Öskubuska og önnur ævintýri!!
Held áfram að tala um meðvirkni. Eitt af einkennum meðvirkni er sú tilhneiging að vænta þess að einhver einn atburður færi okkur hamingjuna eins og prinsinn á hvíta hestinum eða eina rétta konan. Þannig festumst við í barnatrúnni og þroskum ekki með okkur heilbrigðar væntingar. Svarið hjá konunni liggur í því að finna þann eina rétta og fyrir karlinn er það þessi endalausa leit að hinni einu réttu. Þegar þroskinn og væntingar okkar eru raunhæfar vöxum við upp úr sögulegu gildi þessara sagna og meðtökum þau táknrænu gildi sem þau standa fyrir.
Colette Dowling setti fram áhugaverða en jafnframt umdeilda kenningu í bók sinni Öskubuskuáráttan. Þar lýsir hún því hvernig líf hennar breyttist þegar hún kynntist manni eftir að hafa verið einstæð móðir í fjögur ár og barist til metorða sem blaðamaður:
- „Þegar við fluttum út í sveit þetta dásamlega haust, fannst mér eins og ég hefði verið náðuð eftir þennan tíma, sem ég hugsaði alltaf um sem „erfiðleikatímabilið“. Ég fann til öryggis í fyrsta sinn í mörg ár, og þá fór ég að skapa hinn rólega heimilisbrag, sem virðist vera helsta minning manns frá barnæskunni. Ég bjó til hreiður og einangraði það með mýksta dúninum og bómullarhnoðrunum sem ég fann. Síðan faldi ég mig í þessu hreiðri“ (Dowling, Colette, 1981, bls. 23).
Coletta lýsir því hvernig hún smám saman týndi sjálfri sér, metnaðurinn minnkaði og um leið þægindahringurinn og trú hennar á sjálfa sig. Nýja lífið snerist í kringum „prinsinn“ hennar og fjölskylduna, án þess að nokkur gerði um það kröfu nema hún sjálf.
Margir hafa gagnrýnt þessa kenningu og á við þetta eins og margt annað, einhverjir geta samsamað sig því að gleyma hluta af sjálfum sér þegar farið er í samband, en aðrir alls ekki. Þrátt fyrir að þarna sé vísað í tilhneigingu kvenna þegar þær hafa fundið prinsinn sinn þá getur þetta átt við bæði kynin, þ.e. að maður gleymi hluta af sjálfum sér í „samrunanum“.
Í ævintýrunum er okkur talin trú um að einhver önnur manneskja hafi það vald að breyta svarthvítu lífi okkar í litríka og spennandi óvissuferð, en staðreyndin er yfirleitt önnur. Þegar við erum á bleiku skýi er það vegna þess að að við erum að upplifa aðdáun annarra manneskju sem finnst við vera skemmtileg, sjarmerandi, kynþokkafull, klár og eftirsóknarverð. En það er ekki nóg, okkur þarf sjálfum að finnast við vera allt þetta því annars er hætta á að hamingja okkar sé bundið við aðdáun annarra og við vöðum úr einu sambandinu í annað í þeirri von að upplifa „bleika skýið“ aftur. Hversdagsleikinn verður okkar aðal óvinur og væntingar um að hamingjan sé handan við hornið getur reynst dýrkeypt.
Þeir sem eru meðvirkir laðast oft að spennandi fólki annars vegar og hins vegar fólki sem þarfnast þeirra. Ástæðan er skert sjálfsmat og þannig finnst þeim eftirsóknavert að umgangast þá sem mikið ber á eða þá sem þarfnast þeirra mikið. Sá meðvirki reynir að breyta sér í þá manneskju sem það telur að hinn aðilinn vilji og gerir þau mistök að fara frá þeirri persónu sem hinn aðilinn varð ástfanginn af í aðra persónu sem hinn aðilinn kærir sig ekki um. Þessi sambönd eru dæmd til að mistakast ef ekki er gripið í taumana og unnið að uppbyggingu.
Manneskja sem þekkir ekki eigin tilfinningar og sjálf getur ekki bundist öðrum tilfinningasambandi. Til að geta átt í heilbrigðu sambandi við aðra þurfum við að þekkja okkur sjálf, styrkleika okkar, langanir og drauma. Sjálfstyrking er mikilvæg í þessu ferli og þar sem við sitjum uppi með okkur sjálf alla ævi þá skiptir svo miklu máli að við trúum því að við eigum allt það besta skilið á sama hátt og aðrir. Snýst ekki um að verða valin – snýst um að hafa sjálfur val sem er byggt á því sem við viljum inn í líf okkar.
Við eigum þetta eina líf og því mikilvægt að við lifum því eins vel og við getum. Sá sem þekkir sjálfan sig vel og kann að uppfylla eigin þarfir tekur ábyrgð á eigin lífin og er betur í stakk búinn til að vera til staðar fyrir sig og aðra.
Kærleikskveðja
Anna Lóa