Sagan okkar skiptir máli!

Góðan dag kæru vinir
Þessi skrif eru undir áhrifum frá vinkonu minni, Brené Brown og bókinni Rising Strong. Hugurinn okkar og tilfinningar stýra svo miklu í lífi okkar en oft vitum við ekki hvað tilfinningar okkar eru að segja okkur og hugurinn tekur við og túlkar allt á kolvitlausan hátt. Það er mikilvægt að ganga við tilfinningum sínum og læra inn á þær, því annars erum við ekki tengd við okkar innsta kjarna. Þegar við gefum okkur ekki tíma til að fara í gegnum tilfinningarnar og hvernig okkur líður er eins gott að við gerum okkur grein fyrir því að þessar tilfinningar hverfa ekki, því þær koma sér kirfilega fyrir innra með okkur og safnast jafnvel upp í óæskilega stóra bunka.
Ástæður þess að við göngumst ekki við eða tölum um tilfinningar okkar geta verið margar. Okkur gæti þótt það veikleiki eða þær verða of raunverulegar þegar það er opnað á þær. Eigum ekki orð yfir líðan okkar svo við segjum ekkert eða gerum grín af því hvernig okkur líður. Gætum upplifað það sem sjálfselsku – þetta sé ekki svo mikið mál eftir allt saman! Við megum samt ekki gleyma því að tilfinningar okkar eru oftar en ekki með mikilvæg skilaboð og það getur verið vont að horfast í augu við eitthvað sem ég „veit“ en vil ekki vita. Hver hefur ekki lent í að það eru rauð ljós blikkandi framundan en engin heima.
Þegar við verðum fyrir erfiðleikum eða áskorunum í lífinu þá er ekki óeðlilegt að vilja flýja frá þeim aðstæðum og láta sem þetta sé ekki að gerast. Þegar við erum að fara í gegnum sorgarferli er m.a. talað um að eiga sér stundir þar sem maður er að gera eitthvað allt annað en sinna sorginni því tilfinningarnar geta verið svo yfirgnæfandi. En við þurfum samt sem áður að fara í gegnum þetta ferli því annars eltir það okkur uppi og þrátt fyrir að við tökumst líka á við eitthvað sem við getum gleymt okkur við (sem er gott) þá þarf að vera ákveðið jafnvægi þarna á milli.
Við notum nokkrar leiðir til að forðast að takast á við erfiðar tilfinningar og sú fyrsta er að glassúrhúða það sem við höfum farið í gegnum. Jákvæðni og bjartsýni eru af hinu góða en það sem er átt við hér er að við gerum lítið úr aðstæðunum og teljum okkur trú um að þær hafi ekki áhrif á okkur. Hægt að taka dæmi um einhvern sem kemur illa fram við þig t.d. á vinnustaðnum og þú er ekki heiðarlegur um hvernig þér líður með það og telur þér trú um að þetta sé ekkert mál en missir þig svo á börnin og makann þegar þú kemur heim. Þú stendur ekki með sjálfum þér og telur þér jafnvel trú um að aðstæðurnar hafi ekki áhrif á þig, á meðan sannleikurinn er sá að þú treystir þér ekki til að takast á við það sem er í gangi og reynir að gera lítið úr því.
Svo getum við notað egóið okkar sem leið til að forðast að takast á við tilfinningar okkar með því að ákveða að allt þetta tilfinningaraus sé bara fyrir dramadrottningar og viðkvæma. Egóið okkar er alltaf í viðmiðum; ég þarf að vera betri, sterkari, gáfaðri og meira með hlutina á hreinu en næsti maður. Ég get ekki sagt eða sýnt að mér líði eins og mér líður, hvað heldur fólk þá! Ég er sterkari en aðrir!! Algeng leið til að komast hjá því að skoða hvað tilfinningarnar eru að segja okkur er hreinlega að deyfa þær. Hef oft talað um það áður en hvort sem það er áfengi, vinnan matur, kynlíf, sambönd, peningar, trúarbrögð, fullkomnunaráráttan, samfélagsmiðlar eða endalausar breytingar á lífshögum okkar, þá eru þetta allt leiðir sem er auðvelt að festast í til að takast ekki á við erfiða tíma. En við þurfum að vera meðvituð um að þegar við deyfum þessa dimmu tíma þá erum við að deyfa björtu tímana í leiðinni.
Líkaminn okkar er svo fullkominn og hann lætur heyra í sér þegar við söfnum í tilfinningabunka. Gæti byrjað með svefnleysi og einbeitingarskorti sem gæti þróast út í kvíða og þunglyndi sé ekki gripið inn í. Þrátt fyrir að baki kvíða og þunglyndis séu líffræðilegar skýringar sem við ráðum ekki við þá má samt ekki gera lítið úr þeim áhrifum sem sálræn áföll hafa á okkur og afleiðingar sem slíkt getur haft.
Það erfiðasta við sögur okkar allra og þar með tilfinningar er það sem við bætum við þær. Við tökum oft einfalda sögu og flækjum hana og breytum þannig að annað hvort gerum við lítið úr okkar þætti eða við gerum svo mikið úr honum að við upplifum það mikla skömm og vanmátt að sjálfsvirðingin ber skaða af. Þess vegna getur verið svo gott að deila sögunni okkar því ef við gerum það með einhverjum sem hefur burðina þá sér sú manneskja hverju við höfum bætt við söguna og heyrir hvar við erum stödd. Sú manneskja mun hvorki hjúpa hana glassúr né gera lítið úr henni – hún mun heyra það sem við segjum og deila með okkur til baka því sem hún heyrir. En það sem meira er – hún hjálpar okkur að eigna okkur sannleikann – ekki ýktu útgáfuna, og gangast við því sem við höfum upplifað þrátt fyrir að það taki á.
Mundu; sá sem dæmir aðra dæmir sjálfan sig mest og það fer engin í gegnum lífið án þess að falla á andlitið og það oft. En oftast hefur þetta ekki bara með fallið að gera – heldur túlkun okkar á fallinu þar sem við göngum jafnvel svo langt að berja okkur niður fyrir að „steinninn“ sem við duttum um var á þessum stað á þessum tíma! Það þarf kjark til að standa upp - en einmitt með því að standa alltaf upp aftur erum við á góðri leið með að lifa heil í okkur sjálfum!
Verum góð við okkur!
Kærleikskveðja Anna Lóa