Leiktu til sigurs!

Þetta líf er ekki æfing fyrir annað og betra líf. Þetta líf er ekki generalprufa fyrir frumsýninguna. Þetta er frumsýningin og því mikilvægt að njóta hennar til fullnustu. Það skiptir líka máli að sætta sig ekki við að leika endalaust aukah...lutverkið og ætla öðrum aðalhlutverkið. Það sem skiptir máli er að þú takir þitt hlutverk alvarlega án þess að taka sjálfan þig alvarlega og ,,leikir“ til sigurs!! Til þess að geta leikið til sigurs þarftu að vita hvað þú vilt. Þú þarft að leyfa þér að eiga drauma og vera nógu sterkur einstaklingur til að fylgja þeim eftir. Styrk þinn getur þú eflt með því að auka smám saman hugrekkið. Óvinir hugrekkis eru kvíði og ótti og því þarf að taka á því hvaðan þær tilfinningar koma. Kvíði og ótti geta haldið okkur frá hættum en geta líka aftrað okkur frá því að taka þátt í lífinu á heilbrigðan hátt. En rótin að þessum tilfinningum eru oft aðrar tilfinningar eins og varnarleysi og skömm. Það er svo mikilvægt að við æfum okkur í hugrekki og það gerum við yfirleitt með því að tjá okkur um þá hluti sem við teljum að geri okkur minni - já of lítil til að eigna okkur aðalhlutverkið í sýningunni OKKAR. Þegar við upplifum skömm langar okkur mest að loka okkur af en mikill léttir sem fylgir því að viðurkenna og jafnvel virða ófullkomleika okkar með því að deila með öðrum það sem við erum að upplifa. En við deilum ekki með hverjum sem er - við deilum með þeim sem hefur unnið sér réttin til að heyra það sem við höfum að segja - einhver sem elskar okkur eins og við erum eða einhvern sem hefur faglega þekkingu til að hlusta. Hugsanir okkar um okkur skipta máli. Við þurfum að æfa okkur að tala við okkur sjálf eins og við mundum tala við einhvern sem við værum að reyna að hughreysta. Þegar við upplifum skömm tölum við yfirleitt niður til okkar og á þann hátt sem við mundum ALDREI tala við nokkurn sem við elskum og virðum. Við þurfum líka að eigna okkur handritið sem er grunnurinn að frumsýningunni- því ef þú átt handritið er það undir þér komið að skrifa endinn. Ekki grafa niður eða reyna að gleyma handritinu eða skilgreina þig algjörlega út frá því. Oftar en ekki eru það við sjálf sem dæmum okkur út frá handritinu okkar - og þar sem skömmin þrífst á leyndinni sem umlykur hana - þá minnkar hún um leið og við tjáum okkur um hana. Við þurfum að minna okkur á að við erum jafn veik og leyndarmálin okkar segja til um. Frumsýning okkar allra er jafn mikilvæg - engin ákveðinn hópur eða einstaklingur sem á frátekið þetta hlutverk. Carl Jung sagði; ,,ég er ekki það sem hefur gerst fyrir mig. Ég er það sem ég vel að verða“. Kærleikskveðja! Anna Lóa