Kjarkur!

Orð vikunnar hjá mér er kjarkur. Ætla að vera meðvituð um hvernig ég get orðið kjarkmeiri í lífinu. Ég upplifi kjark á hverjum degi hjá fólki í kringum mig. Ég upplifi kjark hjá nemendum mínum á hverjum degi þegar þeir segja ,,ég skil þetta ekki, getur þú útskýrt þetta betur“. Fyrir hvern nemanda sem viðurkennir að hann skilur ekki eitthvað eru líklega aðrir 10 sem skilja ekki en segja ekkert. Ég upplifi kjark hjá fólki sem leitar sér hjálpar - sem viðurkennir vanmátt sinn og segir ,,ég get ekki meir án hjálpar“. Ég upplifi kjark hjá fólki sem þorir að segja hvernig því líður þrátt fyrir að öðrum finnist að líðanin eigi að vera allt öðruvísi. Í mínum huga er það kjarkur að segja það sem þér finnst þrátt fyrir að taka áhættuna á að vera hafnað í kjölfarið. Mér finnst fólk sýna ótrúlega mikinn kjark þegar það fylgir hjartanu þrátt fyrir skoðanir annarra. Mér finnst fólk sýna kjark þegar það tekur upp hanskann fyrir öðrum þegar verið er að slúðra og jafnvel að samsama sig þeim sem verið er að slúðra um með því að viðurkenna að þú sért svo langt frá því að vera gallalaus og gætir allt eins hafa lent í þessu. Ég bókstaflega elska þegar fólk hefur kjark til að grípa inn í óþægilegar aðstæður til að láta öðrum líða betur í stað þess að dæma. Af nægu er að taka - en kjarkur er ein af mikilvægari dygðum lífsins og snýst í mínum huga um að takast á við sjálfan sig alla leið, þrátt fyrir að einhverjir hafi misjafnar skoðanir á því hvert maður er að fara! Kærleikskveðja Anna Lóa