Meðvirkni

Meðvirkni er eyðileggjandi afl í samfélaginu og snertir á einhvern hátt nánast hverja einustu fjölskyldu á Íslandi. Afleiðingar vegna meðvirkni eru dýrar fyrir samfélagið í heild sinni svo ekki sé minnst á allan þann fjölda einstaklinga sem kvelst á degi hverjum. Þar sem meðvirkni snýst að miklu leyti um brotna sjálfsmynd einstaklingsins er mikilvægt fyrir þá sem vilja vinna að lausn á vandanum að byrja á grunninum, þ.e. bæta sjálfsmyndina. Einstaklingur sem elst upp við erfiðar aðstæður þróar yfirleitt með sér meðvirkni. Aðstæðurnar geta verið margvíslegar og þrátt fyrir að flestir tengi hugtakið við afleiðingar fyrir aðstandendur fíkla þá er um mun víðtækari aðstæður að ræða. Veikindi á heimilum, félagslegir erfiðleikar og óþroskaðir, vanvirkir eða skapstórir foreldrar eru allt aðstæður sem geta ýtt undir ójafnvægi sem leiðir til meðvirkni. Skilgreiningar á meðvirkni eru æði margar svo er erfitt að segja til um hvort einhverjum hafi tekist að koma með þá einu réttu. Melody Beattie sem hefur skrifað mikið um þetta málefni fannst skipta máli að skilgreina meðvirkni á stuttan og skiljanlegan hátt. Hennar skilgreining hljómar svona: Meðvirk er sú manneskja sem hefur látið hegðun annarrar manneskju hafa áhrif á sig og er jafnframt heltekin af því að stjórna hegðun hennar. Man þegar ég tók stórt skref í átt til heilbrigðari samskipta almennt en það var þegar ég áttaði mig á því hvernig ég lét hegðun annarra hafa áhrif á mig. Í stað þess að halda í sjálfa mig þá átti ég það til að láta aðra hafa mikil áhrif á líðan mína sem þýddi auðvita að ég gat sveiflast eftir því hvað var í gangi hjá öðrum. Þegar maður er alltaf að bregðast við öðru fólki sem er jafnvel á vondum stað er maður sjálfur smám saman að eyðileggja sig. Það er engin góðmennska að týna sjálfum sér á sama tíma og maður verður heltekin af vanda og líðan annarra. Þegar maður hefur áttað sig á því að hegðun einhvers er að hafa mjög slæm áhrif á mann sjálfan skiptir máli að aftengja sig frá því sem þráhyggjan beinist að. Við getum ekki byrjað að vinna með okkur sjálf eða taka stjórn á eigin lífi og takast á við eigin tilfinningar fyrr en við stígum þetta skref. Þegar verið er að tala um að aftengja að þá er ekki verið að gefa í skyn að maður eigi að loka á annað fólk á kuldalegan eða fjandsamlegan hátt eða að hunsa öll vandamál og fara í gegnum lífið á einhvern vélrænan hátt. Aftenging á ekkert skylt við að vanrækja sambönd eða að skrúfa fyrir ástina eða umhyggjuna í brjóstum okkar. Aftenging byggir á því að hver og einn beri ábyrgð á sjálfum sér og þrátt fyrir góðan ásetning þá getum við ekki leyst vandamál sem er ekki okkar að leysa. Það á við okkur öll að við þurfum að taka ábyrgð á eigin lífi og leyfa öðru fólki að takast á við eigin vanda og áhyggjur og það er ekki alltaf auðvelt. Grundvallar hugtakið þarna er traust – við þurfum að læra að treysta öðrum fyrir sjálfum sér og sínum vanda. Með því að treysta heiminum getum við lært að treysta okkur sjálfum og þar með aukið trú okkar á eigin mætti, skilning, tilfinningum og þrám. Stundum höldum við að ákveðin hegðun okkar hafi áhrif á þann sem hefur þessi áhrif á okkur og við reynum jafnvel að stjórna með þögn, augnaráði, leiðindum eða annarri hegðun sem er skilyrt á einhvern hátt. Ef ég haga mér svona hlýtur allt að breytast!! Til að læra að lifa og elska þarf að vera jafnvægi til staðar. Við þurfum að læra að lifa á sama tíma og við leyfum okkur að elska; læra að elska án þess að glata ástinni á okkur sjálfum, en við glötum ástinni á okkur sjálfum ef við setjum þarfir annarra alltaf framar okkar. Þetta snýst um að setja súrefnisgrímuna á sjálfan sig fyrst – finna fyrir hvað maður stendur, já finna mátt sinn og megin en sveiflast ekki eins og lauf í vindi eftir því hvernig öðrum líður. Manneskja sem þekkir ekki eigin tilfinningar og sjálf getur ekki bundist öðrum tilfinningasambandi. Breytingarnar byrja með okkar eigin meðvitund. Meira um þetta síðar! Kærleikskveðja Anna Lóa