Meðvirkni III hluti

Stundum erum við að bíða eftir hamingjunni í lífi okkar í stað þess að taka sjálf ábyrgð á því að gera það tilgangsríkara og merkingarbærara. Ástin er yndisleg og ekki verið að vanmeta hana hér en til að geta notið hennar til fulls verðum við að muna að byrja á því að elska okkur sjálf.

Eitt af einkennum meðvirkni er sú tilhneiging að vænta þess að einhver einn atburður færi okkur hamingjuna. Ástæðan getur oft tengst því að í stað þess að þroska með sér heilbrigðar væntingar til lífsins erum við föst barnatrúnni um að galdurinn fyrir okkur konur sé að bíða eftir þeim eina rétta og fyrir karlinn snúist þetta um endalausa leit að hinni einu réttu. Þegar þroskinn er eðlilegur, vex barnið upp úr sögulegu gildi þessara sagna og meðtekur táknrænt gildi þeirra í stað þess að vonast eftir töfralausn til að geta orðið hamingjusöm/-samur upp frá því.

Þeir sem eru meðvirkir laðast oft að spennandi fólki annars vegar og hins vegar fólki sem þarfnast þeirra. Ástæðan er skert sjálfsmat og þannig finnst þeim eftirsóknavert að umgangast þá sem mikið ber á eða þá sem þarfnast þeirra mikið. Sá meðvirki reynir að breyta sér í þá manneskju sem það telur að hinn aðilinn vilji og gerir þau mistök að fara frá þeirri persónu sem hinn aðilinn varð ástfanginn af í aðra persónu sem hinn aðilinn kærir sig ekki um. Bæði þessi sambönd eru dæmd til að mistakast ef ekki er gripið í taumana og unnið að því að styrkja sjálfan sig og finna út hvert er besta eintakið af ,,mér“ Þá þurfum við að vera tilbúin að skoða okkar sanna sjálf - fyrir hvað við stöndum og hvert er kjarnasjálfið? Manneskja sem þekkir ekki eigin tilfinningar og sjálf getur ekki bundist öðrum tilfinningasambandi.

Þetta snýst um að þekkja sjálfan sig, grunnþarfir sínar og félagsleg tengsl. Við þurfum að vera tilbúin að skoða hvernig maður sér fyrir sér heilbrigð samskipti. Til að læra að lifa og elska þarf að vera jafnvægi til staðar. Við þurfum að læra að lifa á sama tíma og við leyfum okkur að elska; læra að elska án þess að glata ástinni á okkur sjálfum. Snýst ekki síður um þá þörf okkar að tilheyra öðrum án þess að týna sjálfum sér.

Leiðin út úr meðvirkni er lífstíðarverkefni og ekki eins hjá neinum. Lífið er vinna, og því meira sem við leggjum í þá vinnu má vænta betri uppskeru. Fyrsta skrefið er alltaf að átta sig á því að maður vill breyta einhverju og auka þar með lífsgæði sín.
Mikilvægast af öllu er líklega að taka um stýrið á lífi okkar og ákveða hvert við viljum fara. Til þess að slíkt takist þurfum við að þekkja okkur sjálf, styrkleika okkar, langanir og drauma. Sjálfstyrking er mikilvæg í þessu ferli og þar sem við sitjum uppi með okkur sjálf alla ævi þá skiptir svo miklu máli að við trúum því að við eigum allt það besta skilið á sama hátt og aðrir. Þegar við erum í skökkum tengslum er hætta á að annað hvort finnist okkur við eiga allt skilið eða bara alls ekki neitt gott skilið og lítum á okkur sem fórnarlömb.

Við eigum þetta eina líf og því mikilvægt að við lifum því eins vel og við getum. Með því að staldra við og skoða hvað það er sem við getum gert betur og styrkja okkur sjálf í framhaldi af því, erum við kannski að taka fyrsta skrefið en jafnframt það mikilvægasta í átt að betra lífi - viðurkenna að mikilvægasta sambandið í lífinu er við okkur sjálf!

Þetta var síðasti hlutinn um meðvirkni í bili.

Gangi þér vel!
Anna Lóa

Mynd: Shutterstock.com