-May you always do for others and let others do for you -
Mikill sannleikur í fyrirsögninni og mikilvægt að muna að það er jafn mikilvægt að þiggja hjálp eins og að gefa hana. Í gegnum tíðina hef ég svo oft hitt fólk sem hefur gert sig ómissandi í lífi annarra en biður ekki um neitt fyrir sig. Við búum í samfélagi sem leggur ofur áherslu á dugnað og styrk og þegar fólk fer í gegnum erfiða tíma erum við gjörn á að segja; þú ert svo sterk/-ur – þú ert svo dugleg/-ur – þegar fólk er að reyna að lifa af. Þegar við erum að fara í gegnum mjög erfið tímabil þurfum við stundum að bíða með að takast á við tilfinningaþáttinn – höfum hvorki tíma né burði til þess á meðan við erum á bólakafi í aðstæðunum, en svo kemur að því að við verðum að takast á við það sem við höfum verið að fara í gegnum.
En þar sem samfélagið leggur svona mikla áherslu á dugnað og styrk þá gæti sá sem er að fara í gegnum erfiða tíma og er alltaf að fá að heyra hversu duglegur og sterkur hann er, talið að það sé jú bara alveg málið. Leyfir sér ekki að finna til og tekur þetta á hnefanum því viðkomandi heyrði; þú átt að vera sterku og duglegur og það er veikleiki að sýna vanmátt og vonleysi. Persónulega kannast ég svo vel við það – ráðgjafinn sjálfur með svör við öllu þurfti ekki ráðgjöf……..eða þannig sko :-)
En ef ég vil vera manneskja sem sýnir auðmýkt og viðurkenni að allar tilfinningar eiga rétt á sér þá verð ég líka að viðurkenna að það er styrkleiki að leita sér hjálpar. Stundum er hjálpin fólgin í að normalisera hvernig okkur líður eða fá lánaða dómgreind, stundum er hún hvatning og stundum er hún vonarberi á erfiðum tíma þar sem hvert einasta skref er eins og það sé blý í skónum. Svo gerist bara ýmislegt þegar samtalið á sér stað og við áttum okkur betur á því hvar við erum stödd og að við séum bara í lagi. Þegar við dæmum okkur fyrir að leita okkur hjálpar erum við að dæma alla þá sem leita sér hjálpar. Þega við gildismetum aðstoðina; þ.e ef þú ert svona eða hinsegin þá leitarðu þér hjálpar en þeir sem eru með allt á hreinu gera það ekki, erum við í raun að gildisfella okkur sjálf. Gildismatið er yfirleitt sprottið af þeirri viðurkenningu sem við höfum fengið sem „hjálparar“ og ef maður fer að skilgreina sig út frá því er maður ekki á góðum stað.
Að vera góður við sig!
Að hafa það mikla samhyggð með sjálfum sér að maður hefur kjark til að leita sér hjálpar er jafn mikilvægt og að veita öðrum hjálp. Ef við byggjum sjálfsvirðingu okkar á því hversu dugleg við erum að fara í gegnum lífið án þess að deila með öðrum hvernig okkur líður eru miklar líkur á því að við upplifum það sem veikleika að „þurfa“ að leita okkur hjálpar. Við heyrum gjarnan úti í samfélaginu að við viljum fólk við stjórnvölinn/í leiðtogahlutverkin, sem láti hjartað ráða för og sýni meira mennskuna. Þegar svo einstaklingar sýna mennskuna sína gæti okkur þótt það óþægilegt og viljum frekar þá sem kunna hlutverkið sitt upp á 10. Þetta eru vond skilaboð – því það er enginn með hlutverkið sitt upp á 10. Fögnum mennskunni – já hvetjum til meiri mennsku!
Tengslin í samfélaginu!
Persónulega treysti ég fólki betur sem þykist ekki vera með öll svörin. Ég treysti fólki betur sem er tilbúið að viðurkenna mennskuna sína og er ekki fast í viðmiðum við aðra. Langbestu kennarar mínir í gegnum tíðina eru einmitt þeir sem leyfðu sér að setja mennskuna sína í fagið – sem er þá væntanlega fagmennska. Sannleikurinn er sá að við þurfum á hvort öðru að halda og við þurfum að vera tilbúin til að gefa og þiggja til þess að vera heilbrigð í okkur og til að koma á heilbrigðum tengslum. Ég hef áhyggjur af tengslaleysi í samfélaginu – en við þurfum að muna að hvorki peningar, völd né metnaður koma í staðinn fyrir tilfinningalega, líkamlega og andlega þörf okkar fyrir tengsl. Við þurfum að vara okkur á þeirri mýtu að einungis veiklundaðir þarfnist hjálpar – því það koma tímabil í lífi okkar allra þar sem tengsl/samtal/aðstoð/hjálp getur reynst okkur algjörlega lífsnauðsynlegt!
-May you always do for others and let others do for you - Bob Dylan.
Kærleikskveðja,
Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com