Misstirðu af lestinni?

Ég fann mig ekki í framhaldsskóla og sá ekki tilganginn með því að halda áfram. Hætti og fór að vinna. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir fólkið í kringum mig – ég hafði alltaf á auðvelt með að læra og umhverfið búið að gera ráð fyrir einhverri framtíð þegar ég var enn að átta mig á mér. Ég sá ekki tilgang menntunar á þessum tíma – en ég sá marga kosti við það að vera á vinnumarkaði því þar fékk ég útrás fyrir orkuna fyrir utan að ég eignaðist pening. Fékk heldur betur að heyra það og fólk reyndi markvisst að troða inn á mig skömm og jú jú, það tókst. Þú ert búin að missa af lestinni - var frasi sem festist í hausnum á mér.

En með tímanum þá fann ég að ég var að verða tilbúin og fann að undir niðri langaði mig ekkert meira en að mennta mig. En það var áskorun þegar ég loks tók af skarið og skráði mig í nám – ég var full af efasemdum um eigið ágæti og sú hugmynd að kannski hefði ég hætt í skóla af því að þar átti ég ekki heima, hafði grafið um sig. Þær efasemdir reyndust óþarfar – því mér gekk mjög vel í námi, ég óx og ég stækkaði, já ég blómstraði! Nú gat ekkert stoppað mig!! Þetta gæti verið saga fjölda nemenda minna, fjölskyldumeðlima, vina og sagan mín……. Þetta er saga „Late bloomers“!

Skilgreining á „Late bloomer“ gæti verið; einstaklingur sem blómstrar á eigin forsendum, út frá innri hvatningu og á þeim tíma sem hentar honum. Þetta gera þeir oft án þess að aðrir séu endilega meðvitaðir um að þeir séu að feta nýjar leiðir, og koma svo sjálfum sér og öðrum á óvart með því að sýna fram á góðan og jafnvel afburðar árangur.

Við finnum ástríðu okkar, hæfileika og styrkleika á mismunandi tímum í lífinu og að baki geta bæði verið líffræðilega og félagslegar ástæður. Það er talað um að heilinn sé ekki fullþroska fyrr en um 25 ára aldur og svo tökum við okkur bara mislangan tíma í að skoða og greina styrkleika okkar og færni.

Aðstæður okkar eru allskonar og svo geta hinar ýmsu taugaþroskaraskanir gert það að verkum að í gegnum ákveðin tímabil er bara erfiðara að vera í námi. Einstaklingar sem eru t.d. með adhd greiningu hafa margoft talað um hversu erfitt sé að læra ef þeir sjá ekki tilganginn eða notagildið í því sem þeir eru að gera. Það getur svo breyst með meiri þroska og jafnvel ytri stuðningi. Svo geta væntingar umhverfisins til einstaklingsins verið algjörlega á skjön við það sem hann er sjálfur að upplifa sem kallar fram ákveðna togstreitu sem getur gert það að verkum að skólagangan verður bæði erfið og virðist tilgangslaus.

Það má segja að í dag séum við mikið að lifa lífi okkar í gegnum aðra þar sem samanburður og væntingar einkenna mikið samskipti okkar, t.d. á samfélagsmiðlum. Þessu fylgir oftar en ekki vanlíðan og kvíði en þar fyrir utan þá er hraðinn einhvern veginn þannig að við gefum okkur ekki tíma til að staldra við og íhuga hvert við erum að fara og af hverju. Fólk jafnvel búið að toppa sig fyrir þrítugt og þeir sem taka „hina lestina“ upplifa sig auðveldlega utangátta og fá yfir sig spurningar og vangaveltur um hvenær þeir ætli nú að taka sig taki og stökkva um borð í hina einu réttu lest. Þannig finnur ungt fólk fyrir mikilli pressu að komast í rétta skólann, standa sig vel, og þá aðallega í samanburði við aðra. Kvíði og andlegir erfiðleikar hafa margfaldast og spurning hvort við séum að horfa upp á kynslóð af brothættum, viðkvæmum einstaklingum sem telja sig aldrei vera nógu góðir þrátt fyrir að aldrei fleiri mennta sig en í dag!

Ég hef verið óþreytandi að tala fyrir því að fólk fái tækifæri til að mennta sig eða bæta stöðu sína á annan hátt, ævina á enda. Það er ekki bara mikilvægt fyrir einstaklinginn, það er líka þjóðhagslega hagkvæmt. Nám snýst ekki bara um eitt lokamarkmið, að ná sér í prófskírteini, það snýst ekkert síður um að efla þrautseigjuna, tileinka sér ný vinnubrögð, efla sjálfstæði, sjálfsþekkingu og sjálfstraust og kynnast öðru fólki. Á við bæði ytri og innri þættir – og ekkert síður mikilvægt það sem gerist innra með manni á þessu ferðalagi.

Ef einstaklingur hefur ekki búið yfir innri né ytri hvatningu og jafnvel skort stuðning til náms á unglingsárum ber okkur þá ekki skylda til að aðstoða viðkomandi þegar hann finnur að hann er tilbúinn að fara að mennta sig – sama á hvaða aldri það er?

Ég vil að við fögnum þeim sem blómstra í lífinu, sama hvort það er vegna menntunar eða annarra þátta sem viðkomandi einstaklingur telur mikilvægt fyrir sig í þeirri viðleitni að auka sjálfstraustið og þar með að bæta lífsgæði sín heilt yfir. Spurði son minn sem var að útskrifast með láði á dögunum, hverju hann þakkaði árangurinn. Fékk leyfi til að birta svarið hans sem ég læt verða lokaorðin í þessum pistli: Hef lesið að krakkar með adhd og strákar eiga oft voða erfitt með að læra ef þeir sjá ekki tilganginn eða notagildið í því. "Alltaf að læra helvítis dönsku og stærðfræði sem ég nota aldrei" og þessháttar hugsun. Núna skilur maður meira tilganginn í því og sér að þetta snýst meira um undirbúning fyrir háskóla og framtíðina. Þegar ég fattaði það varð þetta mun auðveldara því hugsunarhátturinn breyttist svo mikið því þetta var allt í einu orðið eitthvað gagnlegt frekar en eitthvað sem maður neyddist til að gera“!

Mæli með bókinni Late Bloomers eftir Rich Karlgaard.

Kærleikskveðja frá mér,

Anna Lóa

Mynd: shutterstock.com