Maðurinn einn er ei nema hálfur!

,,Veistu Anna Lóa - held að það borgi sig bara að ég sé einn, klúðra alltaf öllum samböndum!!“

Hafði heyrt þetta áður - og gott ef ég hef ekki sagt svona hluti sjálf. En staðreyndin er þó bara sú að við lærum svo mikið á lífið og okkur sjálf í samskiptum og það þrátt fyrir tímabil þar sem maður telur sér best komið í kofa uppi á fjöllum, fjarri öllu sem hefur með mannleg samskipti að gera.

Samskipti geta verið flókin og því skiptir máli að vera tilbúin að skoða sjálfan sig þegar kemur að þeim. Þrátt fyrir að vera náin annarri manneskju erum við komin á hættulegan stað þegar við erum farin að lifa lífi okkar í gegnum aðra. Það er vísbending um meðvirkni þegar við erum farin að tengjast fólki svo innilega og náið að við aftengjumst okkur sjálfum. Það er meðvirkni þegar við erum uppteknari af líðan og vandamálum annarra en okkar eigin og þegar við erum hætt að átta okkur á hvenær við erum hreinlega vond við okkur sjálf til þess að gera öðrum til hæfis.

 ,,Já en ég elskan hann svo mikið“ en á sama tíma tæmir viðkomandi súrefnistankinn hjá sjálfum sér og setur samansem merki á milli þessa að gera sig svo tilfinningalega háðan annarri manneskju að það stjórni orðið eigin líðan. Stundum teljum við að með því að gera hitt eða þetta þá breytis sá sem við erum í samskiptum við, já breytist á þann hátt sem hentar okkur. Þá gleymum við algjörlega að það er undir okkur sjálfum komið að bera ábyrgð á eigin lífi sem þýðir að við þurfum líka að leyfa öðrum að takast á við eigin vanda. Við þurfum nefnilega að læra að treysta - sem þýðir að treysta öðrum fyrir sjálfum sér og sínum vanda. Við þurfum að setja súrefnisgrímuna á okkur sjálf - en getum ekki bjargað heiminum. Þegar við förum að treysta öðrum fyrir sjálfum sér aukum við líkurnar á því að við förum að treysta okkur sjálfum og þá gerist margt jákvætt. Við aukum trúna á eigin mætti, tilfinningum og þrám og áttum okkur smám saman á því að við breytum engum nema okkur sjálfum. Smám saman áttum við okkur á því að enginn er ómissandi og þurfum sjálf að velja samskipti við fólk þar sem báðir aðilar njóta góðs af. Það þurfa ekki að vera nein önnur haldbær rök fyrir samskiptunum en að okkur líkar þau og viljum þess vegna halda þeim áfram.

Sá meðvirki velur sig gjarnan inn í tvennskonar sambönd; annars vegar þar sem hinn aðilinn þarfnast þess að vera bjargað (út frá greiningarviðmiðum þess meðvirka), og ef það er ekki út frá einskærum björgunarvilja, þá þarf allavega að vera mikil spenna til staðar - hversdagsleikinn og venjubundið líferni er aðeins of mikið af því góða. Ástæðan er skert sjálfsmat en í framhaldinu reynir sá meðvirki að breyta sér í þá manneskju sem hann telur að hinn aðilinn vilji eða reynir að breyta hinum í þá manneskju sem hentar honum/henni. Það þarf auðvita ekki að taka það fram að skilyrðingin að baki þessu er gerð í ljósi þess að um kærleika sé að ræða. Bæði þessi sambönd eru dæmd til að mistakast ef ekki er gripið í taumana og unnið að uppbyggingu.

Það er undir okkur sjálfum komið að skoða hvaða sambönd eru að draga úr okkur lífsþróttinn og hvaða samböndum fylgja góðar tilfinningar og aukinn kraftur! Það munu allir hafa skoðun á því hvernig við erum og erfitt að festast í þeim vef að reyna að þóknast allt og öllum. Þannig er maður ofurseldur áliti annarra, eigin hugsunum og tilfinningum og finnst maður aldrei gera nógu vel. Breytingar byrja með okkar eigin meðvitund !!

Við eigum þetta eina líf og því mikilvægt að við lifum því eins vel og við getum. Með því að staldra við og skoða hvað það er sem við getum gert betur og styrkja okkur sjálf í framhaldi af því, erum við kannski að taka fyrsta skrefið en jafnframt það mikilvægasta í átt að betra lífi - viðurkenna að mikilvægasta sambandið í lífinu er við okkur sjálf!

,,Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meira en hann sjálfur“ (Einar Benediktsson).

Kærleikskveðja

 Anna Lóa