Meðvirkni

Átti gott spjall við vin um daginn og hann segir sem svo: Anna Lóa, af hverju heldur þú að fólk velji sig aftur og aftur inn í svipaðar aðstæður í lífinu þrátt fyrir að vita betur! Ég svaraði: meðvirkni - þú velur þig oftar en ekki inn í þær aðstæður sem þú þekkir - sem eru þér kunnuglegar því það er svo ógnvekjandi að stíga út fyrir og reyna eitthvað alveg nýtt!! Vanabundin hegðun hefur afleiðingar!!

Ég ætla að birta hér aftur verkefni sem ég vann í fyrra og fjallar um meðvirkni. Fann að það voru margir sem nýttu sér þessar greinar mínar um meðvirkni þegar ég birti þær á sínum tíma og sjálf þarf ég að minna mig reglulega á, en hér kemur 1. hluti:

Meðvirkni: Þegar ég kynntist honum hafði ég ekki hugmynd um hvað alkóhólismi var. Þegar hann var dáinn var ég orðin sérfræðingur bæði í sjúkdómnum og ekki síst manninum sem persónu. Á meðan ég var að ,,doktorera“ í honum gleymdi ég sjálfri mér. Ég lagði mínar þarfir til hliðar og vissi ekki lengur hverjar þær voru. Ég stóð því líka uppi allslaus (Hlín Agnarsdóttir, 2003, Að láta lífið rætast bls.1).

Meðvirkni er eyðileggjandi afl í samfélaginu og snertir á einhvern hátt nánast hverja einustu fjölskyldu á Íslandi. Afleiðingar vegna meðvirkni eru dýrar fyrir samfélagið í heild sinni svo ekki sé minnst á allan þann fjölda einstaklinga sem kvelst á degi hverjum. Þar sem meðvirkni snýst að miklu leyti um brotna sjálfsmynd einstaklingsins er mikilvægt fyrir þá sem vilja vinna að lausn á vandanum að byrja á grunninum, þ.e. bæta sjálfsmyndina.

Einstaklingur sem elst upp við erfiðar aðstæður þróar yfirleitt með sér meðvirkni. Aðstæðurnar geta verið margvíslegar og þrátt fyrir að flestir tengi hugtakið við afleiðingar fyrir aðstandendur fíkla þá er um mun víðtækari aðstæður að ræða. Veikindi á heimilum, félagslegir erfiðleikar og óþroskaðir, vanvirkir eða skapstórir foreldrar eru allt aðstæður sem geta ýtt undir ójafnvægi sem leiðir til meðvirkni.

Það má líklega segja að það sé aðeins búið að gjaldfella hugtakið meðvirkni þar sem fólk talar frjálslega um það og ekki allir sem gera sér grein fyrir hvar mörkin liggja milli góðmennsku annars vegar og meðvirkni hins vegar. Þá tengir fólk oft meðvirkni eingöngu við aðstandendur alkóhólista sem getur ekki sett mörk eða staðið við reglur og lætur allt og alla þar með vaða yfir sig. Meðvirkni nær yfir mun víðtækari hegðun og skilgreiningar æði margar svo er erfitt að segja til um hvort einhverjum hafi tekist að koma með þá einu réttu.

Melody Beattie sem hefur skrifað mikið um þetta málefni fannst skipta máli að skilgreina meðvirkni á stuttan og skiljanlegan hátt. Hennar skilgreining hljómar svona: Meðvirk er sú manneskja sem hefur látið hegðun annarrar manneskju hafa áhrif á sig og er jafnframt heltekin af því að stjórna hegðun hennar (Beattie, Melody, 1993, Alrei aftur meðvirkni).

Melody telur jafnframt að meðvirkni sé eitthvað sem hafi alltaf fylgt manninum og alveg frá fyrstu tíð hafi fólk verið undirlagt af áhyggjum af öðrum. Þannig hafi maðurinn reynt að veita aðstoð sem dugði ekki og sagt já þegar hann meinti nei og tekið heljarstökk aftur á bak til að forðast að særa tilfinningar.
Í bók sinni, Heimkoman, skilgreinir einn fremsti fíknisérfræðingur heims, John Bradshaw, meðvirkni sem sjúkdóm þar sem sá veiki sé ekki í tengslum við eigin tilfinningar og sjálf (Bradshaw, John, 1990, Heimkoman).

Meðvirkni er vanabundið hugsana-, tilfinninga- og hegðunarferli sem beinist að okkur sjálfum og öðrum; ferli sem getur valdið okkur sjálfum og öðrum sársauka. Hegðunin eða vanamynstur tengd henni eru sjálfseyðileggjandi og með því að bregðast við fólki sem er að eyðileggja sjálft sig er sá meðvirki að læra að eyðileggja sjálfan sig.

Það mikilvægt að leggja á það áherslu á að flestir tileinkuð sér þessa hegðun til þess að vernda sjálfan sig og koma til móts við eigin þarfir sem þýðir ekki að viðkomandi sé slæmur, gallaður eða minna virði en aðrir.

Mæli með bókinni hennar Melody Beattie, Codependents guide to the twelve steps.

Meira um þetta síðar!
Kærleikskveðja,

Anna Lóa

Mynd: Shutterstock.com