Lausn frá meðvirkni

Skrifaði um meðvirkni fyrir nokkrum dögum en hvaða skref tökum við þegar við viljum losa okkur undan henni! Það er mikilvægt að maður læri að þekkja sjálfa sig: styrkleika, veikleika, tilfinningar, hugsanir, drauma og þrár. Sá sem þekkir sjálfan sig vel og kann að uppfylla eigin þarfir er betur í stakk búinn til að vera til staðar fyrir aðra og tekur frekar ábyrgð á eigin líðan. Sá meðvirki er oft fastur í órökréttum hugsanavillum og oft vegna þess að verið er að burðast með erfiðar tilfinningar úr fortíðinni. Það getur verið um að ræða óuppgerða orku vegna áfalla í æsku og því er eitt af markmiðunum að vinna úr sársaukafullum áföllum fortíðar í stað þess að bæla niður þessar tilfinningar og upplifa jafnvel skömm vegna þeirra. Skömmin okkar er alltaf jafn mikil og leyndarmálin eru mörg og ef maður er vanur að eyða mikilli orku í að passa að sannleikurinn komi ekki í ljós – þarf maður að vera tilbúin til að horfast í augu við það. Maður þarf líka að vera tilbúin að skoða samböndin sem maður á að baki. Þeir sem eru meðvirkir laðast oft að spennandi fólki annars vegar og hins vegar fólki sem þarfnast þeirra. Ástæðan er skert sjálfsmat og þannig finnst þeim eftirsóknavert að umgangast þá sem mikið ber á eða þá sem þarfnast þeirra mikið. Sá meðvirki reynir að breyta sér í þá manneskju sem hann telur að hinn aðilinn vilji og gerir þau mistök að fara frá þeirri persónu sem hinn aðilinn varð ástfanginn af í aðra persónu sem hinn aðilinn kærir sig ekki um. Bæði þessi sambönd eru dæmd til að mistakast ef ekki er gripið í taumana og unnið að uppbyggingu (Árni Þór Hilmarsson. (1993). Uppkomin börn alkóhólista.) Eitt einkenni meðvirkni er sú tilhneiging að vænta þess að einhver einn atburður færi okkur hamingjuna eins og prinsinn á hvíta hestinum eða eina rétta konan. Þannig festist maður í barnatrúnni sinni og á meðan er maður ekki að þroska með sér heilbrigðar væntingar. Þegar þroskinn er eðlilegur, vöxum við upp úr sögulegu gildi þessara sagna og meðtökum táknrænt gildi þeirra en bíðum ekki eftir því að finna töfralausn til að geta orðið ,, happily ever after“. Þegar við erum meðvirk hættum við að vera sjálf-virk. Látum aðra ganga fyrir og erum í lélegum tengslum við okkur sjálf. Það er því mikilvægt að efla sjálfan sig og gott að byrja með því að setja sjálfum sér mörk. Byrjaðu smátt og jafnvel á hlutum sem þú veist að þú ræður við og bæta svo við eftir því sem þú treystir þér til. Með því finnur þú smám saman styrk þinn og teystir þér til að gera meira. Það má kalla þetta kjarkæfingar – þar sem við þurfum kjark til að gera hlutina á annan hátt en við erum vön. Breytingarnar byrja með okkar eigin meðvitund. Það getur verið gott að skrifa niður hverju þú vilt breyta í eigin lífi og hvaða skref á að taka til að koma þessari hegðun á. Það má alltaf reikna með því að þegar tekist er á við breytingar að við missum jafnvægið, já dettum með andlitið í stéttina og gamla hegðunin með tilheyrandi tilfinninga-rússi ryðst aftur inn í lífi okkar. Þá skiptir máli að við séum góð við okkur sjálf, önnumst okkur áfram en skömmumst okkur ekki og hlaupum í felur. Endurbatinn snýst um að ná jafnvægi og halda því og vera meðvituð um að gera það sem að við vitum að er gott fyrir okkur í slíkum aðstæðum. Stundum þurfum við að fá einhvern til að hjálpa okkur að setja súrefnisgrímuna á okkur - því hún er jafnvel þarna við hliðin á okkur og við vitum hvernig á að nota hana, en vantar kraftinn til að setja hana upp. Þegar hún er komin á sinn stað er það okkar að draga andann djúpt og fara það vel með okkur að súrefnisskammturinn dugi sem lengst. Leiðin út úr meðvirkni er lífstíðarverkefni og ekki eins hjá neinum. Lífið er vinna, og því meira sem við leggjum í þá vinnu má vænta betri uppskeru. Fyrsta skrefið er alltaf að átta sig á því að maður vill breyta einhverju og þar með auka lífsgæði sín. Við eigum þetta eina líf og því mikilvægt að við lifum því eins vel og við getum. Með því að staldra við og skoða hvað það er sem við getum gert betur og styrkja okkur sjálf í framhaldi af því, erum við kannski að taka fyrsta skrefið en jafnframt það mikilvægasta í átt að betra lífi - viðurkenna að mikilvægasta sambandið í lífinu er við okkur sjálf! Læt þetta duga í bili! Kærleikskveðja Anna Lóa