með þeim sem hafa burði til að bera hana og benda þér ekki alltaf á að þú eigir að vera öðruvísi. Ég er ekki alltaf hoppandi glöð og ánægð þrátt fyrir að sumir reikni með því, ég er jú Hamingjuhornið. En hamingjan mín hefur aukist mikið eftir að ég leyfði mér að finna til og viðurkenna að ég má vera eins og ég er. Hamingjan mín hefur aukist eftir að ég áttaði mig alltaf betur og betur á því að það er ekki ein uppskrift að vellíðan sem er rétt fyrir alla, en því sáttari sem maður er með sjálfan sig aukast líkurnar á vellíðan í samræmi við það. Á erfiðum dögum leyfi ég mér að hugsa ,,já ok, ég er hér í dag, þetta gengur yfir og ég veit að ég á eftir að komast á annan stað“. Tilfinningar okkar eru líka mikilvægur leiðarvísir og því skiptir máli að reyna að átta sig á því af hverju við finnum það sem við erum að finna. Kannski er þetta hugsanavilla sem gefur tilefni til að endurmeta og endurskoða. Þegar við lifum í meiri sátt eigum við auðveldara með að nálgast fólk tilfinningalega og leyfa okkur að tengjast öðrum á eðlilegum forsendum. Þá getum við hælt og hrósað öðrum og stendur ekki ógn af þeim sem gengur vel í lífinu. Þurfum ekki að tala aðra niður til að upphefja okkar eigið ágæti. Verðum betri uppalendur og leyfum börnum okkar að reka sig á í stað þess að vera þroskaþjófar sem stjórna og stýrast í öllu. Erum tilbúinn að læra af lífinu, stækka okkur sjálf og aðra í leiðinni. Vona að dagurinn þinn verði góður! Kærleikskveðja úr horninu mínu!! Anna Lóa