Meðvirkni II. hluti

Aftenging
- Felst ekki í að losa sig frá manneskjunni sem okkur þykir vænt um, heldur frá angistinni sem felst í aðild að málum hennar“. AlAnon félagi (Beattie, Melody, 1993, bls. 54).

Það skiptir miklu máli áður en öll önnur vinna hefst að aftengja okkur frá því sem þráhyggja okkar beinist að. Við getum ekki byrjað að vinna með okkur sjálf eða taka stjórn á eigin lífi og takast á við eigin tilfinningar fyrr en við stígum þetta skref. Sá meðvirki lifir gjarnan lífi sínu í gegnum aðra og lætur tilfinningar og vandamál fólksins í kringum sig stýra för á sama tíma og hann reynir að gera sig ómissandi. Hann tengist fólki mjög náið, og verður jafnvel tilfinningalega háður því en aftengist sjálfum sér í leiðinni. Stundum verður sá meðvirki heltekin af öðru fólki og vandamálum en á sama tíma algjörlega ómeðvitaður um eigin líðan og tilfinningar.

Myndlíkingin að setja súrefnisgrímuna á sjálfan sig fyrst og þá er nóg eftir handa öðrum, á vel við hér. Sá meðvirki tæmir súrefnisbyrgðir sínar með því að vera fastur í þráhyggju sinni gangvart öðru fólki og á að lokum ekkert eftir handa sér eða öðrum. Þetta er oft gert undir þeim formerkjum að hann elski manneskjuna svo mikið að það sé óhjákvæmilegt annað en að vera ofurtengdur henni og sveiflast með líðan og lífi hennar. Á sama tíma er sá meðvirki ómeðvitaður um hvert hann er sjálfur að fara og hvað það er sem hann vill út úr lífinu.

Það er mikilvægt að sá meðvirki átti sig á því að aftenging er ekki að loka á annað fólk á kuldalegan eða fjandsamlegan hátt eða að hunsa öll vandamál og fara í gegnum lífið á einhvern vélrænan hátt. Aftenging á ekkert skylt við að vanrækja sambönd eða að skrúfa fyrir ástina eða umhyggjuna í brjóstum okkar.Aftenging byggir á því að hver og einn beri ábyrgð á sjálfum sér og þrátt fyrir góðan ásetning þá getum við ekki leyst vandamál sem er ekki okkar að leysa. Sá meðvirki þarf að snúa sér að því að taka ábyrgð á eigin lífi og leyfa öðru fólki að takast á við eigin vanda og áhyggjur.

Það skiptir miklu á þroskabraut hvers og eins að læra að treysta. Við þurfum að treysta öðrum fyrir sjálfum sér og sínum vanda. Með því að treysta heiminum getum við lært að treysta okkur sjálfum og þar með aukið trú okkar á eigin mætti, skilning, tilfinningum og þrám.

Enginn er ómissandi og ef hann velur að vera í ástarsambandi eða öðrum samskiptum við fólk þá ætti það að vera undir þeim formerkjum að báðir aðilar njóta góðs af. Það þurfa ekki að vera nein önnur haldbær rök fyrir samskiptunum önnur en að þér líkar þau og vilt þess vegna halda þeim áfram. Við höfum alltaf val og það ber okkur að nota viljum við auka á hamingju okkar og lífsgæði.

Meira síðar!
Anna Lóa

Mynd: shutterstock.com