Loksins ég fann þig!

Kannski að þetta sé bara sú eina rétta!  
Ég átti ekki von á þessu frá honum, hélt að þetta væri eitthvað sem við konur (sumar, og ég er ein a þeim) fantaseruðum um á ákveðnum ,,bíómyndafyllerístímabilum“ í lífi okkar þar sem konan er frelsuð af hinum eina sanna prinsi á hvíta hestinum, já henni er gjörsamlega svipt burtu úr hversdagslegri grámyglu og leiðindum. Svo vöknum við flestar upp og áttum okkur á því að enginn bjargar okkur frá okkur sjálfum nema við sjálfar. Ég dembdi þessu á hann, sagðist ekki hafa trú á því að þarna úti sé ,,sú eina rétta“ fyrir hann  eða  ,,sá eini rétti“ fyrir mig.  Held þvert á móti að við getum þroskast með einni og sömu manneskjunni í gegnum lífið eða farið í gegnum nokkra félaga til að þroskast á jákvæðan hátt í sambandi, já eða bara þroskast ljómandi vel svona ein og sér. Ertu alltaf eiiiiiiiiin!! Í alvöru - ertu að spyrja mig að þessu en ekkert um hvort námið gangi vel eða hvernig synir mínir hafa það? Móðir mín heitin var orðin þreytt á því að þegar innt var eftir fréttum af börnunum hennar fimm var iðulega spurt um eitthvað vinnu- og fjölskyldutengt nema þegar það kom að mér. Þá breyttist röddin og með svona leiðinda semingi var spurt: og hvað er svo að frétta af Önnu Lóu, er hún alltaf eiiiiiiiiiiiin!!!! Já, svona rétt eins og ég væri með ólæknandi sjúkdóm á meðan staðreyndin var að ég blómstraði á svo mörgum sviðum sem vakti ekki eins mikinn áhuga. Móðir mín var svo ótrúlega stolt af mörgu sem ég gerði og fannst þessi áhersla á  „karl eða ekki karl“ allt í senn fyndin og merkileg á tímum sjálfstæðis og jafnréttis. Undir það síðasta var hún farin að svara mjööööög ákveðin: já hún er ein, og HVAÐ með það - kannski er það bara það sem hún velur (smá vörn ok)!
Vonandi endist ÞETTA: En svo kynnist þú einhverjum og þá er það pressan – vonandi endist ÞETTA! Stundum ganga sambönd ekki þrátt fyrir kærleika og góðan ásetning í byrjun. Það fylgir því áhætta að opna hjarta sitt og hleypa annarri manneskju inn í líf sitt, en þó að sambandið sé stutt er ekki þar með sagt að það hafi verið mistök. Þú lærir og tekur með þér lærdóminn út í lífið og þrátt fyrir tár og tómleika í hjarta þá ertu reynslunni ríkari sem mun nýtast á einhvern hátt.  Sambandið endist meðan það endist og engin ein rétt tímasetning hvað þetta varðar.  Æ æ æ gekk‘etta‘ekki  í ÞETTA skiptið, er klárlega ekki það sem þú vilt heyra. Í mínum huga eru gæði á sambandi ekki mæld í lengd þess heldur hver þú ert á meðan á sambandinu stendur.
Þú átt svo skilið að hitta einhvern!  eða ji, skrýtið að hún sé alltaf ein, virkar svo fín eitthvað,  hvað er eiginlega málið“. Ef þetta er sagt um aðra þá er þetta sagt um mig. Svona rétt eins og það sé búið að setja einhvern mælikvarða á fólk, sumir eiga skilið að hitta einhvern en svo eru það aðrir sem eiga skilið að enda einir eða í versta falli að enda með einhverjum drullusokknum eða herfunni! Ef þú ert lengi ein en ert svoldið góð og fín“ manneskja þá er auðvitað skýring á því. Þú ert; of vandlát, of stjórnsöm, of sjálfstæð, of fljótfær, of EITTHVAÐ! Já það er klárlega eitthvað AÐ hjá þér! Svona rétt eins og það hafi ekkert með það að gera hvort þú verður ástfangin eða ekki – eða að þú veljir kannski að vera einn eða ein!
Sagði vini mínum að ég samgleddist honum en útskýrði að ég væri orðin þreytt á því að vera sífellt minnt á það að þeir einhleypu væru ekki alveg normal og hamingjan væri fólgin í því að finna einu réttu manneskjuna. Það væri búið að normalisera pör og hjón þrátt fyrir að í dag vissum við betur. Njóttu þess að vera í sambandi og ekki hugsa of langt fram í tímann – þú ert þó alla vega með jólakærustu ef þetta gengur næstu vikurnar“.
Megir þú njóta lífsins með því fólki sem þú kýst að hafa nálægt þér hverju sinni. Ljós og friður.
Anna Lóa