Krákustígar lífsins!

Áföll og erfiðleikar hafa áhrif á sjálfstraustið, en það sama gera hugsanir okkar og ágengni annarra. Þegar heimurinn breytist í kringum okkur ógnar það tilverunni og því fylgja efasemdir og óöryggi sem geta haft alvarlegar afleiðingar fái maður ekki aðstoð eða sé því meðvitaðri um að þetta sé tímabundið ástand.
Lífið er nú einu sinni þannig að það sendir okkur verkefni sem við tökumst á við, erum reynslunni ríkari og jafnvel sterkari á eftir, þrátt fyrir að hafa viljað vera án margra þessara verkefna. Lífið er nú bara einu sinni þannig að við geymum jafnvel ör, sem eru afleiðingar verkefnanna og þess vegna þurfum við að vera meðvituð um áhrif sögunnar okkar á líf okkar og hvernig við bregðumst við erfiðleikum. Skortur á sjálfstrausti
Skortur á sjálfstrausti snýst yfirleitt ekki um hvað við getum eða getum ekki gert – snýst mikið frekar um þær hugmyndir sem við höfum um okkar sjálf sem eru oftar en ekki byggðar á úreltum hugsunum okkar eða breyttum aðstæðum eins og kom fram hér að ofan. En þessar hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf gera það samt að verkum að við treystum okkur ekki til að takast á við ýmislegt sem við vitum að gerir okkur gott eða hefur dreymt um til margra ára.
Fyrir manneskju sem lendir í áfalli þá getur það gerst smám saman að viðkomandi einangrast félagslega og þá er stærsta kjarkæfingin fólgin í því að fara út á meðal fólks. Þegar maður er á þessum stað skiptir ekki öllu máli hvað maður gerir – verkefnið snýst um að mæta á staðinn og mæta fólki. Fyrir þann sem hefur ekki verið á þessum stað gæti þetta hljómað sem einfalt verkefni en eftir stór áföll þá eru þetta oft á tíðum mjög þung skref.
En svo er sjálfstraustið líka þannig að ef þú ert ekki að ögra þér og takast á við einhverjar áskoranir þá gerist það oftar en ekki að hlutir sem þú áttir einu sinni auðvelt með að gera reynast þér einn daginn erfiðir. Þegar við erum óvirk og förum að mikla hlutina fyrir okkur þá smám saman fer maður í að fresta og afleiðingarnar eru neikvæðar hugsanir sem enn auka á óöryggið. Fyrir þann sem er á þessum stað getur skipt öllu máli að komast í virkni þrátt fyrir að það sé það síðasta sem manni dettur í hug eða langi til.
Við þurfum að æfa okkur í að ná í öryggið okkar og það gerum við með því að takast á við ýmsa hluti sem eru fyrir utan þægindahringinn okkar. Við þurfum að æfa okkur í að bera kennsl á hugsanir okkar og hvaða áhrif þær hafa á okkur. Þegar við erum með lélegt sjálfstraust hefur það áhrif á svo margt í lífi okkar. Við erum dómhörð á okkur sjálf og leyfum okkur ekki að gera mistök eða dæmum okkur harkalega fyrir þau. Gott sjálfstraust ekki fullkomnun!
Sá sem þarf alltaf að vera duglegur, leitast við að ná einhverjum fullkomleika, gerir óraunhæfar kröfur til sín og umhverfisins, er að fást við óöryggi. Sá sem tekur lífinu of alvarlega, getur ekki séð fegurðina í einfaldleikanum en þarf alltaf að vera að heyja baráttur því lífið er svo erfitt, er að fást við óöryggi. Sá sem telur ytra útlit sitt ekki nógu gott og ekki standast einhverja ákveðna staðla, vantar virðingu fyrir eigin sjálfi sem á sér rætur í óöryggi. Sá sem upplifir að hann hafi ekkert til málanna að leggja og hans skoðanir skipti ekki máli, er að fást við óöryggi og svo mætti lengi telja.
Af því að ég skrifaði um þakklæti fyrir stuttu þá er rétt að bæta því við að það er þessi gullni meðalvegur sem skiptir máli. Að vera þakklátur fyrir allt það góða sem við höfum í lífinu á sama tíma og við erum á varðbergi gagnvart því að lenda ekki í kyrrstöðu og finnast allar breytingar ógnandi. Mundu að þeir sem eru með gott sjálfstraust eru EKKI þeir sem eru góðir í öllu eða þeir sem gera aldrei mistök – heldur þeir sem nýta sér styrkleika sína, sætta sig við það sem þeir geta ekki breytt en stefna ótrauðir að því að bæta það sem þeir geta bætt.

Kærleikskveðja
Anna Lóa