Sambandsspillirinn BOND
Við vorum búin að vera að hittast í nokkurn tíma og leið vel saman. Fórum í leikhús, á tónleika, horfðum á bíómyndir og borðum góðan mat. Skruppum í bíó á dögunum, fórum á Bond og svo út að borða. Mér leið vel og á leiðinni heim er ég eitthvað hugsi og segi áður en ég veit af: hugsaðu þér, núna erum við búin að vera saman í fjóra mánuði!
Það fylgdi þögn í kjölfarið, óþægileg þögn. Ég hugsaði: ætli það hafi farið í taugarnar á honum að ég hafi sagt þetta. Honum finnst örugglega eins og ég sé að taka þessu of alvarlega. Kannski finnst honum þetta vera orðinn of mikil skuldbinding.
Hann hugsar: fjórir mánuðir, vá hvað tíminn líður.
Ég hugsa: ja ég er nú heldur ekkert svo viss um að ég vilji eitthvað alvarlegt samband. Ég væri alveg til í að halda frjálsræði mínu, þetta gerist allt svo hratt. Og hvað svo, við höldum áfram og áður en við vitum af þá er hann fluttur inn með fermingarlampann sinn, tengdó í mat og mér finnst ég ekki einu sinni þekkja manninn almennilega.
Hann: úff það þýðir að það er kominn nóvember og ég átti að láta skoða bílinn í september. Ég var búin að heita sjálfum mér að ég mundi ekki borga vanrækslugjald framar.
Ég held ÁFRAM að hugsa: sé á honum að hann er pirraður, þekki þennan svip. En er ég mögulega að lesa vitlaust í þetta. Kannski vill hann meiri alvöru í þetta samband - meiri skuldbindingu og er hræddur við höfnun frá mér. Æ greyið.
Hann blótar sjálfum sér í huganum: oh, og ég veit að það verður gerð athugasemd varðandi handbremsuna, verð að láta laga hana ef ég ætla að fá skoðun. Þarf líka að kaupa ný vetrardekk þannig að við erum að tala um tugir þúsunda útgjöld vegna bílsins.
Ég fæ samviskubit: æ, hann er reiður sem ég skil reyndar vel. Það er ekki þægilegt að vera hafnað - been there, done that! En hvað get ég gert, ég er bara ekki viss um að ég vilji endilega fara út í meiri skuldbindingu. Hann er yndislegur og allt það en verður maður ekki að vera alveg viss!
Hann reiknar þetta saman í huganum: dekkin ein og sér gætu kostað um 100.000 kr. - oh þetta er brjálæði og svona rétt fyrir jólin.
Ég: skil ekki sjálfa mig stundum - eftir hverju er ég að bíða, að prinsinn á hvíta hestinum komi. Hér sit ég við hliðina á þessu yndislega manni sem mér finnst svo gaman að vera í kringum og hann niðurbrotinn því ég er bara sjálfselsk kona með óraunhæfa rómantíska ævintýradrauma.
Hann mundi allt í einu eftir auglýsingu á FB ,,Dekk til sölu, hagstætt verð“. Tékka á þessu um leið og ég kem heim.
Ég ákvað að segja eitthvað þegar hann stöðvaði bílinn fyrir framan heima enda þögnin orðin skerandi: við verðum að tala saman!
Hann hrekkur aðeins við: já er það, já ok.
Ég leit djúpt í augu hans: æ fyrirgefðu, kannski átti ég aldrei að segja þetta, oh ég er svo mikill bjáni stundum. Ég fór að gráta.
Hann horfir á mig, eitt spurningarmerki: bíddu, bíddu, hvað er að?
Ég rétt næ að stama út úr mér, inn á milli ekkasoganna: æ ég er bara svo mikið fífl eitthvað. Veit alveg að það er enginn prins og svo sannarlega enginn hestur. Hvað er eiginlega málið.
Hann áfram eitt spurningarmerki: enginn hestur?
Ég: finnst þér ég algjört fífl!
Hann fljótur að svara: NEI, bara alls ekki.
Ég þurrka mér um augun: held ég þurfi bara smá tíma til að hugsa þetta allt - gerist eitthvað svo hratt.
Hann er hugsi smá stund en segir svo: já já ég skil.
Ég: æ takk, þú ert svo skilningsríkur!
Hann: já bara takk sömuleiðis!
Við kveðjumst. Ég er gjörsamlega búin á því andlega og hringi í þrjár vinkonur og við förum yfir þessa erfiðu stöðu og ég dett svo niður hálf meðvitundarlaus á koddann og ætlaði aldrei að sofna.
Hann fer heim, horfir á golf í sjónvarpinu og kíkir svo á dekk á netinu. Hann er meðvitaður um að það var eitthvað stórundarlegt að gerast þarna í bílnum. Hefur ekki hugmynd um hvað það var og sendir vini sínum sms fyrir svefninn: alls ekki fara með konuna á BOND, myndin hefur einhver stórundarleg áhrif á konur!
Kærleikskveðja!
Anna Lóa