Og ég beið, og ég beið og ég beið.......

Var það ekki Laddi sem tók fyrir karakterinn sem bara beið og beið og beið!! Stundum erum við að bíða eftir því að það sé rétti tíminn til að takast á við hluti sem við vitum að okkur langar að takast á við eða við verðum að takast á við. Ég man vel þá tíð sem ég öfundaði (já veit að það er ljótt að öfunda) fólk sem hafði nógu mikið sjálfstraust til að láta drauma sína rætast og var þjökuð af þeirri tilfinningu að það væru jú bara sumir sem gætu leyft sér þetta! Kannski mundi ég gera eitthvað þegar allt væri breytt hjá mér! Það eru ekki bara SUMIR sem geta breytt lífi sínu – við höfum öll sama rétt til þess en oftar en ekki erum við ekki að nota þann rétt. Ef þú ert að byrja einhverja ákveðna vegferð í lífi þínu og neikvæðar gagnrýnishugsanir eru að reyna að stoppa þig þá er einmitt málið að koma auga á þessar hugsanir og átta þig á því að þetta eru AÐEINS hugsanir. Með því að aðgreina þær frá öðrum og uppbyggilegri hugsunum ertu að taka fyrsta en mikilvægasta skrefið í áttina að breytingum sem þú vilt sjá. Neikvæðar gagnrýnishugsanir eru yfirleitt vanahugsanir sem við erum jafnvel hætt að taka eftir. Hvað fer t.d. í gegnum kollinn á þér þegar þú lest þennan pistil ,,Anna Lóa getur talað svona, hennar veruleiki er einhver allt annar en minn“. En það er alls ekki málið, auðvita eru veruleiki okkar allra ólíkur en veruleikinn minn litast mikið af því í dag að ég ákvað að segja neikvæðum gagnrýnishugsunum stríð á hendur og taka sjálf stjórn! Tekst það alltaf? Nei – en ég ótrúlega dugleg að æfa mig og það skiptir öllu smile emoticon Neikvæðu raddirnar okkar tengjast oft ótta við mistök, breytingar, athygli eða eru bara á sjálfstýringu á þeirri leið að halda okkur niðri og rækilega negld við þægindahringinn okkar. Mér hefur verið tíðrætt um kjark – af því að við þurfum kjark til að taka skrefin áfram þegar innri gagnrýnisröddin rígheldur í okkur og vill bara alls ekki sleppa; Anna Lóa hvað ertu að spá, þér gæti mistekist, þér gæti verið hafnað, þau þola þig kannski ekki, þú gætir gert þig að stórkostlegu fífli, EKKI gera þetta.............“. Þú sem ert að lesa þetta og þarft að takast á við eitthvað verkefni núna, skilaboðin til þín eru: hafðu kjark til að taka skrefin í átt að því lífi sem þú vilt fyrir þig og þína. Stökktu ofan í laugina og vertu þinn besti vinur alla leið þegar einhverjir standa uppi á bakkanum og hrista hausinn yfir þessu uppátæki þínu. Mundu að þegar það hentar öðrum illa að þú breytist þá segir fólk jafnvel með þessari leiðinlegu röddu; uh þú hefur breyst ............... en það sem það er í raun að segja er; þú ert hættur að lifa því lífi sem hentar mér!! Kærleikskveðja heart emoticon smile emoticon Anna Lóa