Líf í jafnvægi

Að upplifa vellíðan í lífinu krefst vinnu af okkur en er ekki eitthvað sem gerist að sjálfu sér. Þar koma margir þættir til en ef við skoðum lífið á heildrænan hátt þá vitum við að þegar við vanrækjum einhvern af þeim þáttum sem skipta miklu máli fyrir vellíðan okkar skapast ójafnvægi sem getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir okkur sjálf og umhverfið okkar. Þegar við verðum fyrir áföllum og erfiðleikum í lífinu reynir á og fyrir þessi skrif skoðaði ég áföllin í lífi mínu og hvað ég hef tekið með mér út í lífið þegar kemur að þeim. Ef ég ætti að lýsa því í einni setningu þá finnst mér áföllin hafa eflt þrautseigju mína þegar kemur að erfiðum tilfinningum. Ég hef alltaf brugðist hratt við tilfinningum mínum og gert eitthvað til að laga/deyfa ástandið. En að upplifa svo að standa uppi vanmáttugur og geta ekkert gert nema verið í tilfinningunni sem í mínu tilviki var sorgin, reyndist mér ótrúlega erfitt en lærdómsríkt og hefur skilað sér á jákvæðan hátt inn í líf mitt þrátt fyrir að ég hefði að sjálfsögðu kosið að vera án áfallanna. Tilfinningar okkar eru mikilvægur leiðarvísir en eiga ekki að taka stjórnina. En þrátt fyrir að fara í gegnum hæðir og lægðir í lífinu þá stöndum við oft uppi sterkari ef við erum tilbúin að draga lærdóm af þessum verkefnum. Þegar við erum að takast á við áskoranir getur verið gott að endurskoða og endurmeta líf sitt og vera tilbúin að breyta því sem má betur fara. Þetta er líka tækifær til að huga að andlegu hliðinni á nýjan hátt og í stað þess að bíða aðgerðalaus eftir að lífið færi þér eitthvað, þá getur þú byrjað á því að rækta garðinn þinn og þú munt uppskera eftir því. Fyrsta skrefið er að passa upp á mataræði, svefn og hreyfingu því það er líklega aldrei jafn mikilvægt og í gegnum erfiða tíma að halda líkamanum vel nærðum og í góðu ásigkomulagi. En það er fleira sem þú getur gert og andlega hliðin skiptir ekkert síður máli en sú líkamlega. Þú þarft að vera meðvituð/-aður um hvað fer í gegnum huga þinn, hverju þú veitir athygli þar sem áskorunin felst í að elska, efla og njóta frelsi hugans til að upplifa undraheim lífsins. Þú þarft líka að skoða hvernig samskiptum þínum er háttað en til að upplífa vellíðan í samböndum þarf að vera til staðar gagnkvæm virðing, heiðarleiki og opin tjáskipti. Skoðaðu hvaða ráðleggingum þú ert að fylgja og hvort þú sért að nota tímann þinn vel þegar samskipti eru annars vegar. Ef þú ert að fara í gegnum erfiða tíma er líka mikilvægt að eiga sér stundir þar sem þú leikur þér og hefur það gaman. Þrátt fyrir að þú sért að takast á við áskoranir er mikilvægt að hafa jafnvægi í leik og starfi og það þarf ekki alltaf að vera alvarlegur þrátt fyrir að maður sér að takast á við alvarlega hluti. Skipulegðu eitthvað skemmtilegt í vikunni – eitthvað sem fær þig til að skipta um gír og gera eitthvað allt annað en þú ert vön/vanur. Manneskjan er andleg vera og því mikilvægt að sinna andlegu hliðinni vel til að auka líkur á vellíðan. Ef við sjáum lífið sem heildrænt ferli þar sem við þurfum að huga að nokkrum mikilvægum þáttum til að blómstra erum við betur sett til að taka á móti þeim verkefnum sem okkur eru ætluð á þessari göngu. Lífið er nú einu sinni þannig að öll þurfum við einhvern tímann að takast á við erfiðleika og þó við getum ekki haft áhrif á þær aðstæður sem valda okkur vanlíðan kunnum við hins vegar að geta haft áhrif á afstöðu okkar til þessara verkefna. Lífið sjálft og okkar innri maður er í sífelldri endurnýjun – svo framarlega sem við leyfum því gerast. Kærleikskveðja Anna Lóa