Katie og Hubble!!

Elska að horfa á bíómyndir og greina þær. Ein af mínum uppáhalds er The way we were með þeim Barböru Streisand og Robert Redford. Ástarsaga Hubble og Katie er öðruvísi en þær margar en þar kemur einmitt fram að Katie reynir vera einhver önnur en hún er í grunninn til að auka líkur á því að vera elskuð.  Katie er sjálfstæð, dugleg, greind og mikil baráttukona sem þekkir lífsskoðanir sínar betur en margur. Hún tekur lífinu alvarlega, já stundum allt of alvarlega og gefur lítið rými fyrir leik og gleði. Hún þarf alltaf að vera að sanna sig og lífið verður ein stór barátta. Hún reynir svo mikið að láta allt ganga upp og ekki laust við að maður verður þreyttur á að fylgjast með henni á sama tíma og maður dáist að henni.

Henni finnst hún vera öðruvísi og ekki eiga heima með þeim sem eru endalaust að leika sér og njóta lífsins. Þeir verða óvinir hennar og því erfitt fyrir hana að viðurkenna að hún girnist einn úr hinu liðinu. Óöryggið kemur enn betur í ljós eftir að þau fara að verða saman því hún stjórnar sambandinu frá byrjun með því að skoða hverju þarf að breyta til að það gangi upp. Hún er tilbúin til að ganga ansi langt og þrátt fyrir sterkar lífsskoðanir, hendir hún þeim fyrir róða þegar ástin er annars vegar. Hún efast líka um eigið útlit og er hrædd um að maður eins og hann getir ekki verið ástfanginn af konu eins og henni því hún sé ekki nógu aðlaðandi fyrir hann.

Það sem myndin skilur mig eftir með er spurningarnar: af hverju gefum við afslátt af eigin lífsskoðunum og gildismati til að láta hlutina ganga upp þegar ástin er annars vegar? Af hverju verður ástin svona stór hluti af lífi okkar og þá oft á kostnað annarra mikilvægra þátta? Hvað er það í manneskjunni sem gerir það að verkum að ástin verður þetta aðal atriði í lífinu og manneskjan gleymir sjálfri sér og draumum sínum og réttlætir það með ástinni?

Óöryggi er líklega stærsta ástæðan og að elska ekki sjálfan sig nógu mikið. Með því að gera miklar kröfur til sjálfrar sín og lífsins í stað þess að leyfa lífinu að gerast er áskorun sem við ættum að taka.

Sá sem þarf alltaf að vera duglegur, leitast við að ná einhverju fullkomleika, gerir óraunhæfar kröfur til sín og umhverfisins er að fást við óöryggi. Sá sem tekur lífinu of alvarlega, getur ekki séð fegurðina í einfaldleikanum en þarf alltaf að vera að heyja baráttur því lífið sé svo erfitt, er að fást við óöryggi. Sá sem telur ytra útlit sitt ekki nógu gott og ekki standast einhverja ákveðna staðla, vantar virðingu fyrir eigin sjálfi sem á sér rætur í óöryggi. Allt þetta getur einmitt gert það að verkum að þrátt fyrir að búa yfir ákveðnum lífsskoðunum og vilja til að berjast fyrir þeim þá hendir manneskjan þeim fyrir róða til að vera elskuð því þaðan trúir hún að öryggið komið. Ef það er satt að ótti okkar í lífinu snúist að mestu leyti um að vera hafnað þá er kannski rökrétt að vænta þess að vellíðan okkar að tengist því að vera elskaður.

Vandi Katie í hnotskurn er að gera of miklar væntingar til hjónabandsins og gleyma öðrum þáttum á meðan sem skiptu hana þó miklu máli. Hún vanrækti í raun þá manneskju sem hún var í raun og veru og má segja að þarna sé gott dæmi um öskubuskuáráttuna, þ.e að fórna sér fyrir prinsinn sinn. Á sama tíma og lífsskoðanir hennar tengis því að berjast fyrir réttlæti í heiminum og auka jöfnuð meðal þegnanna gleymir hún að heilbrigt samband getur aðeins orðið á milli tveggja jafningja. Einhversstaðar hefur hún þá staðföstu trú að með því að vera ofur dugleg, ofur klár og ofur góð fái hún prinsinn sinn að launum. Með því að vera nánast fullkomin og gera hann á sama tíma fullkominn því hún gat gert svo mikið fyrir hann. Katie áttaði sig ekki á að brot læknar brot, að ákveðinn ófullkomleiki og viðurkenning á honum skiptir miklu máli. 

Katie hefði þurft að leita merkingar fyrir líf sitt í stað þess að gera sig ómissandi í lífi Hubbell. Hún óskaði Hubbel að vaxa og þroska í sambandinu en gleymdi sjálfri sér. Í lokin nær Katie aftur í sjálfa sig og áttað sig á því að það er ekki nóg að óska öðrum aðilanum frekari vöxt og þroska í sambandinu - báðir verða að upplifa slíkt.

The way we were er ein af mínum uppáhalds og til að draga þetta saman þá á þessi setning ágætlega við: hættu að vera það sem þú varst og leyfðu þér að vera það sem þú ert.

Kærleikskveðja

Anna Lóa