Nenn'essu ekki!

Æ veistu, ég er að hugsa um að flytja bara héðan, þangað sem einhver kann virkilega að meta það sem maður hefur fram að bjóða! Alltaf sama volæðið hérna – fólki er ekki viðbjargandi!!

Lífið hefur tilhneigingu til að virka eins og einn stór spegill; það sem þú finnur fyrir hið innra endurspeglast í ytra umhverfi þínu. Þess vegna er erfitt að breyta lífinu með því að breyta ytra umhverfi okkar - verðum yfirleitt að byrja innra með okkur sjálfum.

  • Ef fólkið í samfélaginu þínu er óvinveitt þá er ekki endilega víst að hlutirnir breytist þó þú flytjir.
  • Ef vinnufélagarnir þínir eru upp til hópa leiðinlegir og sýna þér litla virðingu, getur þú ekki endilega búist við breytingum þrátt fyrir að skipta um vinnu.
  • Þú ert svo óheppinn að þessi kærasti/kærasta er líka ómöguleg/-ur - sá næsti hlýtur að vera betri......ekkert endilega.

Oftar en mig langar að muna er ég svo viss um að það breytist allt ef ég bara bý við aðrar aðstæður. Þetta hljóti jú að snúast um samfélagið í kringum mig eða aðstæður mínar, en ekki um mig. Fólkið fattar ekki mig og þess vegna verð ég að færa mig til í lífinu og þá verður allt betra!!
Það skiptir miklu máli að vera sáttur í eigin skinni því að um leið og þú tekur sjálfan þig í sátt bregst umhverfið við og býður sáttarhönd á móti. Ef við erum alltaf að senda út þau skilaboð að við séum ekki alveg nógu góð - þá bregst umhverfið gjarnan þannig við okkur.

Til þess að geta elskað einhvern skilyrðislaust verðum við að vera nógu sterk til að uppfylla eigin þarfir fyrst til að eiga nóg eftir handa öðrum. Það sem einkennir vel nærðan mann er hæfileikinn til að deila með öðrum. Vissulega eru stundum ástæður til að skipta um vinnu, samfélag eða maka en ef þú breytir ekki hugsunum þínum og innra regluverki er mikil hætta á að þú kallir sí endurtekið yfir þig sömu hlutina. Sá sem gerir alltaf það sama og hugsar alltaf eins getur ekki búist við öðru en umhverfið bregðist alltaf eins við.

Ábyrgð er mikilvægt hugtak í umræðum um samskipti en okkur hefur fyrst og fremst verið kennt að hugsa um ábyrgð gagnvart öðrum. En sú ábyrgð sem við berum á eigin lífi og hamingju vill gleymast. Sá sem ber ábyrgð á eigin lífi fullnægir þörfum sínum án þess að taka þann rétt af öðrum og hann kennir ekki öðrum um það sem hann er, gerir, fær eða finnur. Sá einstaklingur ber ábyrgð á orðum sínum, hugsunum og gjörðum og þrátt fyrir að aðrir kunni að hafa áhrif á viðkomandi er það einstaklingurinn sjálfur sem velur hvort hann tekur þau áhrif til greina eða ekki.

Álit annarra á okkur skiptir ekki máli fyrr en álit annarra skiptir OKKUR öllu máli! Þá erum við rétt eins og lauf í vindi sem fýkur til og frá eftir því sem öðrum finnst - já við nánast gefum öðrum valdið yfir líðan okkar og höfum misst hæfileikann til að líða vel eða illa á eigin forsendum.

Ef við teljum okkur ekki hafa vald yfir eigin lífi erum við búin að missa valdið á eigin lífi. Þá er tími til að sækja sé hjálpar sem snýst yfirleitt um það að hjálpa okkur að finna fyrir sátt í eigin skinni og upplifa hamingju og vellíðan út frá eigin forsendum. Það er svo mikill styrkleiki að viðurkenna að maður þurfi kannski smá aðstoð og sú sem þetta skrifar finnst það nánast eins nauðsynlegt og fá sér lýsi á morgnana.

Ég hef gjarnan sagt frá því að sá fagaðili sem ég leitaði til tók mig upp með kíttispaða og sparslaði mér saman. Ég hef líka sagt að þessi fagaðili var eins og afruglari – hjálpaði mér að koma skikk á hugsanavillur sem höfðu hreiðrað um sig í gegnum tíðina. Þessi fagaðili hvatti mig til að setja upp ný gleraugu og skynja veröld mína á annan hátt en ég hafði gert og eftir samtölin mín við hana áttaði ég mig á að það væru sjaldan athafnir sem laga innri líðan heldur ferðalagið að innri visku. Það gerist með sjálfsþekkingu, kynnast sér með kostum og göllum, vita hvert maður vill fara og hvað maður þarf að gera.

Þess vegna segi ég; flest samtöl hafa einhver meðferðargildi – en góð samtöl geta haft stórkostlega mikilvæg gildi.

Takk fyrir að lesa.....
Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com