Má bjóða þér betra líf!!!
Ég er upptekin af því þessa dagana hvernig ég tek gagnrýni. Auðvita skiptir það máli hvernig hún er sett fram en það skiptir máli fyrir okkur að geta rýnt til gagns eins og það er mikilvægt að geta baðað sig í hrósi. En þegar maður fær gagnrýni sem maður tekur nærri sér er mikilvægt að skoða hvaða hugsun fer af stað. Ef við búum við þá tilfinningu að við séum á einhvern hátt að halda aftur af okkur vegna þess að við höfum fengið gagnrýni þá þurfum við að skoða hvort við séum að spegla okkur í gagnrýninni og sjá hana sem stóra sannleikan um okkur, sem manneskjur. Gagnrýni getur verið ómetanleg og gert það að verkum að við vöxum meira inn í að vera betra eintak af okkur sjálfum í stað þess að loka á hluta af okkur sjálfum.
Ef ég loka á hluta af mér þegar einhver gerir athugasemd eða gagnrýnir mig, á ég á hættu að leyfa öðrum að ákvarða algjörlega hvað mér finnst um mig. Í stað þess að það eigi sér stað lærdómur – loka ég. Umhverfið finnur hvar við erum – það speglar hvað það kemst langt og sá sem lítur út fyrir að leyfa umhverfinu að ráða, missir vald sitt til umhverfisins. Það er í raun mjög auðvelt að ,,þagga“ niður í fólki og okkar að ákveða hvort við leyfum því að gerast.
Flesta höfum við farið í gegnum tíma í lífi okkar þar sem sjálfið var sært, sjálfstraustið lítið og tilveran erfið. Þessar tilfinningar eru þarna einhversstaðar og spretta upp sjálfkrafa í ákveðnum aðstæðum og okkar að skoða í hvernig aðstæðum við ,,lokum“ á okkur. Ef við eigum mjög erfitt með gagnrýni þá getum við orðið háð hrósi – fundist lítið til okkar koma nema umhverfið bregðist við. Það getur endað í meðvirkni þannig að maður hættir að vera sjálfvirkur og gerir ekkert nema maður sér öruggur að fá hrós eða passar að maður sé ekki að rugga bátnum. Hef allt of oft verið á þeim stað og bitið saman jöxlunum yfir því að taka ekki af skarið og gera það sem mig langar til að gera. Af hverju stóð ég ekki með mér – jú óttinn, gamli góði óttinn. Þurfum að vera tilbúin að skoða hvaðan óttinn kemur – því fyrr hættir hann ekki að stjórna okkur.
Óttinn er grunnurinn að svo mörgum múrum sem við komum okkur upp. Ótti við að vera ekki vel liðin. Ótti við að taka rangar ákvarðanir. Ótti við að draga að sér neikvæða athygli. Ótti við að ætla að færast of mikið í fang. Ótti við dóma annarra. Ótti við að mistakast. Ótti við að vera hafnað – og svo mætti lengi telja.
Ef við viljum ná lengra í lífinu – hvernig svo sem við skilgreinum ,,lengra“ er mikilvægt að átta sig á því að við verðum að taka áhættu, velja vöxt og ögra okkur sjálfum. Alveg sama hvort það er í tengslum við samskipti, starfsframann eða uppeldi barnanna okkar. Ef við höfum sjálf þá tilfinningu að við höfum engin völd yfir því hvernig líf okkar er – þá erum við um leið að fórna eigin völdum.
Við eigum ekki að bíða eftir því að okkur verði boðin betri staður í lífinu. Við eigum að sækja fram sjálf og vera meðvituð um að gagnrýni er eitthvað sem við þurfum að taka sem hluta af vextinum í stað þess að hægja á honum eða stoppa algjörlega.
Gangi ykkur vel – þurfti að minna mig á þetta og vona að einhver annar þarna úti geti nýtt sér eitthvað sem ég setti hér fram.
Kærleikskveðja
Anna Lóa