Listin að elska - listin að lifa!

Kærleikurinn skiptir okkur máli í lífinu og heimspekingurinn Gunnar Dal gekk svo langt að segja ,,Að elska er að lifa“. Kærleikurinn kemur í mörgum litum og upplifum við hann flest á einhvern hátt einhvern tímann á lífsleiðinni. Þegar tvær manneskjur dragast að hvor annarri og úr verður ástarsamband er að mörgu að hyggja því þegar við förum inn í samband þá erum við að taka með okkur fortíðina og samskipti okkar við fjölskyldu og jafnvel fyrrverandi maka.

Til að geta gefið elsku til annarra þurfum við að læra að elska okkur sjálf fyrst. Sá sem líkar ekki við sjálfan sig leitar þá jafnvel í sambönd til að finnast hann vera elskuverður og vanmetur það mikilvæga atriði að jafningjasamband þar sem báðir aðilar gefa og þiggja eru heilbrigð sambönd sem flestir ættu að sækjast eftir.

Stundum veljum við okkur inn í sambönd til þess að upplifa okkur heil eða vegna þess að okkur hefur verið hafnað og þurfum á sambandi að halda til að finnast við vera elskuverð. Þá er hætta á að það halli á jafnvægið og við setjum hinn aðilann upp á stall og gleymum okkur sjálfum.  Þá er hætta á því að við verðum uppteknari af því hvort við erum elskuð í stað þess að skoða eigin huga gagnvart hinum aðilanum og gefa meiri elsku. Já, stundum erum við allt of upptekin af því að spegla bara í aðra áttina og þá stendur með stórum stöfum á enni okkar ,,ég vona að einhver velji mig“.

Ef við erum í vafa um eigin verðleika og kunnum ekki við eigin persónuleika lifum við í ótta um að elskandinn dæmi okkur af sama vægðarleysi og gagnrýni og við sjálf. Þegar við opnum hjarta okkar erum við að opinbera okkur sjálf og leggja undir dóm, bæði til hins betra og hins verra. Þegar við svo lærum að sætta okkur við ófullkomleika okkar, að við séum mannleg og elskuverð eins og við erum, erum við tilbúin til að leyfa annarri manneskju að kynnast okkur náið. Þá speglar umhverfið sig í þeirri manneskju sem gerir það að verkum að við drögum frekar að okkur þá sem eru tilbúnir að takast á við ófullkomleikann í allri sinni mynd.

Á sama tíma og við opnum hjarta okkar erum við að opna fyrir gamlar tilfinningar þar sem gömul særindi og ótti koma upp á yfirborðið og varnarmúrarnir okkar rísa upp á ógnarhraða. Varnarmúrar sem voru okkur einu sinni nauðsynlegir til að komast af gera lítið annað en að bægja burt þeirri viðurkenningu og trausti sem innileiki og ást felur í sér. Ef við tökum ekki niður varnarmúrana og afvopnum okkur förum við á mis við að vita hvort við erum ástar verð þrátt fyrir ófullkomleika okkar. Áhættan borgar sig alltaf og eykur líkur á innilegra sambandi og því mikilvægt  að spyrja sig: við hvað er ég svona hrædd/-ur? Hvað er það í fari mínu sem er svona ógeðfellt eða fráhrindandi? Oftast er ótti okkar ekki á rökum reistur og í versta falli heimskulegur og stór ýktur og minnkar um leið og við höfum orð á honum við einhvern sem við treystum fyrir okkur.

Við þurfum að hafa kjark til að taka skrefið að vera við sjálf. Þýðir ekki að við séum óttalaus, frekar að þrátt fyrir óttann tökum við skrefið og leikum til sigurs okkar eigið hlutverk í þessu lífi. Það er áskorun sem er til staðar alla okkar ævi og ferðin getur vísað okkur veginn að nýjum og innilegri samskiptum og samböndum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um hvernig við komum fram við okkur sjálf og ef það samband er byggt á virðingu og sátt aukum við líkurnar til muna á að geta deilt farsælu sambandi við aðra.

Kærleikskveðja

Anna Lóa