Leiðtogar framtíðar!
Ég hef oft skrifað um að þegar við leyfum okkur að upplifa vanmátt og varnarleysi gagnvart líðan okkar og tilfinningum erum við að dýpka okkur og auka líkur á heilbrigðum tengslum við aðra. En hvað með vinnustaðina okkar, bjóða þeir upp á að við deilum líðan okkar með öðrum sem mundi þá dýpka tengslin og minnka skömmina. Staðreyndin er sú að skömmin leynist víða á vinnustöðum og dregur smám saman úr trausti, nýsköpun, tengslum og góðri vinnustaðarmenningu. Stundum er skömmin jafnvel notuð sem stjórntæki en þá eru starfsmenn mis hátt skrifaðir og einhverjir jafnvel áberandi undir og það „mega“ allir gagnrýna þá. Menningin einkennist af fullkomnunaráráttu, ójöfnuði, baktali, flokkun, það er unnið á bak við tjöldin, ríkjandi samanburður, áreitni, mismunun, valdaójafnvægi, einelti, stríðni, yfirhylmingu o.fl.
Leiðtogar framtíðar þurfa fyrst og fremst að búa yfir færni í mannlegum samskiptum, tilfinningagreind og hlusta með huga og hjarta. Í þeim tilvikum þar sem þessir þættir eru ekki hluti af námi þarf að ná sér í þekkinguna. Það ættu allir sem ætla að taka að sér leiðtogastörf að fá þjálfun í virkri hlustun, tilfinningagreind og samkennd! Samkennd á vinnustöðum skiptir miklu máli, en öryggi og vellíðan á vinnustöðum er meiri þar sem fólk upplifir samkennd og þar sem er gefið rými fyrir mýkri færniþætti (soft skills). Leiðtogar framtíðar sem ætla að leiða með samkennd að leiðarljósi þurfa að búa yfir vaxtarhugarfari, vera tilbúnir að þróa hæfni sína áfram og þiggja aðstoð þar sem þarf. Bestu leiðtogarnir eru tilbúnir að sjá heiminn með augum annarra þrátt fyrir að sú sýn sé mjög ólík þeirra, sýna sjálfum sér mildi og gera ekki þá kröfur að þeir séu með öll svörin.
Einmanaleiki er alheimsvandi og því skiptir líka máli að búa til rými fyrir tengsl og skoða hverskonar vinnuumhverfi styður við tengslamyndun á vinnustöðum. Vissuð þið t.d að þar sem einstaklingar upplifa að þeir eigi allavega einn vin á vinnustaðnum, einhvern sem þeir treysta betur en öðrum, líður mun betur en þeir sem upplifa að þeir eigi einungis samstarfsfélaga þar sem tengslin eru lítil fyrir utan það sem tengist vinnunni. Leiðtogar þurfa að skilja og virða tungumál tilfinninga en ég man þegar ég lærði fyrst um tilfinningagreind hvað það var margt sem kom mér á óvart. Það er alls ekki það sama að vera mikil tilfinningavera og búa yfir mikilli tilfinningagreind.
Dæmi um þetta er t.d að frestun á umbun er talin mikilvægur þáttur í að efla tilfinningagreindina og þar er oft vísað í hina frægu sykurpúðarannsókn. Heilhveitibrauð og sykurpúðar voru sett fyrir framan ung börn með þeim fyrirmælum að þau mættu borða hvorutveggja en það væri best að borða heilhveitibrauðið fyrst og svo sykurpúðann. Ef þau völdu brauðið fyrst fengu þau auka sykurpúða en ef þau gripu strax sykurpúðann fengu þau bara einn.
Man að ég fölnaði þarna því ég var mjög meðvituð um að sem barn hefði ég gripið sykurpúðann og það fljótt enda alin upp í stórum systkinahópi og allt eins líklegt að einhver annar væri búin að hrifsa hann ef ég tæki áhættuna á að bíða. Það er erfitt að sitja í erfiðum tilfinningum, borða „heilhveitibrauðið“ fyrst og bíða hlutina af sér. Því er haldið fram að sá styrkleiki að geta frestað ánægju eða umbun sé einn af hornsteinum í þroska mannsins frá barnæsku til fullorðinsára og til að auka tilfinningagreindina þurfum við að æfa okkur í að fresta umbun. Við búum í dag við þann veruleika að við þurfum nánast ekki að bíða eftir neinu. Getum nálgast hlutina hratt og örugglega og svifið um á sykurpúðaskýi flesta daga. Leiðtogar framtíðar þurfa því að geta setið í gegnum erfiða tíma með fólkinu sínu í stað þess að bjóða upp á sykurpúðapartý til að skapa skammtíma gleði í stað þess að huga að langtíma heilbrigði.
Við erum mörg hver að meta lífið á annan hátt eftir covid og skoða hvaða þættir það eru sem veita okkur lífsfyllingu. Við viljum breytingar en umfram allt þá viljum við að það sé hlustað á okkur. Eitt stærsta heilsufarsvandamál heimsins er andleg heilsa fólks og leiðtogar framtíðar verða að huga að þessu. Maðurinn er fyrst og fremst tilfinninga- og tengslavera þar sem ekki er pláss fyrir tilfinningar notum við egóið sem leið til að forðast að takast á við þær. Umræðuhefðin býður ekki upp á allt þetta „tilfinningaraus“ sem er bara fyrir dramadrottningar og viðkvæma og jafnvel gengið svo langt að hrósa þeim einstaklingum sem loka á tilfinningar sínar; þú ert nú alltaf svo sterk/-ur! Þegar fyrirtækjamenningin litast af því að það sé mikilvægara að líta vel út utanfrá en að tala um óþægilega hluti, er margt brotið.
Tilfinningar okkar hverfa ekki þrátt fyrir að við reynum að afneita þeim, en við getum deyft þær með; meiri vinnu, mat, áfengi, kynlífi, samböndum, peningum, trúarbrögðum, fullkomnunaráráttu, samfélagsmiðlum eða endurteknum breytingum á lífinu. Eitthvað af þessu getur deyft tímabundið en er bara alls ekki góð leið til að takast á við erfiðleika þegar til lengri tíma er litið. Við þurfum að vera meðvituð um að þegar við deyfum þessa dimmu tíma þá erum við að deyfa björtu tímana í leiðinni.
Ég þurfti að minna mig á þetta í dag – sleppa því að grípa sykurpúðann strax og muna að skammtíma gleði er oft á kostnað langtíma heilbrigðis!
Kærleikskveðja úr horninu mínu,
Anna Lóa
Heimild: Dare to lead (Brené Brown)
Mynd: shutterstock.com