Jafnvægi milli vinnu og einkalífs!

Nú eru margir að byrja að vinna aftur eftir sumarfrí og þá getur verið gott að ákveða hvernig maður ætlar að takast á við vinnuna sem er framundan. Við lifum á tímum hraða og við hefðum ekki getað ímyndað okkur fyrir nokkrum tugum ára síðan hvað hlutirnir geta gengið hratt fyrir sig. Við erum fullbókuð meira eða minna hverja einustu mínútu sólarhringsins, rjúkum á milli staða og verkefna eins og hendi sé veifað og leggjumst meðvitundarlaus upp í rúm á kvöldin. Þrátt fyrir að líkami okkar sé það fullkominn að hann geti brugðist við streitu og bent okkur á hvenær er komið nóg og við þurfum að hægja á okkur, þá hættum við að veita viðvörunarbjöllunum athygli við mikla og langvarandi streitu. Þá verður það ástand ,,normal“ og við ráðum illa við þegar hægist um og þá lætur eirðarleysið oftar en ekki á sér kræla og við reynum að finna okkur einhver verkefni til að fylla upp í tímann.

Vinnan skiptir miklu máli og er talað um að þrjú mikilvægustu hlutverk okkar í lífinu séu vinna, ást/kærleikur og tómstundir. Ef einstaklingur aðlagast illa í vinnu eða ef vinnan fullnægir ekki þörfum hans á einhvern hátt má gera ráð fyrir ójafnvægi í lífi þess einstaklings. Það sama á við ef einstaklingur aðlagast vel að vinnu sinni en hún tekur yfir líf hans og persónulegt líf situr á hakanum. Draumastaðan er að einstaklingur finni ákveðið jafnvægi milli þess að vera fullnægður í vinnu og í sínu persónulega lífi.

 

Dæmigerð lýsing á einstakling sem lifir fyrir vinnuna væri að hann:

• tekur vinnuna alltaf með sér heim

• finnur fyrir sektarkennd þegar hann/hún er ekki að sinna vinnunni

• vinnur langa vinnudaga

• finnur fyrir óróleika í frítíma sínum

• á erfitt með að slaka á

• á erfitt með að skuldbinda sig í verkefni sem tilheyra einhverju öðru en vinnunni

Vinnan göfgar manninn – en spurningin er kannski, hvað ef vinnan er orðinn maðurinn? Ef einstaklingur byggir sjálfsmynd sína út frá því hversu mikilvæg vinnan hans er og upplifir sig ómissandi á vinnustaðnum og utan hans, er hætta á að heimur hans hrynji ef það kemur til þess að hann missi vinnuna.

Í mínu tilviki þá sést það á mér þegar ég er stressuð en þá fer ég að ganga hratt og rösklega inni á vinnustaðnum mínum, borða standandi, með símann á eyrunum öllum stundum, tala hátt og það fer ekki framhjá neinum að það er ,,brjálað“ að gera hjá mér. Ég hef meðvitað verið að breyta þessu, setjast niður til að borða, gefa mér tíma fyrir spjall við vinnufélagana og hætta að láta eins og ábyrgð heimsbyggðarinnar sé á mínum herðum. Ég vil ekki dreifa streitunni á meðal samstarfsfólksins því vinnustaður sem er yfirfullur af streitu er ekki skapandi vinnustaður. Svo vil ég ekki að fólk fái það á tilfinninguna að það sé ekki hægt að trufla mig því það sé allt ,,brjálað“ hjá mér J

Vonandi sigli þið í rólegheitum inn í vinnuna framundan og til ykkar sem eruð í fríi – njótið þess að kúpla ykkur alveg frá vinnunni. 

Anda inn og anda út!!

 Anna Lóa