Jafnvægi milli vinnu og einkalífs!

Dæmigerð lýsing á einstakling sem lifir fyrir vinnuna væri að hann:
• tekur vinnuna alltaf með sér heim
• finnur fyrir sektarkennd þegar hann/hún er ekki að sinna vinnunni
• vinnur langa vinnudaga
• finnur fyrir óróleika í frítíma sínum
• á erfitt með að slaka á
• á erfitt með að skuldbinda sig í verkefni sem tilheyra einhverju öðru en vinnunni
Vinnan göfgar manninn – en spurningin er kannski, hvað ef vinnan er orðinn maðurinn? Ef einstaklingur byggir sjálfsmynd sína út frá því hversu mikilvæg vinnan hans er og upplifir sig ómissandi á vinnustaðnum og utan hans, er hætta á að heimur hans hrynji ef það kemur til þess að hann missi vinnuna.
Í mínu tilviki þá sést það á mér þegar ég er stressuð en þá fer ég að ganga hratt og rösklega inni á vinnustaðnum mínum, borða standandi, með símann á eyrunum öllum stundum, tala hátt og það fer ekki framhjá neinum að það er ,,brjálað“ að gera hjá mér. Ég hef meðvitað verið að breyta þessu, setjast niður til að borða, gefa mér tíma fyrir spjall við vinnufélagana og hætta að láta eins og ábyrgð heimsbyggðarinnar sé á mínum herðum. Ég vil ekki dreifa streitunni á meðal samstarfsfólksins því vinnustaður sem er yfirfullur af streitu er ekki skapandi vinnustaður. Svo vil ég ekki að fólk fái það á tilfinninguna að það sé ekki hægt að trufla mig því það sé allt ,,brjálað“ hjá mér J
Vonandi sigli þið í rólegheitum inn í vinnuna framundan og til ykkar sem eruð í fríi – njótið þess að kúpla ykkur alveg frá vinnunni.
Anda inn og anda út!!
Anna Lóa