Lærðu og lifðu!

Hef talað um það áður að það eru forréttindi að vera í starfi þar sem ég verð oft vitni af því að sjá fólk blómstra á eigin forsendum - blómstra vegna þess að það er að öðlast aukna trú á sjálfan sig og þegar það gerist er eins og viðkomandi sjái lífið í öðru ljósi. Draumar sem voru ofan í skúffu eru teknir aftur upp og líf margra tekur jákvæðum breytingum.

Fyrsti sigurinn er sætur og alls ekki óalgengt að öryggið sem maður öðlast í byrjun geti líka leikið mann pínu grátt. Maður ætlar sér kannski aðeins of mikið og þegar verkefnin þyngjast og maður upplifir vanmátt er öryggið sem maður fann fyrir í byrjun ekki til staðar. Þá gerist það stundum að gamlar hugsanir og draugar láta á sér kræla og viðkomandi telur sig bara alls ekki ráða við stöðuna. Þegar þetta gerist minni ég nemendur mína á: ef námið er þannig að það reynir ekkert á þig þá ert þú heldur ekki að bæta miklu við þig!

Það má yfirfæra þetta á svo margt í lífinu og þrátt fyrir að ég sé búin að nota fjölda ár í að mennta mig þá er ég svo langt í frá að ég sé hætt að læra. Ég þarf að minna sjálfa mig á þegar ég tekst á við nýja hluti að allt tekur þetta tíma og ég verð að gefa mér þennan tíma. Ég þarf að minna mig á að fyrstu skrefin geta verið klaufaleg sem þýðir ekki að ég geti ekki tekist á við verkefnið. Ég þarf að minna mig á að sama hvað ég er að læra þá er allur lærdómur krefjandi og dregur fram vanmátt okkar á ákveðnum tímabilum.

Bestu nemendurnir eru ekki þeir sem koma fullnuma inn í ný verkefni til að þurfa ekki að deila vanmætti sínum með öðrum. Þvert á móti eru það þeir sem eru tilbúnir til að viðurkenna að það er sama hvað þú ert með margar ,,gráður“ úr skóla - ef þú ert að gera eitthvað sem þú hefur ekki gert áður þá þarftu að gefa þér tíma til að læra. Í þessu stóra samhengi lífsins þá eru það ekki einhverjir útvaldir sem ráða við krefjandi verkefni - það eru þeir sem eru tilbúnir að taka slaginn þrátt fyrir að átta sig ekki alveg á því hver útkoman verður. Það eru þeir sem hafa kjark til að gera mistök og halda áfram þrátt fyrir þau því þeir  vita að til að ná árangri þarftu að hafa kjark til að halda áfram. 

Það skiptir ekki máli hvar við erum stödd í lífinu - og það hefur ekki verið útdeilt einhverjum ákveðnum kvóta um hver megi læra og hver ekki. Skiptir ekki máli hvort þú sért að læra að nota borvél, dansa tangó, heimspeki í Háskóla Íslands, setja fólki mörk eða standa með sjálfum þér - allt skiptir þetta máli og eflir okkur á einn eða annan hátt. Snýst um hver þú verður þegar þú tekst á við hin mörgu verkefni lífsins.

Mundu að þeir sem eru uppteknir af því að benda þér á mistökin þín eru oftast þeir sem hafa ekki kjark til að gera mistök sjálfir. Haltu áfram því þetta snýst ekki um hver þú ert í augum annarra - snýst um að þú hafir kjark til að lifa því lífi sem þú velur fyrir þig og þá fara hlutirnir að gerast fyrir alvöru!!

Baráttukveðjur

Anna Lóa