Metnaður eða fullkomnunarárátta!!

Við gætum átt það til að rugla saman fullkomnunaráráttu og metnaði. Sá sem er metnaðarfullur fylgir markmiðum sínum og áttar sig á því að hann á eflaust eftir að gera mistök á leiðinni. Sá sem er með fullkomnunaráráttu gefur ekki rými fyrir mistök, setur sér oftar en ekki óraunhæf markmið og upplifir skömm þegar hann nær þeim ekki. Sá metnaðarfulli veit hvert hann er að fara en sá sem er með fullkomnunaráráttu býr við óöryggi og er því alltaf að gera hluti sem hann telur vera samþykkta af öðrum og með því að gera þá óaðfinnanlega vonast hann eftir meiri viðurkenningu. Sá metnaðarfulli fer fyrst og fremst áfram á innri hvata á meðan sá sem er haldinn fullkomnunaráráttu þarfnast viðurkenningar og samþykkis frá umhverfinu. Auðvita sveiflumst við oft þarna á milli en ágætt að minna sjálfan sig á að fullkomnun er eitthvað sem við náum aldrei sem manneskjur og því vanmáttur og vonleysi sem fylgir því að vera alltaf að upplifa mistök. Það getur verið ágætt að átta sig á því hvar maður er sjálfur staddur þegar fullkomnunaráráttan en annars vegar, með því að skoða hvernig samskiptum okkar við aðra er háttað. Ef við erum sjálf mjög upptekin af því hver við erum, hvað öðrum gæti þótt um okkur og hvort hlutirnir séu ekki örugglega 100% í lagi - erum við að senda þau skilaboð áfram til barnanna okkar og samferðarmanna í lífinu. Þar með erum við að kenna börnunum okkar að þau ættu að vera upptekin af því hvað öðrum finnst og jafnvel að taka álit annarra fram yfir sínar eigin tilfinningar eða langanir.  Hugsaðu þér að einhver sem þú elskar labba inn í aðstæður sem þú ert staddur í. Gæti verið barnið þitt, maki, vinur eða fjölskyldumeðlimur. Hver eru viðbrögð þín - lætur þú krumpaðar buxur, óburstað hár eða mislita sokka fara í taugarnar á þér og horfir á viðkomandi með augnaráðinu sem fyllir viðkomandi af skömm eða sýnir þú svipbrigði sem eru full af kærleika og gleði yfir að sjá viðkomandi? Stundum teljum við að hluti af kærleika okkar sé einmitt að benda á hluti sem eru ekki í lagi en á svona stundum væri nær að sýna með svipbrigðum hvað býr raun í hjarta þínu og takast á við uppeldið síðar. Ósjálfráð viðbrögð eins og augnaráð sem lýsir vanþóknun t.d á klæðaburði segir svo mikið. Það sem viðkomandi sér á svipbrigðunum er; hvað gerði ég núna rangt! Skilaboðin sem barnið tekur með sér; ég verð að vera fullkomin til að upplifa kærleika. Fólkið mitt þarf ekki að vera fullkomið til að ég elski það - ekkert frekar en ég. En til þess að geta sýnt kærleika í hugsun og verki verðum við að byrja á okkur sjálfum en ekki að reyna að breyta öðrum til að sjá svo hvort þeir séu þess virði að elska. Það þýðir að við verðum að vera nógu sterk til að vera við sjálf í öllum okkar ófullkomleika, en þá fyrst fer okkur að líða vel og markmið okkar um betra líf verða raunhæf og líkurnar á að við náum þeim, aukast! Í mínum huga er þetta eitt erfiðasta verkefnið í lífi mínu - að leyfa mér að vera ég sjálf með kostum mínum og göllum en ekki eins og lauf í vindi sem fýkur til og frá eftir því hvað öðrum finnst. Það er þessi togstreita að vilja vera frjáls undan áliti annarra á sama tíma og maður vill tilheyra öðrum. Held áfram að minna mig á þetta - hvet þig til að gera slíkt hið sama! Kærleikskveðja Anna Lóa